Sæl verið þið
Komum heim s.l. nótt. Ferðin var löng og nokkuð vinalega ströng en ég held að óhætt sé að fullyrða að merkilegri ferð hef ég ekki farið með hóp lengi lengi.
Við keyrðum frá Arbaminch til Addis með nokkrum mynda-klósett(guðsgræn náttúran)og hádegisstoppum. Tjekkuðum inn á Khalebhóteli í þriðja sinn.Var rétt eins og að koma heim og okkur var vel fagnað.
Um kvöldið bauð Jósef ferðaskrifstofustjóri okkur út á herlegan stað þar sem var dýrðlegur matur og dans og söngvasýning. Yfirleitt hef ég nú takmarkað gaman af slíku en þessi var alveg spes og við vorum náttúrlega orðnar þvílíkar heimsmanneskjur að við vissum meira að segja hvaðan í landinu dansar voru. Hafsteinn var settur upp á svið og skrýddur brúðgumaklæðum og dansaði með og gerði mikla lukku.
Síðasti dagurinn fór í leti og pökkun og var það prýðileg ráðstöfun. Menn hvíldu sig, skruppu í búðir, skoðuðu bæinn og ýmislegt fleira. Um kvöldið snæddum við á Khaleb og ég þakkaði ferðafélögum samveruna og ákvað eftir langa umhugsun að nota sterkt orð sem ég geri sjaldan og fullyrða að þetta hefði verið yndislegur hópur. Bergþór sagði falleg orð og Sigþrúður hélt flotta brandaraalvöruræðu.
Ég held að þessi ferð hafi verið öllum lærdómsrík og við verðum lengi að melta hana með okkur, fátæktin, fegurðin, fjölbreytnin gleðin, ýtnin, hægagangurinn í allri þjónustu, flestir gististaðir fínir - einn svo óboðlegur að það varð beinlínis drepfyndið og allir flýðu út og sátu saman og möluðu við bjórdrykkju.
Við urðum öll að setja í annan gír. Tókst það bara nokkuð vel.Ég vona sannarlega að seinni hópurinn verði jafn lukkulegur en hann heldur utan 31.mars svo það er eins gott að sálin í mér verði komin í tæka tíð.
Ef mér tókst ekki að kveðja alla á Keflavíkurflugvelli í nótt sendi ég þeim bestu kveðjur. Myndakvöld verður spennandi enda mjög góðir ljósmyndarar í hópnum.
Skal tekið fram að myndirnar með pistlunum eru eftir Mána Hrafnsson. Geri ráð fyrir að myndakvöld verði síðari hluta maí þegar seinni Eþíóp er lokið og ég hef skutlast í rannsóknarferðina til Íran vegna nýju áætlunarinnar.
Mun senda seinni Eþíópíuhóp nokkrar ábendingar og minni á að
farið er frá Terminal 3 í London eins og ég sagði í upphafi. Það gekk ljómandi vel að tjekka inn alla leið - þó ein taska týndist í viku var það sem betur fer mín taska- og sama máli gegndi um ferðina heim. Muna það.
Tuesday, March 20, 2012
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Sindri & Máni eru himinlifandi eftir ferðina - dálítið dasaðir enda sálin líklegast enn á ferðalagi. Við Birta erum verulega spenntar fyrir næstu ferð þinni og munum gera okkar besta að vera dásamlegar. kv. ER
Post a Comment