Tuesday, October 27, 2009
Egyptalandsfarar búast nú til ferðar
Frá Abu Simbel. Að sjá það eitt finnst mér réttlæta Egyptalandsferð
Það styttist í Egyptalandsferðina sem hefst í Leifsstöð að morgni 1.nóv. og við verðum 28 í förinni. Fleiri höfðu hug á að bætast við, en það var um seinan og aukinheldur er þetta hæfilega stærð.
Þetta er 30. VIMA ferðin og sú síðasta sem slík eins og margoft hefur komið fram.
Dálítið tignarlegt að hafa þá ferð til Egyptalands. Trúlega er meðalaldur í þessari ferð lægri en hefur verið í fyrri ferðum og kynjahlutföll eru sömuleiðis jafnari en oftast áður.
Hef verið beðin um að taka að mér Líbanons/Sýrlandsferð hjá Bændaferðum næsta haust. Það kemur til ágætlegra greina, enda óskað eftir að ég skipuleggi hvert farið verður. Það hentar mér ljómandi vel.
Annars veit ég að hópur var að safna sér saman í slíka ferð innan VIMA (og utan) í mars/apríl. Ég hef ekki hugmynd um hvort af því verður en læt fljóta með að sá hópur verður að gefa sig fram ekki síðar en 20.nóv. til að ég geti sinnt því þar sem ég reikna með að vera í burtu um hríð eftir áramót. Ef guð lofar og allt það.
Þar sem ekki er ljóst hvort hægt verður að tjekka inn alla leið til Kairó hér og við þurfum að skipta um terminal í London bið ég menn að vera mættir kl. hálf sex en þá hefst innritun.
Ég hvet Egyptalandsfara líka til að skilja eftir slóðina á síðunni því að venju skrifa ég pistla eftir því sem tími og aðstæður leyfa. Menn skyldu einnig skrifa kveðjur til sinna inn á ábendingadálkinn.
Senn fer svo ritnefndin að ganga í að undirbúa janúarfréttabréf.
Hef sent fyrstu greiðslu til Nouriu fyrir Jemenbörnin okkar.
Stjórn Fatimusjóðsins, Gulla Pé, Rannveig, Ragný og JK hittast til skrafs og ráðagerða á fimmtudaginn næsta.
Augljóst að okkur tekst að styðja 133 börn eins og í fyrra en það má þakka, ekki hvað síst rausnarlegum gjöfum Önnu Stefánsdóttur og Jennýjar Karlsdóttur, svo og Evu og Axel.
Nokkrir hafa ekki greitt svo mikið sem KRÓNU fyrir krakkana sína. Það er til vansa og óþarfra leiðinda. Mun strika þá út sem styrktarmenn og setja Önnu eða Jennýju í staðinn. Mánaðarlegt framlag Evu og Axels fer í háskólakostnað vegna Hanaks al Matari.
Systur hennar amk tvær hafa ekki fengið neitt greitt frá sínum stuðningsmönnum. Meira vesenið en bjargast.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment