Saturday, April 10, 2010

Munið að taka frá 2 tíma laugardag 24.apr. - fréttabréf væntanlegt- bréfberar óskast ofl

Aðalfundurinn okkar í ár verður í Kornhlöðunni í Bankastræti( bak við Lækjarbrekku) laugardag 24. apríl nk kl. 14. Vinsamlegast takið tvo tíma frá og mætið þar vel og stundvíslega. Vil taka fram að þar verður einnig hægt að kaupa afmælisritið sem krakkarnir mínir gáfu út í tilefni stórafmælisins míns nýlega.

Myndakvöld Líbanons/Sýrlandsfara verður trúlega snemma í maí, þarf að kanna tíma t.d. Lundarreykjadalsfólks því okkur langar til að allur hópurinn hittist. Þetta var svo spes ferð.



Hér á myndinni sjást þau sýrlensku forsetahjónin Asma og Basjar sem eignuðust marga aðdáendur, leyfi ég mér að halda í ferðinni á dögunum. Til fróðleiks má svo bæta við öðrum vinum þeirra til fróðleiks að það hefur fjölgað um eina litla telpu í fjölskyldunni svo nú eru börnin orðin þrjú. Þetta er sérstaklega nefnt fyrir Ragnheiði Gyðu sem er áhugamanneskja, ásamt mér um hagi þeirra hjóna.



Í næstu viku kemur út fréttabréfið okkar og eru þar læsilegt efni, þar má nefna seinni hluta Íransgreinar Höskuldar Jónssonar, Finnbogi Rútur Finnbogason, arabískunemandi í Damaskus skrifar um upplifun sína af Sýrlandi. Dóminik Pledel Jónsson um líbönsk vín, í tilraunahúsinu er réttur frá Alsír, Vera Illugadóttir skrifar um hr. Ibrahim og Blóm kóransins og er þá fátt eitt talið.
Myndin af póstkassanum er birt til að minna ástúðlegu bréfberana okkar á að gefa sig fram aftur. Það sparar okkur verulega fjárhæð ef fólk vill bera út bréfið og félagssjóðurinn er magur.

Við síðasta fréttabréf fengum við góða aðstoð og ég bið fólk að láta mig vita hvar það gæti tekið bréf og komið þeim til skila. Og fengið sér hressingargöngu í leiðinni.
Nokkuð hefur borið á að fólk láti ekki vita um breytingu á heimilisfangi, gerið það nú í einum grænum.



Á aðalfundinum sem áður er nefndur 24. apríl mun Viðar Þorsteinsson - að loknum hefðbundum aðalfundarstöfum, ræða um Palestínu og einkum og sér í lagi þær fylkingar Hamas og Fatah sem elda þar grátt silfur saman og þær deilur koma m.a. í veg fyrir að Palestínumenn geti staðið sameinaðir gegn Ísraelum.Viðar þekkir vel til og verður án efa fróðlegt að hlýða á mál hans og án efa má beina til hans spurningum.

Á aðalfundinum hefur einnig verið ákveðið að skipa sérstaka YERO nefnd til aðstoðar JK vegna barnanna í Jemen og til að veita liðsinni varðandi skriffinnsku og öflun nýrra stuðningsmanna fyrir næsta ár.

Vonast svo til að skreppa til Jemen eins og áður hefur komið fram, en það verður líklega ekki fyrr en í maí og örugglega ekki fyrr en ljóst er hvort afmælisbókin mun skila því fé sem sárlega vantar svo við getum gengið frá húsakaupunum.

Því bið ég menn um liðsinni, kaupið bókina fyrir ykkur, til gjafa, til stuðnings verkefninu eða bara til að fá eigulega og læsilega bók í hendur.

Vona að sem flestir Kákasuslandafarar hafi sent Soffíu okkar nýgiftu kveðju, setti imeilið hennar í ábendingadálkinn hér fyrir neðan.

En umfram allt: FJÖLMENNIÐ Á AÐALFUNDINN, gerið upp félagsgjöld og KAUPIÐ AFMÆLISBÓKINA.

Og sendið póstinn svo áfram.

No comments: