Sunday, May 3, 2009

Fjölmennur aðalafmælisfundur - munið greiðslur inn á ferðir


Frá fundinum í dag. Vera Illugadóttir tók myndina

Afmælisaðalfundurinn í dag, sunnudag tókst afar vel og um sextíu manns komu á fundinn

Mörður Árnason var fundarstjóri og JK flutti skýrslu stjórnar sem sýndi afar hressilegt starf á árinu. M.a. kom fram að fleiri hafa farið í ferðir VIMA á síðasta starfsári en nokkru sinni. Þar af var ein til Egyptalands, tvær til Íran, tvær til Jemen/Jórdaníu, tvær til Líbíu og ein til Sýrlands/Jórdaníu, alls 181 og á þriðjudag er svo lagt af stað til Jemen og þar í hópi eru ýmsir stuðningsmenn krakkanna okkar.

Sömuleiðis talað um glæsimarkaðinn til stuðnings YERO verkefninu, útgáfu fréttabréfsins og stuðning við krakkana okkar.

Í stjórn voru allar endurkjörnar, svo og endurskoðendur. Samþykkt var samhljóða að hækka félagsgjöld í 3 þús. kr árlega og reikningar samþykktir og allt í blóma.

Elín Pálmadóttir, Íransfari í síðustu ferð, kvaddi sér hljóðs og fór fallegum orðum um ferðina og hversu athyglisvert væri að hafa allt innifalið og hversu margt henni fyndist hópurinn hafa fengið tækifæri að sjá.

Ég afhenti stjörnumerkjaverðlaun en aðeins annar verðlaunahafinn Hildur Bruun var mætt til að taka á móti sinni viðurkenningu. Hinn verðlaunahafinn Guðríður Guðfinnsdóttir hafi samband við Eddu Ragnarsd sem verður húsvörður meðan ég er í Jemen/Jórdaníuferðinni.

Eftir kaffihlé þar sem við gæddum okkur á gómsætum kökum - og Dóminik hafði skreytt með fimm blöðrum vegna afmælisins, tók svo Örnólfur Árnason, fararstjóri á Spáni og kunngur Marokkó til margra ára og spjallaði um Marokkó í nútíð og fortíð og var gerður fjarska góður rómur að hans máli.

Eftir að hafa svo svarað nokkrum spurningum og menn höfðu greitt félagsgjöld og kaypt kort sem Ellen Júlíusdóttir hafði gefið til styrktar Fatimusjóði, skrifað sig á lista varðandi Pezhman og hugsanlega heimsókn hans til Íslands sumarið 2010 en nú hefur þriðjungur Íranfara skrifað sig á þann lista, og menn spjallað saman og átt góða stund, sleit Mörður fundi.

Ég vil benda Marokkóförum eindregið á að greiða maígreiðslu eftir helgina og Íranfarar greiði sínar 50 þús kr á mann í staðfestingargjald. Sama gildir um Egyptalandsfara sem greiði 40 þús í staðfestingargjald Sú ferð er ekki fullskipuð en ég bið menn lengstra orða að inna þessa greiðslu af hendi svo ljóst verði hverjir eru að hugsa um þessar ferðir í alvöru.Hvað varðar Líbíu vantar amk helming í hana og ef ekkert gerist í komandi viku, verð ég að slá hana af þó svo mér finnist það súrt í brotið

Það kom fram í skýrslunni minni að þó ég hætti að fara með hópa í ferðir að liðnu þessu ári, kemur til greina að ég geri það ef hópar taka sig saman og tilkynna sig. Annars ekki. Áfram verður haldið með Jemenverkefnið og börnin studd dyggilega áfram.
Einnig verða fundir og útgáfa fréttabréfs með sama sniði og verið hefur.

Ég bið Jemen/Jórdaníufara eindregið að skilja eftir slóð síðunnar johannaferdir.blogspot.com hjá vinum og ættingjum og hvet þá til að fara inn á síðuna og senda kveðjur. Ég sendi pistla um ferðina svo menn geta fylgst með okkur.

Ítreka að ég sendi ekki tilkynningu um þá pistla.

ÍTREKA EINNIG AÐ VÆNTANLEGIR ÍRANFARAR GREIÐI SNARLEGA STAÐFESTINGARGJALDIÐ. Er búin að panta flug og láta ferðaskrifstofuna vita og þarf nauðsynlega að fá á hreint hverjir ætla að taka þátt í þeirri ferð. Þar sem ég mun greiða fljótlega eftir heimkomu frá Jemen inn á Íranferðina bið ég ykkur í fullri alvöru að láta þetta ekki dragast.
Takk svo kærlega fyrir góðan fund.

No comments: