Thursday, January 27, 2011
Mótmælagöngur og óeirðir víða í Miðausturlöndum
Tawakul Karman ásamt börnum sínum
Jemen hefur nú bæst í hópinn þeirra Miðausturlanda þar sem óeirðir og mótmæli fara vaxandi.
Í morgun (fimmtudag) fóru þúsundir um götur höfuðborgarinnar Sanaa og fleiri bæja í Jemen og höfðu uppi hávær mótmæli gegn Ali Abdullah Saleh forseta landsins og stjórn hans og kröfðust þess að hann viki.
Þessi ókyrrð í Jemen hófst fyrir alvöru fyrir nokkrum dögum, þó hún hafi ekki ratað í fréttir að ráði, þegar kunn óg dáð baráttukona fyrir mannréttindum og breytingu á stjórnarháttum, Tawakul Karman var handtekin. Þegar handtakan spurðist út hófust skipulögð mótmæli og blaðamannasamtök Jemens höfðu sig verulega í frammi.
Tawakul var látin laus og Saleh forseti lofaði að hefja viðræður við stjórnarandstöðuna sem hefur eflst í Jemen síðustu ár.
Hún sagði í viðtali að hún hefði ekki átt sérlega illa vist í fangelsinu en kvaðst eiga von á frekari mótmælunum enda hefðu landsmenn löngu fengið sig fullsadda af einræðisstjórn Ali Abdullah Saleh.
Ali Abdullah Saleh komst til áhrifa í landinu 1978 og hefur svo verið forseti frá því að suður og norður Jemen sameinuðust 1990. Hann hefur séð sig tilneyddan að gefa eftir á ýmsum sviðum en er afskaplega illa þokkaður af öllum þorra manna. Hann gaf fyrir nokkru út þá yfirlýsingu að hann mundi ekki gefa kost á sér eftir að kjörtímabil hans rennur út 2013. Menn rifja þá upp að þetta sagði hann einnig fyrir síðustu forsetakosningar.
Hann þykir grimmur maður og spilltur og svífst einskis. Hann er einn af tíu auðugustu mönnum Arabíuskagans í fátækasta landi Arabaheimsins þar sem 50 prósent ólæsi er nánast viðvarandi og atvinnuleysi er(óopinberar tölur) milli 30-35 prósent.
Gattneysla hefur áratugum saman staðið framförum í landinu fyrir þrifum og ríkisstjórnin hefur talið hið besta mál að gera lítið eða ekkert til að draga úr henni og meðan þjóðinni er haldið í eiturlyfjavímu gatts hefur fátt orðið sem til framfara horfir.
Nú virðist sem Jemenar ætli að grípa til einhverra ráða og sýna í verki andúð á stjórnvöldum og mótmæla bágum kjörum. Tawakul Karman segir að þakka megi þetta sem nú er að gerast í Egyptalandi og Jemen megi rekja til hinnar sjálfsprottnu jasmínuppreisnar í Túnis þar sem einræðisherrann Ben Ali hefur hrökklast frá völdum og leitað skjóls í faðmi vinastjórnar Bandaríkjamanni, konungsstjórn Sádi Arabíu.
Ekki er þegar þetta er skrifað fullljóst hvað gerist frekar í Jemen og heldur ekki hvort manntjón hefur orðið. Vitað er þó að allmargir hafa særst og verið færðir í fangelsi.
Baráttumenn innaan stjórnarandstöðunnar staðhæfa að þeir muni halda áfram mótmælum og þeir séu tilbúnir að fórna lífi geti það orðið til að stjórn Ali Abdullah Saleh fái á baukinn svo um munar.
Verður bál í Egyptalandi?
Það er einnig mikið umhugsunarefni hvað hefur gerst síðustu daga í Egyptalandi enda fjölmennasta land þessa heimshluta og kúgun og illa þokkuð stjórn Múbaraks forseta ætti að sjá sóma sinn í að fara frá völdum ella er hætta á algeru blóðbaði í því landi.
Það er mér persónulega gleðiefni að heyra að Mohammed El Baradej Nóbelsverðlaunahafi og fyrv. yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar mun vera á leiðinni heim og kveðst muni ganga til liðs við stjórnarandsttöðu og mótmælendur. Baradej nýtur óumdeildrar virðingar þó svo Bandaríkjamenn hafi ekki litið á hann sem sinn eftirlætismann enda hafði hann ásamt Hans Blix með höndum rannsókn í Írak fyrir innrásina 2003 og við þá rannsókn kom ekkert fram sem var talið réttlæta innrás fjölþjóðahersins í Írak.
Hver verður niðurstaðan?
Um það er auðvitað alltof snemmt að spá. En þótt skelfilegir atburðir séu að gerast í þessum heimshluta vina okkar er þó jákvætt að það eru heimamenn sem hafa risið upp og vilja varpa af sér oki harðstjórnar og misréttis því í Jemen og Túnis bendir ekkert til að svo stöddu að Bandaríkjamenn hafi blandað sér í málið.
Það væri á hinn bóginn hugsanlegt að þeir gætu veitt Múbarak "aðstoð" í Egyptalandi enda eru Egyptar, ásamt Sádum einhverjir dyggustu bandamenn þeirra þótt árangurslausar tilraunir séu gerðar til þess í Egyptalandi að fela þá staðreynd sem allir gera sér grein fyrir sem til mála þekkja.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
8 comments:
Mikið vildi ég að þeir yrðu allir kærðir fyrir þjófnað úr ríkiskassa. Sviss og fleiri myndu aflétta bankaleynd. Þeir myndu halda höndum sínum en verða í útlegð það sem eftir er.Voila !
Mjög flottur pistill Jóhanna, manni finnst þetta vera í raun svo afdrífaríkt þar sem oftast hefur verið álitið að arabalöndin geti ekki tekið upp lýðræðislega stjórnarhætti (en er ekki verið þar að dæma útfrá vestræna stjórnarháttinn?)
Bið ykkur vinsamlegast að setja nafn ef þið skrifið hér.Fornafn dugir
Kveðja
JK
Mjög fróðlegur pistill!
Kv. S.Guðmars
Já, gott að fá svona úrdrátt af því sem er að gerast - maður vantreystir svo blöðunum..!
Takk Jóhanna.
Kveðja,
Guðrún C.
Það er ekkert í ísl. blöðum eða öðrum ísl fjölmiðlum. Var innan við mínútufrétt í RUV áðan.
Kv.JK
Sæl Jóhanna,
Ég var sú sem skrifaði fyrsta commentið og gleymdi að kvitta en stend við hvert orð. Eftir að hafa heimsótt Túnis,Egyptaland,Jemen og Lýbiu og notið gestrisni fólksins, sem var alltaf á verði gagnvart yfirvaldinu, þá hlýt ég og fleiri að gleðjast yfir því að fólkið í þessum löndum er loksins að rísa upp og segja;" hingað og ekki lengra" Að valdhafar skili peningum til baka sem þeir hafa safnað á sinn eigin reikning meðan almúginn leið skort.Þar sem vestrænt lýðræði er götótt eins og raun ber vitni vona ég að þeim takist að finna leið fyrir sig á sínum forsendum.
Erla Magnúsdóttir
Takk, Erla mín. Sammála hverju orði
KvJK
Post a Comment