Monday, March 21, 2011

Ekki svo að skilja að ég styðji Gaddafi en flugbannið reynist vera árásir úr lofti og af sjó- og Saleh heldur áfram iðju sinni í Jemen



Ég hélt í einfeldni minni að Vesturlandaþjóðirnar hefðu verið að tala um flugbann á Líbíu til að koma í veg fyrir að vopn og málaliðar kæmust til Líbíu til að berjast með Ghaddafi gegn uppreisnarmönnum. Oekki.
Það reynast þá vera meiriháttar aðgerðir og skotið á "hernaðarleg skotmörk" úr lofti og flugskeytum dúndrað af herskipum úti fyrir strönd Líbíu. Enginn þarf að segja mér hvað sem kynlegum yfirlýsingum þessara manna líður að óbreyttir borgarar falli ekki í þessum árásum. Skothittnininni hefur nú ekki alltaf verið fyrir að fara hjá þessum ofurvopnvæddu þjóðum.

Auk þess gekk nú satt að segja fram af mér þegar opinberir talsmenn lýstu því yfir að stefnan væri ekki að koma Ghaddafi frá eða skipta um stjórn í landinu. Þá spyr maður sig óhjákvæmilega hver hann sé. Eru menn þá bara í ógeðfelldum stríðsleik og þegar prófuð hafa verið fullkomin flugskeyti og nýjar sprengjur á þá bara að fara heim og láta Ghaddafi hefna sín í ró og mag á uppreisnarmönnum.

Þetta er líklega pólitík en tvískinningurinn er slíkur að mann setur hljóðan við þessi ferlegu tíðindi öll.

Eiturgasi sturtað á mótmælendur í Jemen

Ali Abdullah Saleh, forseti Jemens, hefur rekið ríkisstjórn sína- að vísu hafði bróðurpartur hennar sagt af sér í mótmælaskyni og krafist afsagnar forsetans. En mótmælaaðgerðir halda áfram og hafa verið um helgina í Sanaa, Taiz og Aden og kannski víðar.
Saleh tekur engum vettlingatökum á fólkinu og sprautar eiturgasi á mótmælendur og svo virðist sem jemenski herinn framfylgi öllum skipunum forsetans þótt einstaka hafa gengið í lið með uppreisnarhópunum.

Óljósar og misvísandi fréttir hafa borist til mín um að einhver af börnum sem við styðjum til loka þessa skólaárs hafi orðið fyrir slíkri eiturárás og m.a. stúlkan sem ég hef stutt síðan 2005. Hún mun vera á spítala og illa leikin. Einhver önnur börn hafa líka orðið fyrir líkamsmeiðingum en eiginlega ógerlegt að afla réttra upplýsinga þar sem ringulreiðin er mikil.

Og nú er boltinn farinn að rúlla í Sýrlandi
Enginn á Vesturlöndum mótmælir hernámi Sáda á Bahrein og er þar allt í voða.
Í Sýrlandi hafa verið mótmæli í bænum Daraa í suðurhluta landsins og þar hafa nokkrir fallið. Stjórnvöld í Damaskus hafa sent herlið þangað og reyna hvað þau geta að koma í veg fyrir að mótmælin breiðist út. Óljóst er hvernig það mun ganga.

En góðar fréttir frá Egyptalandi
Egyptar gengu að kjörborði um helgina og kusu um nýja stjórnarskrá. Þar virðist allt vera með sæmilegri kyrrð og vitað er að Egyptar reyna af alefli að veita aðstoð löndum sínum í Líbíu. Amr Moussa forseti Arabalandalagsins hefur hvatt til fundar Arabaríkja og hann hefur einnig sagt að Egyptar muni ekki taka þátt í hernaði gegn Líbíu.

1 comment:

Anonymous said...

Flugbannið er hugsað til að Gaddafi geti ekki gert árásir í lofti á samlanda sína (uppreisnamenn).
Vesturlönd hafa tekið stöðu með þeim gegn Gaddafi.
Held að það sé hið besta mál enda grimmur einræðisherra sem hikar ekki við að stráfella og slátra samlöndum sínum sem vilja lýðræði og frelsi.

En mín spá er þannig að landgönguliðar verði komnir á Libíska jörð innan viku.

Kv.
Einar