Wednesday, November 23, 2011

Eþíópíuferðir eru báðar fullsetnar/ Verður eitthvað að marka loforð Saleh, forseta Jemens nú?


Jk við fossa Bláu Nílar

Sæl öll og takk fyrir síðast á góðum fundum um helgina.

Vil bara láta þess getið að báðar ferðirnar eru nú fullsetnar og þó ég skrifi á biðlista er mjög ósennilegt að einhverjar breytingar verði.

Bið alla vinsamlegast að greiða á réttum tíma og þakka raunar góða skilvísi í þeim efnum. Næsti greiðsludagur er 1.des.

Við höfum ákveðið að taka með okkur skóladót, blýanta, stílabækur, yddara ofl. límmiða,sápur, þvottapoka, fótbolta og kannski nokkur töfl. Það eru litlar skólabyggingar alls staðar og reynt að halda uppi kennslu en skólar eru mjög vanbúnir.

Hef haft samband við ferðaskrifstofustjórann okkar og hann mun velja skólana sem við heimsækjum.

Þetta mæltist mjög vel fyrir á báðum fundunum og allir vita nú hvað þeir eiga að taka með. Fannst ágætt að hafa það svo ella hefðu kannski margir keypt það sama.


Frá Kandovan
Hótelið sem verðum á er hoggið inn í kletta og er mjög sérstakt. Skemmtileg herbergi

Íran- ný áætlun
Er nú að bíða eftir nýju Íranáætluninni sem er í sjálfu sér að mestu tilbúin en vantar flugmiðaverð og því læt ég aðeins bíða að setja áætlunina inn. Reikna má fastlega með að hún verði birt í lok desember.
Mér sýnist þó ljóst að verð hækkar enda hefur merkilegt nokk tekist að halda verði á Íranferðunum óbreyttum sl 4 ferðir. Það má búast við að ferðin kosti um 490 þúsund, en það er sagt með fyrirvara.

Hún er áætluð í september 2012 eins og fram hefur komið og við byrjum hana í Tabriz í norðvesturhlutanum. Fljúgum heim frá Teheran þar sem ekki er fáanlegt flug frá Isfahan eins og ég hefði kosið.

Býst við að í þessa ferð muni einkum fara félagar sem hafa áður sótt Íran heim en auðvitað eru nýir velkomnir. Ég hef skrifað niður nokkurn hóp en flestir með spurningamerki og væri afskaplega hentugt ef þið létuð mig vita um áhuga.

Áætlunin virðist vera mjög spennandi og fyrir utan Isfahan sem ég held að enginn vilji sleppa er að öðru leyti farið á nýjar slóðir.



Verður eitthvað að marka orð Saleh nú frekar en áður?

Þær fréttir berast frá Jemen að Ali Abdullah Saleh, forseti sé kominn til Sádi Arabíu og þar muni hann skrifa undir að hann afsali sér völdum í hendur varaforseta landsins á næstunni. Þetta samkomulag var unnið af stjórnum Flóaríkjanna og S.þ.

Þessar fréttir eru auðvitað ánægjulegar í sjálfu sér en öllu verra hlýtur þó að teljast að þau eru ótalin loforðin sem Saleh hefur gefið um það að hann sé tilbúinn að víkja en þegar komið hefur af efndum hafa þær gufað út í buskann og eftir situr jemenska þjóðin með þennan illræmda forseta sem hefur stjórnað landinu á fjórða áratug.

Hann hefur verið beittur þrýstingi af ýmsum innanlands sem utan að fara til að koma í veg fyrir að átökin haldi áfram í landinu eða það brjótist jafnvel út borgarastyrjöld. En Saleh á líka aðskiljanlega stuðningsmenn sem eiga ríkra hagsmuna að gæta um að hann fari alls ekki og þeir hópar hafa látið að sér kveða og lýsa nú hinni mestu andstöðu við þessa samningagjörð.

Auðvitað væri óskandi að Saleh tæki pjönkur sínar og hypjaði sig en sjálf er ég í stórum vafa um að hann standi við þau orð sín nú. Það hefur sýnt sig að hann er slóttugur og ber fyrir sig að hann njóti óskoraðs stuðnings og það sé bara óþjóðalýður sem vill að hann fari.

En guð láti gott á vita: Kannski bregður hann út af vananum, stendur við orð sín og víkur. Fyrir jemenska þjóð væri það besti kosturinn þó ekki sé þar með sagt að allt mundi umsvifalaust falla í ljúfa löð í þessu fátæktarinnar og fegurðarinnar landi.

Sunday, November 20, 2011

Stórfínir kynningarfundir um Eþíópíu hjá okkur í dag


Ferðaskrifstofuhjónin í Addis og JK. Myndin tekin í maí sl.

Efnt var til fundar með væntanlegum Eþíópíuförum í dag í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu í dag og var mæting með afbrigðum góð. Þeir fáu sem komu ekki höfðu látið vel og alúðlega vita.
Í fyrri ferðinni 3.-20.mars eru 30 manns og í þeirri seinni 31.mars-17.apr. 27 manns.
Nokkrir eru á biðlista.

Við fórum yfir áætlunina og spjölluðum um hana, margs var spurt og svo var diskurinn um Eþíópíu látinn rúlla á tjaldi.

