Harðir bardagar geisa nú í hinum sögufræga bæ Malulah sem allir Íslendingar þekkja
Ástandið í Sýrlandi verður stöðugt hrikalegra og flóttamenn streyma yfir landamæri nágrannalanda í leit að skjóli. Mikil þörf er fyrir öflugt hjálparstarf. Flestir flóttamannanna eru í Líbanon, þar sem heilbrigðisaðstoð fyrir þá stendur á brauðfótum. Rauði krossinn á Íslandi styður Rauða krossinn í Líbanon til að mæta brýnum þörfum flóttafólks fyrir heilsugæslu og læknisaðstoð.
Ástandið í Sýrlandi
Talið er að um 100 þúsund manns hafi látið lífið í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi. Sjö milljónir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín, þar af fimm milljónir sem eru á vergangi í eigin landi og tvær milljónir sem hafa flúið til nágrannaríkja. Heilbrigðiskerfi landsins er í molum. Alls hafa 38 spítalar og 149 heilsugæslustöðvar verið eyðilagðar í átökum undanfarinna mánaða.
Hjálparstarf Rauða krossins í Sýrlandi
Alþjóða Rauði krossinn og sýrlenski Rauði hálfmáninn hafa haldið uppi viðamiklu hjálparstarfi um allt land frá upphafi átaka. Því er þó ekki að leyna að afar torsótt hefur reynst að starfa þvert yfir víglínur, enda fjölmargir hópar sem takast á. Rauði hálfmáninn er samhæfingaraðili alls hjálparstarfs í landinu, sem þýðir að félagið dreifir hjálpargögnum bæði fyrir alþjóða Rauða krossinn og fyrir aðrar hjálparstofnanir svo sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Á hverjum degi leggja þrjú þúsund starfsmenn og sjálfboðaliðar sýrlenska Rauða hálfmánans sig í mikla hættu við störf sín, enda hafa 22 þeirra látið lífið í átökunum hingað til. Framlag Fatímusjóðsins á árinu 2012 var notað til að styðja hjálparstarf Rauða krossins innan Sýrlands.
Ástandið í Líbanon
Í Líbanon búa 3,9 milljónir manna en til viðbótar eru nú 700 þúsund nýlegir flóttamenn frá Sýrlandi. Því lætur nærri að fimmti hver maður í landinu sé flóttamaður frá Sýrlandi, en í landinu eru fyrir hundruð þúsunda flóttamanna, einkum Palestínumenn. Heilbrigðiskerfið í Líbanon er að mestu einkarekið, sem hefur í för með sér að efnalítið fólk hefur takmarkaðan aðgang að því. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að 51% flóttafólksins séu á barnsaldri og samtals 76% konur og börn.
Heilbrigðisaðstoð alþjóðasamfélagsins við sýrlenska flóttamenn í Líbanon byggir á því að auðvelda aðstoð að grunnheilsugæslu. Áhersla er lögð á fyrirbyggjandi heilsugæslu og læknisaðstoð, einkum í tengslum við barnsfæðingar, ungabörn (þar á meðal bólusetningar) og fólk með króníska sjúkdóma. Ekki er langt síðan hafist var handa við að veita slíka heilbrigðisþjónustu út frá hreyfanlegum heilsugæslustöðvum (mobile clinics).
Langt er þó frá því að slík heilsugæsla nái til allra. Þannig náði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til níu prósenta sýrlenskra flóttamanna í Líbanon á fyrstu mánuðum þessa árs.
Hjálparstarf Rauða krossins í Líbanon
Rauði krossinn á Íslandi og í Noregi hafa tekið höndum saman um að styðja verkefni sem Rauði krossinn í Líbanon starfrækir til hjálpar sýrlenskum flóttamönnum í landinu. Verkefnið felst í því að halda úti þremur hreyfanlegum heilsugæslustöðvum, í Norður-Líbanon, Bekaa og Suður-Líbanon. Þar sem flóttamenn í Líbanon fá ekki leyfi til að mynda eiginlegar flóttamannabúðir þá fer hjálparstarfið meðal annars fram með þessum hætti. Læknar og hjúkrunarfræðingar fara um svæðin á bíl og veita margvíslega læknisþjónustu. Þá er gefinn sérstakur gaumur að leiðum til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum, sem yfirleitt er fylgifiskur svona aðstæðna.
Rauði krossinn í Líbanon starfrækir nú þegar heilsugæslustöðvar víða í landinu. Hinar hreyfanlegu heilsugæslustöðvar – bílar með læknum og hjúkrunarfræðingum – eru gerðar út frá þessum stöðvum. Aðstoðin er til viðbótar þeirri þjónustu sem veitt er í heilsugæslustöðvunum og sjúkrabílaþjónustu, sem líbanski Rauði krossinn rekur einnig. Meðal verkefna sem Rauði krossinn á Íslandi styður þannig í gegnum hinar hreyfanlegu heilsugæslustöðvar má nefna:
- Ungbarnaeftirlit
- Bólusetningar
- Mæðravernd
- Kvensjúkdómalækningar
- Hreinlætisfræðsla og dreifing hreinlætispakka
- Áfallahjálp
- Lyfjagjöf vegna krónískra sjúkdóma
- Aðgerðir til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og börnum
Aðstoðin fer að hluta til fram í gegnum sjálfboðaliða Rauða krossins í Líbanon, sem búa á sömu svæðum og flóttafólkið. Sérstaklega ber að taka fram að líbanskar konur munu taka þátt í að meta, með flóttakonunum frá Sýrlandi, hvaða ógnir steðja að konum og börnum og saman munu þær leita leiða til að draga úr ógnunum. Meðal starfsfólks hinna hreyfanlegu heilsugæslustöðva verður heilbrigðisstarfsfólk sem sérhæfir sig í að fást við aðstoð eftir kynferðislegt ofbeldi.
Það er von Rauða krossins á Íslandi að Fatimusjóðurinn sjái sér fært að styðja félagið við að halda úti því verkefni sem er lýst að ofan. Félagið lýsir sig reiðubúið til að veita Fatímusjóðnum upplýsingar um framgang verkefnisins á næstu mánuðum.
No comments:
Post a Comment