Friday, March 25, 2011
Gæti skýrst þegar líður á daginn hvaða atburðir eru raunverulega að gerast í Sýrlandi? Og vesenisgangur í Ali Abdullah Saleh eina ferðina enn
Ali Abdullah Saleh, forseti Jemens hefur nú gefið út mjög þokukennda yfirlýsingu um að hann sé tilbúinn að stíga til hliðar og afsala sér völdum í hendur þeirra "sem hæfni hafa til þess að taka við" þó ekki sé það skilgreint nánar. Ekki var heldur nein tímasetning hjá forsetanum enda ættu menn nú að vera farnir að átta sig á því að slíkt er ekki sterkasta hlið Saleh sem amk tvívegis hefur tilkynnt að nú sé hann hættur og farinn en hefur síðan "látið undan þrýstingi þjóðarinnar" og boðið sig fram aftur.
Nú hefur þó harðnað á dalnum hjá Saleh eftir að ýmsir yfirmenn hersins hafa yfirgefið hann og hvetja jemenska undirmenn sína til að skjóta alls ekki á mótmælendur í dag. Búist er við mótmælum á næstu klukkutímum og mun þá reyna á hversu hlýðnir hermennirnir eru.
Á hinn bóginn er með öllu óklárt hver mundi taka við af Saleh því viðkomandi herforingjar sem hafa stungið af eru þrátt fyrir allt hluti gömlu valdaklíkunnar og óvíst að þeir njóti hylli fólksins í Jemen þó þeir hafi séð sér þann kost vænstan að láta forsetann róa.
Saleh hefur nú leitað til Sáda um að miðla málum (!) og jafnvel leggja til hver væri hæfur til að taka við. Það er eitthvað það vitlausasta sem ég hef lengi heyrt. Sádar eru illa séðir í Jemen éins og víða annars staðar. Margir eru þeir í landinu sem hafa ekki fyrirgefið Sádum er þeir ráku frá Sádi Arabíu milljón jemenska verkamenn, allslausa þegar Saleh lýsti yfir stuðningi við innrás Íraka í Kúveit 1990. Þeir komu heim í samfélag sem var á glóðum vegna sameiningar suðurs og norðurs sama árið.
Bouthainia Shaaban, talsmaður Basjars Assads forseta ávarpar fréttamenn í gær, fimmtudag
Það er nokkurn veginn augljóst að mótmælabylgjan í arabalöndunum hefur náð Sýrlandi en á hinn bóginn eru fréttir afskaplega misvísandi. Trúlegt er að það skýrist eftir föstudagsbænirnar á eftir hversu mikil alvara er í því sem þar gerist.
Mér sýnist samt næsta víst að óeirðirnar í bænum Deraa, skammt frá landamærunum í suðri við Jórdaníu, hafa haft djúp áhrif. Þar voru mótmælaaðgerðir, menn handteknir og hópur barna sem skrifaði skammaryrði um stjórnvöld. Krafist var pólitískra umbóta í landinu og sýrlenski herinn sendi tafarlaust liðsmenn á vettvang og reyndi að koma í veg fyrir að menn kæmust inn í bæinn. Vitað er með nokkurri vissu að 25-100 (öllu nákvæmari tölur liggja ekki fyrir) létu lífið eða slösuðust alvarlega. Aftur á móti eru fréttir ekki á einn veg um hvort það hafi verið herinn eða sýrslenskar leyniskyttur sem skutu á mótmælendur.
Mönnum virðist bera saman um að mótmælin í Sýrlandi séu af öðrum toga en sums staðar annars staðar. Það er ekki ungt fólk sem hingað til hefur þyrpst út á göturnar heldur fólk á miðjum aldri sem hefur fengið sig fullsatt að ritskoðun og atvinnuleysi sem mótmælir.
Ungt fólk hefur fram að þessu stutt forsetann og virðist trúa því að hann hafi á undanförnum áratug reynt að efla frelsi í landinu miðað við þá harðstjórn sem menn bjuggu við á tímum föður hans, gamla Assads sem var illræmdur harðstjóri.
Sumir hafa þó rifjað upp atburðina í Hama 1984 þegar uppreisnartilraun var gerð í landinu og gamli Assad braut hana á bak aftur af óhemju mikilli hörku og tugþúsundir manna létu lífið.
Ólíklegt er að til slíks geti komið. Þá hafði gamli Assad möguleika á því að varna því að fréttir um þau voðaverk bærust út úr landinu fyrr en seint og um síðir. En nú eru aðrir tímar: Sýrland hefur verið að opnast og erlendir blaðamenn fá einnig að starfa þar og koma frá sér fréttum nánast að vild.
Bouthainia Shaaban, talsmaður forsetans og rithöfundur, ávarpaði erlenda blaðamenn í gær og sagði að alls konar óvinir Sýrlands hefðu átt upptökin að mótmælunum í Deraa og þeim yrði refsað hvar sem þeir næðust. Hún sagði einnig að börnunum sem handtekin voru fyrir veggjakrot hefði verið sleppt og sýrlenska stjórnin mundi grípa til ýmissa ráðstafana til að koma til móts við almenning, hvað varðar atvinnu og sömuleiðis yrði farið yfir mál pólitískra fanga og þeim sleppt sem hefðu sætt óviðunandi meðferð.
Ekki er víst að þetta dugi til en víst er þó að Bandaríkjamenn hafa verið fljótari að tjá sig um mótmælin í Sýrlandi en t.d. í Bahrein þar sem enn eru greinir með mönnum og ótal margir hafa horfið að því er fréttir herma.
Bandaríkjamönnum er ósárt um þótt menn rísi upp gegn Assad sem hefur verið þeim óþægur ljár í þúfu og verða Sýrlendingar að teljast eina ríkið í þessum heimshluta sem hafa verið sjálfir sér samkvæmir í því að standa gegn Bandaríkjamönnum að Ísraelum ógleymdum.
Trúlegt er að sýrlenska stjórnin hafi vanmetið að menn mundi standa með henni vegna þessa og sé að súpa seyðið af því nú: fólk í Sýrlandi krefst þess að pólitískir fangar verði látnir lausir og atvinnutækifæri fyrir ungt fólk verði sköpuð. Á hinn bóginn hefur Basjar Assad notið tiltrúar ungs fólks í meira mæli en víða annars staðar. Menn hafa gert sér grein fyrir því að Sýrland hefur búið við það stjórnarfar að það þolir ekki kollsteypu og að forsetinn hefur sýnt skynsemi í því hvernig hann hefur tekið á málum.
Samt er ekki víst að það dugi til. Sú mótmælabylgja sem hefur farið um þessi lönd og víðast hvar ekki að ástæðulausu hlaut að lenda á Sýrlandi fyrr eða síðar. Hvernig stjórnin vinnur úr þeim málum er enn óráðin gáta.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Takk Jóhanna, maður fylgist af athygli með öllum fréttum sem maður heyrir úr þessum heimshluta, stórir atburðir þar að gerast. Þitt framlag er mjög góð viðbót.kv. inga óskars
Post a Comment