Sunday, March 13, 2011
Íranhópur kominn heim
Við erum nýlent heima eftir afskaplega ánægjulega Íranferð. Hópurinn var 26 manns og afar samstilltur og skemmtilegur eins og oftast er raunar.
Við lögðum af stað um tvöleytið í nótt til Teheranflugvallar eftir kveðjukvöldverð og huggulegheit á Laleh hóteli. Ég þakkaði ferðafélögum afar góðar samverustundir og Rúnar Helgi sagði elskuleg orð um ferðina. Mohammed bílstjóra og Pezhmann gæd voru færðar gjafir sem þeir glöddust yfir. Pezhman segir nú að hann hafi mikinn áhuga á Íslandsferð næsta sumar. Sjáum til með það og hef þá samband við alla þá sem hafa verið með í ferðunum þangað.
Í fyrrakvöld eftir komuna til Teheran var smáhátíð vegna Kristínar og Jökuls sem voru í sinni brúðkaupsferð. Pezhmann færði þeim gjöf frá Arg E Jedid, ferðaskrifsstofunni okkar, og hótelið bauð upp á veglega tertu.
Daginn okkar í Teheran var ákveðið samsæri í gangi: einhverjir hefðarkettir höfðu ákveðið að koma á sömu og stundu og við í Þjóðminjasafnið svo við fengum ekki inngöngu af öryggisástæðum og hreingerningarlið hafði gert innrás í Nýlistasafnið svo ekki sáum við það. En menn létu þetta hreint ekki slá sig út af laginu, fórum í teppasafnið og glerlistasafn, keyptum sætindi í búntum og Hrafn komst í skákgarðinn þar sem menn tefldu af kappi og Þorvaldur festi á filmu að Ísland vann Íran þar 3:0
Ferðin til Teheran var ansi vel lukkuð og smásagnakeppnin var svo glæsileg að vafist hefur fyrir dómnefndinni( sem er skipuð mér) að komast að niðurstöðu. Leiðin frá Isfahan til Teheran var bara virkilega fín því allir lögðu orð í belg.
Í Isfahan héldum við líka smáveislu til heiðurs Guðrúnu Guðm. sem verður fimmtug á næstunni og fór í þessa ferð með manni sínum í tilefni þessa. Við erum svo einstaklega veisluglöð er óhætt að segja.
En nú er gamanið búið í bili og best að bíða eftir sálinni. Svo hittist hópurinn þegar menn hafa sorterað sál og myndir. Læt menn vita um það og þakka mjög vel fyrir góða samveru í þessari ferð.
Mun einnig hafa samband við Uzbekistanfara n.k. apríl innan tíðar.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Rifjar upp góða ferð sem ég fór til þessa fallega lands með þér. Mjög athyglisvert.kv.inga óskars
Post a Comment