Það er góð blanda nýrra og gamalla félaga og samtals þrettán hafa aldrei farið í VIMA-ferð og einnig er eftirtektarvert að sjö þátttakenda eru innan við tvítugt.

Ég lét þátttakendur hafa áætlunina, vonandi rétta úr garði gerða, einnig pistil um Eþíópíu sem Vera Illugadóttir hafði gert fyrir mig, svo og veðurkort og þátttakendalista.

Ekki má gleyma að menn gerðu sér gott af írönskum hnetum(gjöf frá Mohamad bílstjóra), döðlum óg kökum einnig frá Íran og sötruðu te/kaffi/kakó með.

Ánægjulegir fundir í hvívetna og allir virðast hlakka til enda verður víða farið um landið í ferðinni.

Teppasýning verður vonandi að veruleika í febrúar
Strákarnir okkar í Isfahan koma ef guð lofar í febrúar með kássu af mottum og teppum undir armi og ég stússa í húsnæðismálum og alls konar praktískum málum. Enn er nokkur vafi á húsnæði fyrir sýninguna en ég ætla að gera því skóna að það leysist á næstu dögum.

Þá koma þeir hingað bræðurnir ljúfu Ali og Hossein Bordbar ásamt þriðja starfsmanni verslunarinnar Seyed Ahmad. Einnig hefur leiðsögumaðurinn okkar Pezhman Azizi ákveðið að slást í förina og verður ugglaust ánægjuefni fyrir marga að hitta hann. Við ættum að efna í einhverjar ferðir fyrir hann og tel víst að við höldum eina veislu eða svo.

Ég hef sent meðmælabréf til danska sendiráðsins í Teheran sem sér um áritunarmál og hefur raunar ekki alltaf brugðist skjótt við.
Utanríkisráðuneytið hefur gefið góð orð um að mæla með að þeir fái áritun verði einhver töf á því.
Allar hugmyndir um húsnæði eru afar vel þegnar.

Wednesday, November 2, 2011

Sýning á persneskum teppum í febrúar---fundur Eþíópíufara( báðir hópar) 20.nóv



Í febrúar n.k. hyggjast þeir koma til Íslands, teppadrengirnir okkar góðu frá Isfahan og halda sýningu á teppum og mottum í svona tvær vikur. Er að leita að sýningarhúsnæði fyrir þá og íbúð og ef þið vitið af einhverju sem kynni að henta væri elskulegt af ykkur að láta mig vita.
Sýningarhúsnæðið ætti að vera svona 40-60 fm og þá langar að fá íbúð þessar tvær þrjár vikur sem þeir verða með sýninguna.

Fundir með Eþíópíuförum 20.nóv
Held það væri kjörið að efna í fundi með Eþíópíuförum þann 20.nóv. Í gamla stýrimannaskólanum við Öldugötu kl 14 (Fyrri hópur) og kl. 15 seinni hópur. Mér þætti
mjög vænt um ef þið vilduð láta mig vita hvort þið komið ekki ábyggilega því það er nokkuð snúið að fá húsnæði hjá Mími-símennt nú þegar kennsla er nánast alla daga.

Á fundinum útdeili ég fullbúinni áætlun og dagsetningum. Einnig hollráðum og leiðbeiningum, lista yfir þátttakendur og þess háttar.
Bið menn að mæta stundvíslega.
Við fáum okkur svo te og kaffi og gæðum okkur á írönskum góðgæti.

Bið þá fáu sem enn hafa ekki gert upp nóvember að gera það snarlega. Vonast til að þau fáu skönnuðu vegabréf eða ljósrit sem ég hef ekki fengið, verði tilbúin þarna á fundinum.

Tuesday, November 1, 2011

Eþíópíufundir síðla nýhafins nóvember


Sæl öll

Bendi á að við ferðaskrifstofustjórinn í Addis Abeba erum nú í stöðugum imeilsamskiptum varðandi formsatriði Eþíópíuferðanna.

Enn hef ég ekki fengið öll ljósrit(helst skönnuð) frá seinni hópnum og bið menn að gjöra svo vel að koma þeim til mín hið fyrsta.Þar eru einnig tvö sæti laus vegna skyndilegra forfalla

Jafnskjótt og Mímir fellst á að lána mér húsnæði efni ég í fundi fyrir báða hópa og þá verður áætlunin lögð fram í fullbúinni mynd. Nokkrir hádegisverðir bætast við án þess að verð hækki og einnig lítur út fyrir að eins manns herbergi verði næg handa þeim sem eftir því óska nema etv á einum stað.

Ýmsir hafa spurt hvort þeir geti notað púnkta í flugið Kef-Ldn-Kef og því til að svara að ég hef ekki fengið svar þar að lútandi. Mun kanna það betur og þið verðið örugglega öll látin vita ef það fæst. Ekki mundi saka að fólk léti mig vita ef það veit það sé með næga púnkta því þá er aðeins hægt að nota ef þeir eru fullnægjandi margir. Dæmi: eigi maður t.d. 15 þús púnkta er EKKI hægt að nota þá. Þurfa að vera um 39 þúsund minnir mig.

Ég vona að vel verði mætt á fundina þegar þar að kemur, þá verður einnig útdeilt leiðbeiningum og hollráðum og ég er með birgðir af írönskum döðlum, hnetum og kökum sem við gæðum okkur á.

Vinsamlegast greiðið á réttum tíma og endilega drífið í að senda mér ljósritin.