Thursday, April 28, 2011
Uzbekistanliðið er mætt á heimaslóðir
Þessi mynd er tekin í júlí sl og má sjá Davlat sem var gædinn minn þá og hópsins nú og Nasser bílstjóra
Við Uzbekistanfarar komum heim síðdegis og allt í góðu lagi og vel það. Þetta var afar samstilltur og skemmtilegur hópur, fannst mér og allir blönduðu geði við alla.
Eftir veruna í Ferghanadal var kveðjuveisla á sérdeilis skemmtilegum veitingastað í Tashkent þar sem foss fossaði með látum í grenndinni svo ég varð að bíða með það uns við komum á hótelið að flytja kveðjuræðu. Mæltist náttúrlega vel að venju. Sigga, Linda og Lena efndu í söng og hljóðfæraslátt fyrir ferðaskrifstofumennina og okkur. Rikhard mælti góð orð og færði Davlat gæd sem varð afar vinsæll hjá hópnum, gjöf og Guðmundur Pé flutti ræður á þremur tungumálum og fór létt með það.
Síðan afhenti þeir ROXANA menn hópnum skrautlegar gjafir, höfuðför sem gerðu mikla lukku.
Ég tel því óhætt að staðhæfa að þessi fyrsta Uzbekistanferð hafi lukkast afar vel og tilhlökkunarefni að fara þangað aftur í september. Nokkur ruglingur kom upp hjá úzbekisku ferðaskrifstofunni varðandi flugmiða en það verður bara brandari innan tíðar
Það var afar gaman að sjá alla þessa stórbrotnu sögustaði, velta fyrir sér nútímanum og íhuga hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þetta svæði.
Ferðin í haust er fullskipuð, ath það.
Má geta þess og þarf þó væntanlega ekki að fréttabréfið er komið út og hefur verið sent til félaga. Gluggaði í það í kvöld og finnst það öldungis fínt. Þar segir frá því hvernig mál standa í Jemen varðandi börnin sem við styrkjum, viðtal við Susan og Slaah frá Kúrdistan. Miðausturlandauppskrift, Vera Illugadóttir skrifar um Razi, fremsta lækni miðalda og einnig skrifar Vera um Palestínurapp. Guðmundur Pétursson er með grein um Uzbekistan og Hulda Waddel skrifa um sjia og súnníta og fleira mætti efna. Verulega girnilegt aflestrar og ritnefnd á hrós skilið.
Síðast en ekki síst er svo tilkynning um aðalfund VIMA þann 7.maí í Kornhlöðunni kl. 14 og að lknum aðalfundarstöfum mun Guðlaugur Gunnarsson tala um Eþíópíu, sýna myndir og spila tónlist. Við erum að íhuga ferð þangað sem mikill áhugi virðist vera á svo ég vænti þess að sem allra flestir sjái sér fært að mæta.
Þakka svo enn og aftur góðum ferðafélögum í Uzbekistan afar skemmtilegan samverutíma.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Kæra Jóhanna og kæru ferðafélagar,
Takk fyrir ógleymalega daga í Uzbekistan.
Gulla
Post a Comment