Tuesday, March 29, 2011

Íransmyndakvöld- göngur í Sýrlandi til stuðnings Assad- Eþíópía á aðalfundi


Íranhópurinn við hús eldsins í Jazd. Vantar ljósmyndarann Hrafn Jökulsson á myndina en lengst til hægri er íranskur blaðamaður sem ræddi við mig um ferðina

Hef sent Íransförunum í febr/mars tilkynningu um myndakvöld og vonast til að þar verði góð þátttaka og menn streymi með myndir sínar. Vænti þess að menn tilkynni þátttöku hið allra fyrsta.
Hef pantað smárétt og kaffi og við ættum að geta átt ljúfa og notalega stund enda var hópurinn sérdeilis samstilltur. Það er einhvern veginn alltaf þannig í Íranferðunum.



Forsetahjón Sýrlands
Það er eftirtektarvert að nú eru hópgöngur um Sýrland, þvert og endilangt til stuðnings Assad forseta. Enda engum blöðum um það að fletta að öndvert við flesta aðra leiðtoga Arabíuskagans nýtur hann trausts unga fólksins.
Hann mun greina frá afléttingu neyðarlaganna sem hafa verið í gildi í hátt í 40 ár og með því er auðvitað linað á ótal mörgum höftum, svo sem banni við fjöldafundum ofl. Reikna má með að hann láti ríkisstjórnina víkja í dag og skal þá ný skipuð innan sólarhrings.

Það kom til verulegra átaka í hafnarborginni Latakia og bænum Deraa rétt við jórdönsku landamærin í sl viku en stjórnmálaskýendum bar saman um að þessar óeirðir hefðu verið sprottnar af öðrum hvötum en þeim sem hafa tröllriðið mörgum Arabalöndum síðustu vikur.

Trúlegt er að hann boði einnig að leyft verði að stofna alvörustjórnmálaflokka og stórlega verði linað á ritskoðun sem er löngu tímabært.
Verði neyðarlögunum aflétt er einnig sú hætta úr sögunni að handtökur án ákæra verði liðnar.
Basjar al Assad er klókur maður og framfarasinnaður og hefur sýnt það í þessi tíu ár sem hann hefur verið við stjórnvölinn í landinu að honum er í mun að færa Sýrland fram á við í flestu tilliti. Hann lét það í ljósi þegar hann tók við þó svo hann þyrfti nokkuð að hægja á breytingum þegar gömlu hagsmunaseggirnir sem höfðu hreiðrað um sig í skjóli föður hans risu gegn þeim.




Eþíópia

Við reiknum með að aðalfundur VIMA verði 7.maí n.k og þá verður að loknum aðalfundarstörfum rætt um Eþíópíu og sýndar myndir þaðan og flutt tónlist.
Mikill áhugi er á ferð þangað árið 2012 og ég fer í skoðunar og rannsóknarferð þangað 8.maí og mun síðan kynna ykkur niðurstöðu, hvernig verðlag er og fleira en ekki er vafi á því að margt fagurt er þar að skoða. Þið látið mig vita- margir hafa gert það þegar- og verður haft samband þegar ég kem heim aftur.

Svo líður að fyrstu ferðinni til Uzbekistan um miðjan apríl og annarri í september.Þær eru báðar fullskipaðar. Uzbekistanfarar í apríl hafa fengið bréf um hvenær hist verður til að afhenda miða ofl

1 comment:

Anonymous said...

Harla margir hafa skráð sig áhugasama í hugsanlega Eþíópíuferð. Það er prýðilegt að fá hugmynd um slíkt og ég mun hafa samband við þá eftir að ég kem heim seinni partinn í maí varðandi áætlun og verð og þess háttar.
KvJK