Sunday, November 20, 2011

Stórfínir kynningarfundir um Eþíópíu hjá okkur í dag


Ferðaskrifstofuhjónin í Addis og JK. Myndin tekin í maí sl.

Efnt var til fundar með væntanlegum Eþíópíuförum í dag í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu í dag og var mæting með afbrigðum góð. Þeir fáu sem komu ekki höfðu látið vel og alúðlega vita.
Í fyrri ferðinni 3.-20.mars eru 30 manns og í þeirri seinni 31.mars-17.apr. 27 manns.
Nokkrir eru á biðlista.

Við fórum yfir áætlunina og spjölluðum um hana, margs var spurt og svo var diskurinn um Eþíópíu látinn rúlla á tjaldi.

Það er góð blanda nýrra og gamalla félaga og samtals þrettán hafa aldrei farið í VIMA-ferð og einnig er eftirtektarvert að sjö þátttakenda eru innan við tvítugt.

Ég lét þátttakendur hafa áætlunina, vonandi rétta úr garði gerða, einnig pistil um Eþíópíu sem Vera Illugadóttir hafði gert fyrir mig, svo og veðurkort og þátttakendalista.

Ekki má gleyma að menn gerðu sér gott af írönskum hnetum(gjöf frá Mohamad bílstjóra), döðlum óg kökum einnig frá Íran og sötruðu te/kaffi/kakó með.

Ánægjulegir fundir í hvívetna og allir virðast hlakka til enda verður víða farið um landið í ferðinni.

Teppasýning verður vonandi að veruleika í febrúar
Strákarnir okkar í Isfahan koma ef guð lofar í febrúar með kássu af mottum og teppum undir armi og ég stússa í húsnæðismálum og alls konar praktískum málum. Enn er nokkur vafi á húsnæði fyrir sýninguna en ég ætla að gera því skóna að það leysist á næstu dögum.

Þá koma þeir hingað bræðurnir ljúfu Ali og Hossein Bordbar ásamt þriðja starfsmanni verslunarinnar Seyed Ahmad. Einnig hefur leiðsögumaðurinn okkar Pezhman Azizi ákveðið að slást í förina og verður ugglaust ánægjuefni fyrir marga að hitta hann. Við ættum að efna í einhverjar ferðir fyrir hann og tel víst að við höldum eina veislu eða svo.

Ég hef sent meðmælabréf til danska sendiráðsins í Teheran sem sér um áritunarmál og hefur raunar ekki alltaf brugðist skjótt við.
Utanríkisráðuneytið hefur gefið góð orð um að mæla með að þeir fái áritun verði einhver töf á því.
Allar hugmyndir um húsnæði eru afar vel þegnar.

No comments: