Sunday, June 26, 2011
Mun sumar koma að liðnu þessu örlagaríki vori?
Gaddafi - vilja Vesturlönd nú allt í einu koma honum frá?
Það er óhjákvæmilegt annað en manni vefjist tunga um höfuð þegar fjalla skal um stöðu mála í Miðausturlöndum þessar vikurnar og mánuðina. Þar hafa gerst þvílíkir atburðir að þeir sem þekkja til þessa heimshluta eru fullir af sorg og reiði yfir því hvernig þar hefur verið haldið á málum og hvílíku ofbeldi alþýða manna hefur verið beitt.
Fyrir endann á hörmungunum sér ekki. Saleh forseti Jemen er spurningarmerki og gengst nú undir skurðaðgerðir í Sádi Arabíu. Engar áreiðanlegar fregnir eru af því hvort maðurinn er alvarlega skaddaður en reynt er af stuðningsmönnum hans að láta líta út fyrir að hann muni senn snúa heim og þá er helst að skilja að allt muni falla í ljúfa löð. Sem það gerir náttúrlega ekki. Of margt hræðilegt hefur orðið þar sem víðar annars staðar og nú er flest sem hnígur í þá átt að þeir sem berjast gegn forsetanum sjái að varaforsetanum Hadi er ekki treystandi.
Meðan þessu fer fram hafa Jemenar haldið áfram mótmælum. Skortur er farinn að gera vart við sig á ýmsum nauðsynjum. Menn hafa annað að gera en laga rafmagn og koma olíu til neytenda, vatn í Sanaa er meira vandamál en nokkru sinni áður.
Bandaríkjammenn og yfirborðskenndir sérfræðingar þar telja allt illt í Jemen megi rekja til Al Kaida þótt sannleikurinn sé að öllum líkindum sá að það mál, þjálfunarbúðir þeirra í suðrinu og að Jemen sé að verða gróðrarstía hryðjuverkamanna(og vel á minnst hryðjuverkamenn sem berjast þá gegn hverjum) er stórlega ýkt og notuð sem fyrirsláttur að einhverju verulegu leyti.
Stjórnarandstaða Isliah flokksins sem ég hafði satt að segja nokkuð góða trú á í byrjun virðist nú komin í hár saman og menn geta ekki náð neinu samkomulagi hvert þeir vilja að Jemen stefni, fari svo að forsetinn illræmdi snúi ekki heim aftur.
Í Sýrlandi gerast atburðir þyngri en tárum taki. Mín skoðun er sú að Basjar Assad hafi löngu misst völdin í hendur harðlínumanna og sé ekki lengur annað en strengjabrúða sem hangir þó á völdunum eins og hundur á roði. Skriðdrekum og þungvopnuðum hermönnum er beitt af fullkominni hörku nánast samtímis því að forsetinn flytur skrítna ræðu of lofar öllum sakaruppgjöf.
Basjar Assad hefur ekki manndóm í sér til að kveða upp úr með það að hans dagar séu liðnir og koma sér úr landi með örlitlum sóma, fólk flýr í þúsundatali yfir til Líbanons- sem telst nú varla það klókasta því armur Sýrlendinga nær til þeirra þar- og aukin heldur eru Sýrlendingar ekki eftirlæti Líbana- en þó einkum til Tyrklands og þá gæti allt farið í háaloft milli Tyrkja og Sýrlendinga því Tyrkir geta varla tekið endalaust til flóttamönnum.
Og í Líbíu hafa nú vesturlönd allt í einu greint frá því að þau vilji koma Gaddafi frá völdum! Og ekki nóg með það. Hann skal dreginn fyrir stríðsglæpadómstól. Það var ekki á áætlun þegar loftárásir NATO og Bandaríkjamanna hófust, þá átti aðeins að "vernda" óbreytta borgara, hvernig sem hinir hittnu og hnyttnu loftárásamenn ætluðu að þekkja í sundur óbreytta borgara og fylgismenn Gaddafis.
Bahrein má helst ekki tala um, þar sem Bandaríkjamenn hafa sína helstu flotastöð en vitað er að þar hefur verið barið miskunnarlaust á sjitum og þeir fangelsaðir í búntum.
En svo eru góðar fréttir innan um og saman við: Egyptar virðast ætla að komast frá sinni friðsömu byltingu með sóma og gleði og það er til eftirbreytni. Nokkur vafi leikur á um framtíð Túnis, að minnsta kosti er flótti þar stöðugur og þá einkum yfir til Ítalíu og Frakklands og Spánar.
Mohammed Marokkókóngur hefur sýnt klókindi og stjórnkænsku og lofað umbótum og að hann afsali sér góðum hluta valda sinna ef það mætti verða til að verulegur eldar kviknuðu ekki þar. Það er lofsvert svo fremi við það verði staðið.
Enn er Alsír tiltölulega rólegt og Jórdanía hefur hemil á sínu fólki, ekki með harðræði heldur með því að kóngur hefur sýnt stillingu og yfirvegun.
En þrjú lönd, Líbía, Sýrland og Jemen standa í loga. Hver verður þróunin þar?
Menn tala um arabíska vorið og vissulega var þörf á margvíslegum umbótum, frelsi, auknum mannréttingum osfrv.
En spurningin er líka: Hvað mun fylgja í kjölfarið. Hverjir verða til að taka við?
Og hvernig leysa Írakar svo sín mál? Þar gerast skelfilegir viðburðir dag hvern sem hafa gersamlega fallið í skuggann. Þó nokkrir tugir Íraka deyi á hverjum degi er það ekki lengur fréttaefni.
Því er það þessi spurning sem brennur á flestum: Að loknu þessu arabíska vori sem er orðin klisja í vestrænum fjölmiðlum - kemur þá sumar að því liðnu?
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Þakka þér fyrir þetta, Jóhanna. Þú hefur lag á því að setja þetta fram á einstaklega skilmerkilegan og hnitmiðan hátt.
Kv Guðrún M
Post a Comment