Monday, April 20, 2009

Íranfarar komnir alsælir heim


Myndin er tekin í vinjabænum Kasjan sem við skoðuðum síðasta daginn. Gurrí tók myndina með kúnst og er á henni sjálf. Lára og Þorsteinn voru farin heim og vantar því á myndina.

Góðan daginn öll

Íranhópurinn skilaði sér heim seinni part rigningar og rokdags núna áðan. Allir ánægðir og vel á sig komnir, held ég megi segja Kvaðst með virktum á Keflavík og síðan verður efnt til myndakvöld seinni hluta maí eftir að ég kem frá Jemen.

Næst síðasta daginn keyrðum við sem sagt frá Isfahan og gerðum stans í Kasjan sem er ljúf vinjaborg Þar skoðuðum við falleg og tíguleg hefðarhús og dýrðlega garða þar sem lækir skoppuðu og léku við hvern sinn fingur. Þeir bílstjórar bjuggu okkur góðan hádegisverð á meðan við vorum á trítlinu.
Þegar við mættum til Teheran var farið aftur á Homa hótel og borðað þar og morguninn næsta,m þ.e. í gærmorgun var ferð á þjóðminjasafnið og hrifust allir af því. Keyptum alls konar gúmmulaði eins og hnetur og kökur og síðan tóku menn því rólega seinni partinn. Pökkuðu eða skoðuðu sig betur um í Tehran.
Kveðjukvöldverðurinn var til fyrirmyndar, ég þakkaði hópnum einstaklega góða samveru þessar tvær vikur og benti á þá kynlegu staðreynd að mér finnst alltaf sá hópur sem er á ferð hverju sinni vera sá besti. Sigríður Ásgeirsdóttir sagði falleg orð til mín og svo fengu þeir bílstjórar Mohammed og Ali smágjafir og voru afskaplega ánægðir eins og við öll.

Um nóttina til flugvallar og þar kvöddum við Stefaníu Khalifeh en hún flaug til Jórdanú. Allmaragir gaukuðu að mér írönskum peningum sem lagðir verða inn á Fatimusjóð og takk fyrir það og þann hug sem að baki býr.

Við komuna til Frankfurt færðum við okkur milli terminala og síðan var flugið til Íslands kl. tvö. Þegar heim kom höfðu menn því verið á ferðinni meira og minna í sólarhring eða vel það. Allir voru þó hressir og glaðir og hlakka til að hittast á myndakvöldinu

Vil benda Jemenförum á að við ætlum að hafa miðafhendingar og ferðagagnafund n.k. sunnudag kl hálf tvö STUNDVÍSLEGA í gamla Stýró við Öldugötu. Þar spjöllum við um væntanlega ferð og ég keypti hnetur og sætindi í Íran sem við maulum með tei eða kaffi.

Þakka svo enn og aftur Íranförum öllum góðar samverustundir.

Ég vænti þess að fréttabréfið sé komið til ykkar eða í þann veginn að detta inn um lúguna.

1 comment:

Unknown said...

Ég þakka öllu samferðafólki mínu hjartanlega fyrir góða ferð, og ekki síst þér Jóhanna sem ég fann ekki þegar ég fór af flugvellinum. Þetta er afar áhugavert land fyrir margar sakir og verður gaman að fylgjast með því í framtíðinni.Hlakka til að hitta alla á myndakvöldi.Inga Óskars