Monday, October 19, 2009

Marokkóhópur á myndakvöldi - tilkynning til Egyptalandsfara og smálegt


Vera æfir sig á trommurnar í tjaldbúðunum í Merzúga. Dóminik tók myndina

Hópurinn sem fór í Marokkóferðina 5.-16.sept. hittist á Litlu Brekku í kvöld. Við skoðuðum myndir frá Ingu, Jónu, Sigurði, Sigr. Ásgeirsd, Dóminik, Veru og vídeomynd sem Högni hafði gert.
Allt vakti hina mestu gleði og var gaman að hittast. Menn rifjuðu upp ferðina á ný með því að horfa á myndirnar og skemmtu sér konunglega.

Fáeinir komust ekki en Ingibjörg Júl. sem varð að hætta við ferðina á síðustu stundu brá sér til okkar og hafði gaman af því að sjá myndir og hnusa af stemningunni.

Vera Illugadóttir hefur nokkra úrvals diska til sölu á þúsund krónur og keyptu þó nokkrir og vilji fleiri eignast þá ættu þeir að hafa samband.

Þá seldi Högni sína vídeodiska og lét það renna í Fatímusjóð. Takk fyrir það.

Við fengum góðan fiskrétt og kaffi og var þetta afar ánægjuleg stund. Sníkti diska frá nokkrum og vonast til að fá þá innan tíðar. Þarf endilega að fá Veru eða Elísabetu Ronaldsdóttu til að setja þá inn á síðuna hið fyrsta.

Bendi á að ég verð með fyrirlestur um Menningarheim araba kvöldstundina 26.okt og þeir sem hafa áhuga geta enn skráð sig hjá Mími símenntun.

Ennfremur vil ég taka fram að þar sem Egyptalandsmiðar hafa ekki borist hef ég ekki kvatt þann hóp saman. Vonast til að heyra frá Icelandair á morgun og geri ráð fyrir að pósta þá miðana eða keyra þá út.

Þar sem fundur hefur þegar verið haldinn um ferðina reikna ég ekki með að fá húsnæðið fyrir fund. Ef einhverjar spurningar eru geta menn sent mér imeil en ég mun senda með smáleiðbeiningar þegar miðarnir koma á morgun eða hinn
.

Eins og margoft hefur komið fram er Egyptalandsferðin síðasta ferðin en safni fólk sér saman og tilkynni sig í hóp verður því tekið af fullum velvilja(!). Veit að menn eru að tala sig saman um Líbanon/Sýrland næsta vor(sirka í byrjun apríl) en til að úr því verði er aðkallandi að hópur tali sig saman og láti vita, fyrr en síðar þar sem ég hef áform á prjónunum fyrstu mánuði ársins. Ég get þó tekið niður nöfn þeirra sem ekki eru innan þess hóps nú þegar.

Eftir að ég kem frá Egyptalandi verður myndakvöld Íranfara ákveðið. Býst við að það verði undirbúið meðan ég er í burtu.

No comments: