Monday, May 18, 2009

Við erum komin heim kát og glöð - og svo er hér áríðandi tilkynning, endurtek ÁRÍÐANDI

Sæl öll

Jemen/Jórdaníufarar komu heim frá London nú rétt um miðnættið og var kvaðst með gleði og söknuði í Keflavík því öllum bar ásamt um að ferðin hefði verið hin frábærasta. Við munum svo hafa kvöld eftir 2-3 vikur, svona þegar sálin hefur komist heim og myndir eru klárar.

Við kvöddum Guðrúnu Emilsdóttur í morgun og hún hélt til Damaskus í vikuheimsókn til bróður síns og fjölskyldu sem búa þar.

Í gær héldum við frá Petra um hálf tíu leytið og á leiðinni talaði ég um söguna og atburðina á 20.öld í þessum heimshluta við ágætis undirtektir.

Fórum upp á Nebofjall og til Madaba og síðan var rúllað til Amman þar sem við hreiðruðum um okkur á Jerusalem hóteli.

Kveðjukvöldverður var í gærkvöldi og ég flutti náttúrlega andríka ræðu þar sem ég þakkaði ferðafélögunum einstaka samveru og skálað var fyrir ferðinni og til lífs og til gleði. Vaka sagði síðan nokkur orð og fór fallegum orðum um ferðina og mér þótti vænt um það.

Stefanía Khalifeh ræðismaður okkar í Jórdaníu kom og borðaði með okkur og var það öllum til mestu ánægju. Henni þótti að vísu við ganga nokkuð snemma til hvílu en heimavistarskólaaginn var enn í gildi og allir voru komnir í sín ból um tíuleytið eða fyrr.

Stefanía var í Íranferðinni í apríl með okkur og sagðist eiginlega vera þar enn, svo mjög hefði ferðin hrifið hana og vakið spurningar

Um hádegi að jórdönskum tíma lagði RJ vélin svo af stað til London. Þar hittum við m.a. Samir Hassan, þann sómadreng sem er ræðismaður Jórdaníu á Íslandi.
Biðum nokkra klukkutíma á Heathrow, nema Þorgerður og Dóra brugðu sér í bæinn.

Okkur fannst ömurleg viðbrigði að koma inn í Icelandairvélina eftir þá góðu og vönduðu þjónustu sem RJ veitir farþegum sínum þótt þeir fljúgi ekki á hefðarmannafarrými en ferðin per se gekk að óskum.

Er afskaplega ánægð með ferðina og ekkert kom upp á nema smálasleiki Þorgerðar en hún tók því af hreysti og glaðlyndi og er vonandi búin að ná sér.

Endurtek og ítreka þakkir til félaganna fyrir samvistirnar síðustu tvær vikurnar.

Nú verða Íranfarar að gjöra svo vel að staðfesta sig
Hef ekki farið inn á heimabankann svo ég veit ekki almennilega hverjir hafa staðfest sig af áhugasömum Íranförum. En nú verður ekki lengur beðið með það og gjöra svo vel að gefa sig fram og reiða fram staðfestingjargjald eigi síðar en í dag(þriðjudag).

Einnig bið ég áhugasama um Egyptalandsferð að láta mig vita því skýrist það mál ekki snarlega verð ég að blása hana af. Ég hef ekki fengið næga þátttöku í Líbíuferð og gef tíma til helgarinnar að láta mig vita.

Hef fengið þá snjöllu hugmynd að við gætum etv slegið í Ómanferð í staðinn. Hún er dýrari en hinar og þarf að panta hana fyrir helgina ef til þess kæmi að hún yrði að veruleika og væri vissulega gaman að enda þessi ferðalög okkar með Ómanreisu sem yrði þá að Egyptalandsferð lokinnni.

Þakka þeim sem hafa svarað og þeir þurfa ekki að endurtaka það. Hef allt á blaði hjá mér hverjir hafa svarað mér.

Mun svo hafa samband við aprílíranfara allra næstu daga vegna myndakvölds sem við drífum í að efna til innan tíðar.

Furða mig á því hversu margir Íranfarar hafa ekki séð ástæðu til að ansa varðandi þá hugmynd að bjóða Pezhman til Íslands og velti fyrir mér hvort menn horfa í 4-5 þús. kr. til að það geti orðið. Þætti viðkunnarlegra að menn svöruðu.

Nú sef ég vonandi vært og næ sálinni heim á morgun eða hinn.

3 comments:

Anonymous said...

Velkomin heim væna.
Gott að allt gekk vel.
Þori ekki að hringja fyrr en sálin hefur skilað sér.
Kv. Edda

Anonymous said...

Velkomin heim Jóhanna, varðandi Pehzmann hvað þurfa margir að vera með svo hann komi í okkar boði? Við hvað marga miðar þú við þessa upphæð? Er ekki hægt að fá já eða nei hjá þeim sem sem hafa farið til Íran svo hægt sé að fá þetta á hreint? Alltof mörg spurningarmerki en drífið ykkur Íranfarar að segja já eða nei.kv.Jóna fyrsti Íranfari.

Unknown said...

Sæl Jóhanna og velkomin heim í hitann.
Yndislegt að heyra að allt gekk vel og ferðalangar allir ánægðir.
Eftir arfavitlaust rok í marga daga kom dásamlegt veður í Reykjavík, sem ég hef notið út í ystu æsar. - 18°- 20°gráður, hvað er hægt að biðja um meira.

Með góðum óskum og bestu kveðjum,
eva :O)