Thursday, March 17, 2011

Lokaorrustan um Líbíu að hefjast og Ghaddafi virðist muni hrósa sigri



Óman er það ríki Araba sem sjaldnast heyrist um og þar hefur allt verið með friði og spekt þó allt hafi logað í kring. Nú gerðist það hins vegar á dögunum amk tvívegis að efnt var til mótmæla og þótti ómanska lögreglan sýna mikla harðneskju.

Að vísu er ekki verið að mótmæla Kabúss soldán prívat og persónulega því hann nýtur mikils velvilja meðal Ómana. En menn vilja alvöru ritfrelsi, breytingar innan ríkisstjórnarinnar og númer eitt og tvö að bætt verði úr atvinnuleysi sem er mjög alvarlegt og mikið vandamál einkum meðal menntafólks í landinu.



Kyrrt er í augnablikinu í Bahrein en þar hafa Sádar hreiðrað um sig
Það hefur ekki linnt mótmælum í Bahrein að undanförnu fyrr en nú að sádiskt herlið hefur komið yfir brúna frá Sádi Arabíu til Bahrein. Sett hefur verið útgöngubann að sem stendur voga menn sér ekki út og vita sem er að Sádar muni ekki hika við að láta til skarar skríða gegn mótmælendum.

Það er varla nokkur vafi á því að Bandaríkjamenn hafa lagt blessun sína yfir þessa hernaðaraðgerð í Bahrein enda er þar stærsta flotastöð Bandaríkjamanna á svæðinu og miklir hagsmunir hins vestræna veldis í húfi.

Þar var sem sé ekki beðið jafn lengi með að berja á fólki og hefur tekið Öryggisráðið að rökræða um það hvort lítlát fólks skuli látið óátalið í Líbíu og dragi hver ályktun af því sem vill hvað veldur.



Muammar Ghaddafi hefur sýnt fáheyrða grimmd í að berja uppreisninga á bak aftur

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma mun Muammar Ghaddafi, leiðtogi Líbíu hrósa sigri yfir uppreisnarmönnum þar í landi. Hver bærinn, hvert svæðið af öðru hefur fallið í hendur hersveita hans, meðan Öryggisráðið og S.þ. hafa ekki getað komið sér saman um hvort ætti að setja flugbann á Líbíu.
Ghaddafi hefur eins og áður hefur komið fram fengið vopn og málaliða í stórum stíl úr sunnarverðri Afríku til liðs og þeir hafa ekki hikað við að berja líbíska uppreisnarmenn á bak aftur.

Þegar þetta er skrifað mun það aðallega vera borgin Benghazi í austurhlutanum sem uppreisnarmenn hafa á valdi sínu en Ghaddafi hefur lýst því yfir af alkunnri kokhreysti að hann muni hafa náð henni á sitt vald fyrir morgundaginn.

Það er eins líklegt að svo verði. Þá gæti orðið mikið blóðbað því ekki er víst að allir uppreisnarmenn geti forðað sér og eftir því hvernig Ghaddafi og liðsmenn hans hafa tekið á málunum verður þeim örugglega ekki sýnd miskunn.

Ghaddafi hefur veitt nokkrum vestrænum blaðamönnum viðtöl þessar síðustu vikur og þeim sem hafa hitt hann þykir með ólíkindum að maðurinn skuli fá stuðning - þó keyptur sé- svo vitfirrtur og kolruglaður sem hann er.

Framtíð Líbíu er því í voða í augnablikinu. Það sem virtist fara af stað með leyfi mér að segja ákveðinni gleði að losna nú loks við þennan illræmda harðstjóra er orðið að hryllingi fyrir líbíska þjóð.

Hvað með Sýrland?
Þeir einstöku atburðir hafa gerst að mótmæli hafa orðið í stærstu borgum Sýrlands, Aleppo og Damaskus. Krafist er ritfrelsis og að pólitískir fangar verði látnir lausir og gamlir spilltir kallar sem sitja í valdastöðum síðan gamli Assad réð ríkjum verði látnir víkja.
Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá Sýrlandi í morgun hafa mótmælin ekki verið neitt í ætt við byltingu - að minnsta kosti ekki enn sem komið er.

No comments: