Wednesday, October 14, 2009

Íranfarar komu með rok og rigningu

Blessuð öll

Við vorum að lenda rétt í þessu Íranfólkið í roki og rigningu og sönnu ísl. veðri.

Held ég hafi kvatt alla ef ég hef misst af einhverjum skila ég alúðarkveðjum.

Þetta var frækin ferð og frábær og við hlökkum öll til myndakvölds ca um 20.nóv Nánar síðar

Síðasta daginn keyrðum við að venju frá Isfahan til Teheran og rakleitt á Þjóðnminjasafnið. Á leiðinni snæddum við prýðilegan pikknikk hádegisverð sem bílstjórarnir okkar útbjuggu.

Eftir Þjóðminjasafn á Laleh hótel og kveðjukvöldverður var þar, bæði myndarlegur og ljúfengur að venju,

Ég flutti snöfurlega kveðjuræðu undir borðum og minntist á það að ég hefði kviðið eilítið fyrir ferðinni þar sem óvenjulega margir nýir voru þátttakendur. Sá kvíði hefði reynst ástæðulaus með öllu því hópurinn náði sérlega vel saman.
Fengu þeir hver og einn sérstakar umsagnir sem mæltust vel fyrir og var mikið hlegið og skríkt og áttum við góða stund.

Aldursforsetinn í ferðinni, Kristin Thorlacius sagði vitur orð eins og hennar var vísa og svo talaði Höskuldur Jónsson og mæltist vel.

Allir fengu gjöf frá ferðaskrifstofunni og eftir snæðing lögðu menn sig til þrjú um nóttina að við héldum til flugvallar og kvöddum þá Pezhman, Mohammed og Hadi með virktum, smágjöfum og rausnarlegu tipsi.
Því miður var ekki hægt að tjekka farangur alla leið til Íslands en menn létu það ekki á sig fá og alllöng bið í London leið hratt og við skemmtum okkur konunglega.

Eins og áður hefur komið fram var mikil ánægja með ferðina og ég hef þegar fengið nokkur skeyti frá þátttakendum. Við hugsum svo til myndakvölds um 20.nóv eins og ég sagði.

Egyptalandsfarar verða kvaddir á miðafund einhvern allra næstu daga. Ath það.

Þá hefur Dóminik undirbúið myndakvöld Marokkóhóps af stakri prýði og góð þátttaka þar sýnist mér.

Myndarleg gjöf 100 þúsund kr. hefur borist Fatimusjóði frá Leikskólanum Gimli í tilefni 20 ára afmælis Hjallastefnunnar og þakka ég skólastjóranum Karen Valdimarsdóttur kærlega fyrir. Einnig hefur Anna Stefánsdóttir í Málmey sent höfðinglega gjöf sem svarar um 400 evrum og fær kærustu þakkir fyrir.

Allmargir - bæði í ferðinni og aðrir- hafa látið í ljós áhuga á ferðalögum 2010 þótt formlega sé ferðum mínum með hópa lokið með Egyptó í næsta mánuði. Menn tali sig saman um það og geta út af fyrir sig haft samband við mig ef einhver sérstök ferð leitar á þeirra huga. Einkum heyrist mér Sýrland og Líbanon, Íran og Jemen vera þar á blaði. Einnig er Kákasusferð í hugum manna.

Seinni hluti þessa pistils er skrifaður nú í eftirmiðdaginn því ég leið út af í nótt og hafði varla rænu á að heilsa upp á Jóhönnu Engilráð og foreldra hennar en þau héldu svo norður í Trékyllisvík í dag.

Í Íran gat ég ekki komist inn á simnet adressuna mína og bið því fólk hafa biðlund þó ég svari ótal bréfum ekki fyrr en á morgun því ég hugsa mér til svefns á ný. Sálin er í Íran en líklega í þann mund að leggja af stað.

Takk aftur kærlega, Íranfarar. Fer nú aftur að sofa og bíð eftir sálinni.

No comments: