Friday, March 18, 2011

Skelfingarnar í Jemen - umhugsunarvert "vopnahlé" í Líbíu


Ali Abdullah Saleh, forseti Jemens
Skelfingar atburðir hafa gerst í Jemen í dag og hófust alvarleg mótmæli í Sanaa og breiddust síðar út, að loknum föstudagsbænum. Ali Abdullah Saleh, forseti, hefur sýnt firnamikla hörku og skipar liðsmönnum sínum að skjóta á óbreytta borgara sem hafa í frammi mótmæli.

Opinberar fréttir segja að um 20 manns hafi fallið en skv. samtali mínu við kunningja mína í Jemen núna áðan er álitið að hátt í 100 manns hafi verið drepnir og með öllu er óvíst um hversu margir hafa særst.
Saleh, hinn illa þokkaði forseti Jemens hefur lýst yfir neyðarlögum og hótar mótmælendum því versta.
Fyrir mótmælum hefur farið framarlega jemenska konan Tawakul Kerman en handtaka hennar fyrir nokkrum vikum var kveikjan að þessum mótmælum sem um hríð virust ætla að lognast út af en nú hafa Jemenar aldeilis látið að sér kveða.

Saleh hefur tilkynnt að allar byssur verði gerðar upptækar og það eitt er ærið verk í þessu dreifða landi þar sem nánast hver maður á Kalishnykov rifla

Eftir því sem heimildarmenn mínir segja hafa ættbálkahöfðingjar í austurhlutanum safnast saman og sögusagnir eru um að þær hyggist gera árás á olíustöðvar í grennd við Marib þar sem forðum daga sat drottningin af Saba.

Ættbálkahöfðingjar í norðurhlutanum þar sem oft hefur dregið til tíðinda munu einnig vera að undirbúa að komast til Sanaa og helstu bæja á leiðinni og mótmæla harðstjórn og illsku Saleh.
Stjórnarandstöðuflokkurinn Isliah hefur hvatt sína menn óspart að láta ekki deigan síga.

Fyrri hópur Íslendinga í Líbíu í október 2008

Er þetta málamyndavopnahlé í LíbíuÞegar tveir hópar Íslendinga voru í Líbíu í okt og fram í nóv 2008 var kyrrt í landinu og menn nutu dvalarinnar, hvort sem var í Tripoli, í Berbabænum Ghadames og í hinni frægu fornminjaborg Leftis Magna.

Auðfundið var að mikil þreyta var í mönnum gagnvart Gaddafi og fylgifiskum hans en sjálfsagt grunaði okkur ekki að þvílík tíðindi gerðust sem eru þar nú.

Gaddafi lét utanríkisráðherra sinn lýsa því yfir um leið og öryggisráð S.þ hafði samþykkt flugbann á Líbíu að hér með væri lýst yfir vopnahléi. Útlendingar í landinu væru öruggir og allt væri í mesta sóma.
En samtímis því er haldið áfram landhernaði af gífurlegri hörku og grimmd og menn telja tæpt að trúa orðum og Ghaddafis. Hann fær að vísu ekki öllu meiri aðstoð frá málaliðum í suðurhlutanum, en ekki skyldu menn heldur gleyma því að landamæri Líbíu eru gríðarlega löng og menn hafa alltaf átt auðvelt með að smygla sér yfir þau.

Það getur verið að Ghaddafi blási aðeins mæðinni um hríð en hæpið að leggja trúnað á orð hans. Það er miklu líklegra að hann finni leið til að ganga milli bols og höfuðs á uppreisnarmönnum. Þeir hafa einnig sagt að þeim finnist með ólíkindum að Ghaddafi muni nú bara setjast rólegur út í tjaldið sitt.
"Hann hefur einhver tromp upp í erminni. Hann murrkar lífið úr fólki í Tripoli án þess að mikið beri á og síðan ræðst hann aftur gegn okkur," sagði einn úr hópi þeirra sem er í Banghazi.
Ekki er heldur vitað til að hann hafi skipað hersveitum sínum að hörfa frá Benghazi og við öllu má búast af honum. Hvenær sem er.

Ókyrrð í Sádi Arabíu
Konungur Sádi Arabíu er einnig hugsi og áhyggjufullur því þar kom einnig til mótmæla í gær og dag. Hann hefur lýst vilja til að huga að umbótum. Það er eins gott hann bretti þá upp ermarnar og geri umbætur fyrr en síðar.

Fari blossinn um Sádi Arabíu er málið orðið alvarlegt, ekki síst vegna þeirra hagsmuna sem Bandaríkjamenn eiga þar að gæt og mikils vinskapar við ráðamenn þar á bæ.Að ekki sé nú minnst á olíuna.

Ísraelar kunna sér ekki læti
Og á meðan þessu öllu fer fram eru Ísraelar hinir glöðustu. Enginn skiptir sér af því þótt þeir haldi áfram ólöglegum landnemabyggðum á Vesturbakkanum, né heldur árásum á Gaza og önnur svæði Palestínumanna.

3 comments:

Anonymous said...

Það er ótrúlega spennandi og fræðandi að lesa pistlana þína. Sv.G :-)

Anonymous said...

Það er ótrúlega spennandi og fræðandi að lesa pistlana þína. Sv.G :-)

Anonymous said...

Ekki eru fréttirnar heldur fallegar frá Bahrain og erfitt er að skilja hvers vegna yfirvöld þar létu rífa niður styttuna á Perlutorginu.
G. P.