Wednesday, April 13, 2011
Ferðin til Uzbekistan hefst senn- ný Íransáætlun- fréttabréf ofl
Íranhópurinn febr/mars. Við hof eldsins í Jazd.
Hópurinn hittist sl. mánudag á myndakvöldi. Mjög góð þátttaka og framúrskarandi myndir. Áttum þar notalegt kvöld
Sjá nánar um nýja hugmynd hér fyrir neðan.
Dansstúlka frá Ferghanadal. Þar dveljum við í tvær nætur
Herbergi í hótelinu Sasha and son í Bukhara þar verðum við líka í tvær nætur
Á föstudagsmorguninn förum við áleiðis til Uzbekistan, 27 manns og verður spennandi að sjá hvernig þetta merka land kemur fólki fyrir augu og eyru. Þar eru minjar frá gömlum tíma og nútíminn er að bagsa við að halda innreið sína eftir Sovét.
Vegna þess að vandkvæði urðu með farmiða fara sex til London á föstudag og áfram til Tashkent um kvöldið. Þar verður tekið á móti þeim og þeim boðið í fjallaferð og huggulegheit af ferðaskrifstofunni.
Hinn hluti hópsins heldur um Frankfurt, gistir þar og fer til Uzbekistan að morgni 16 en vegna tímamunar erum við varla komin fyrr en tíu um kvöldið.
Allir félagar hafa fengið sendar upplýsingar um hótel, ásamt símanúmerum svo þeir geta skilið það eftir svo vinir og ættingjar geti fylgst með ferðinni. Auk þess reyni ég eftir föngum að skrifa hér inn á síðuna eftir því sem ferðinni vindur fram
Mér sýnist sem þessi ferð bjóði upp á einstaklega fjölbreytilega upplifun, hvort sem er að skoða sig um í "leiktjöldum" Khiva og Bukhara, gista í jurt og fara inn í Ferghanadal sem er gróðursælasti hluti landsins ellegar vitja þeirrar sögufrægu Samarkand og skoða nútímaborgina Tashkent.
Vona að allir verði stundvísir og ég ætla að vera mætt úti á velli 5,15 og held að það sé mjög heppilegt að vera með góðan fyrirvara eins og alltaf.
Fréttabréfið væntanlegt og svo er aðalfundurinn á dagskrá 7.maí
Dóminik og hennar liðsmenn undirbúa nú Fréttabréfið af kappi, það kemur út seinni hluta apríl, fullt af spennandi efni sýnist mér.
Aðalfundur VIMA verður svo í Kornhlöðunni 7.maí kl 14 og þar verður að loknum aðalfundarstörfum fjallað um Eþíópíu sem kynni að verða hagstæður næsti áfangastaður VIMA-félaga, altjent er áhugi mikill á þeirri ferð. En ekki fyrr en 2012 enda er önnur Uzbekistanferð í september. Losnaði í henni eitt sæti eða tvö.
Eigum við að skoða aðra hluta Írans?
Einnig hefur ferðaskrifstofufólkið okkar í Íran stungið upp á að búa til nýja ferðaáætlun til Írans og þá yrði farið um norður og vesturhluta og endað í Isfahan. Það er allt á hugmyndastigi enn, læt ykkur fylgjast með.
Sæl að sinni
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment