Sunday, August 22, 2010
Heim komin eftir undursamlega ferð um svæði Palestínu -og Ísraels
Úr gömlu borginni í Jerúsalem
Sælt veri fólkið
Klukkan er nú þrjú aðfararnótt mánudags (klukkan sex að morgni í Jórdaníu og Palestínu) og ég er mætt og afskaplega ánægð með þessa skoðunarferð vegna hópsins í nóvember. Alls konar mál skýrðust fyrir mér sem ég hafði ekki áttað mig á og margt sá ég sem kom mér á óvart- margt jákvætt, sumt ívið óbærilegra og er þar einkum átt við þá þætti sem snúa að framgöngu Ísraela gagnvart Palestínumönnum.
Dagurinn í Jerikó verður eftirminnilegur í alla staði. Menjar hafa fundist þar sem rekjast átta þúsund ár aftur í tímann enda Jerikó í baráttu um titilinn elsta borg heims. Þar fór hiti í 52 stig í skugga. Samt skoðaði ég Kúmran þar sem fjárhirðir fann hin frægu Dauðahafshandrit fyrir nokkrum áratugum, horfði upp á fjallið þar sem sagt er að freistarinn- Satan í eigin persónu - hafi reynt að lokka Jesús til fylgis við sig, rannsakaði múra Jerikó en tókst ekki að blása þá niður enda eru þeir að metu neðanjarðar og fleira og fleira. Þar keypti ég Jerikórósina og mun nú athuga hvort það er rétt og satt að þessi rytjulegu strá sem ég flutti heim, verði að unaðsrós ef hún kemst í vatn.
Einnig í svo sem eina soldánshöll en varð óneitanlega að gefast upp öðru hverju og fá mér te og vatn.
Þaðan lá leið til Nablus sem er að því leyti erfiður staður að Ísraelar ráða vitaskuld hverjir fara þar inn og út. Eftir mörg símtöl við einhverja yfirmenn hersins var okkur Mousa leiðsögumanni sínum leyft að fara inn í Nablus ef við skrifuðum undir plagg um að Ísraelsstjórn mundi ekki bæta það tjón sem við kynnum að verða fyrir. Auðvitað urðum við hvorki fyrir tjóni né skaða og Nablus er afar spennandi staður. Ríkmannlegri en ýmsir aðrir Palestínumannabæir og þar er stundum andóf í gangi, en allt var friðsælt þennan dag enda allir væntanlega magnþrota af hitanum. Við skoðuðum Jakobsbrunninn forna og síðan upp á fjallið fyrir ofan Nablus þar sem útsýnið er hreint konunglegt.
Með okkur í för slóst einn forsvarsmaður Samaríugyðinganna sem býr í Nablus. Ég viðurkenni fúslega fáfræði mína en vissi ekki af þeim. Þeir eru um 300 talsins og hafa búið þarna kynslóð fram af kynslóð í fullri sátt við Palestínumennina. Þessi hópur biðst fyrir á annan hátt en aðrir gyðingar og eru öllu nær múslimum en gyðingum og sumir þeirra vilja raunar ekki telja sig gyðinga. Annað þorp er í Ísrael/Palestínu þar sem Samaríugyðingar búa, ámóta fjöldi, líklega eru þeir alls um 600-700 og þeir eiga einn fulltrúa á ísraelska þinginu.
Yfirleitt eru þeir mjög andsnúnir aðgerðum Ísraela gegn Palestínumönnum og hafa tekið afstöðu með aröbunum þegar í odda hefur skorist.
Í Nablus átti Mousa leiðsögumaður, skyldmenni sem hann hafði ekki hitt í nokkur ár því Nablus búar eins og aðrir Palestínumenn utan Jerúsalem fá ekki að fara þangað nema á föstudögum til bæna og skilyrði fyrir því eru að konur séu orðnar fertugar og karlar fimmtugir. Við sóttum heim þessa sómafjöldskyldu, heimilisfaðirinn er deildarforseti raunvísindadeildar háskólans í Nablus, kona hans stærðfræðikennari og myndarleg fimm börn þeirra virðast öll ansi náttúreruð fyrir stærðfræði og raunvísindagreinar.
Vegna ramadans afþakkaði ég veitingar sem átti að bera mér en þegar ég skutlaði mér aðeins út í 49 stiga heitt sólskinið var komið með djús og ávexti - minna mátti það nú ekki vera sagði húsfreyjan og var miður sín yfir því að ég vildi ekki að hún bæri mér veitingar.
Dagurinn í Jerúsalem(hópurinn hefur tvo þar) var minnisstæður í alla staði: gamla borgin er engu lík og hefur sem betur fer ekki breyst að meinu marki. Þar skoðaði ég hús/kirkju foreldra Maríu meyjar, gekk Via dolorosa og fór að Grátmúrnum, sá vistarveru hinnar heilögu kvöldmáltíðar, upp á Olívurfjallið, Getsemane og ég man eiginlega ekki hvað ég sá ekki. Fyrir utan þessa fjölbreyttu og sjarmerandi krákustiga þar sem verslun er við hvert fótmál, ærsl og hamagangur.
Við Mousa vorum nú samt ansi lúin eftir allt labbið en hann var verr settur en ég, hann var fastandi en ég gat þó leyft mér að svolgra vatn.
Ég hef ekki almennilega þrek í augnablikinu til frekari frásagna af þessari vel lukkuðu og lærdómsríku ferð. Mun tjá Palestínuförum það nánar þegar við efnum í annan fund. En óhætt að fullyrða að ferðin var mér afar gagnleg og það skilar sér vonandi í því að hópurinn fái góða ferð fyrir snúðinn.
Hef hvern dag komist á Netið því ókeypis aðgangur er að tölvu á því hóteli sem við munum dvelja á í Betlehem. Menn segja mér að nóvember sé mjög hagstæður mánuður til heimsóknar og þá verði veður hið þægilegasta, um 18-25 stig eða svo. Mun senda Palestínuhópnum skýrslu sem ég talaði um á fundinum á dögunum.
Sé að Íranfarar hafa borgað skilvíslega sín staðfestingargjöld og gott mál það og takk fyrir. Er afskaplega óhress með suma sem höfðu tilkynnt sig í Íranferðina og hætta nú skyndilega við. Það kemur sér vægast sagt illa en engu að síður mun ég reyna að halda verði óbreyttu, 450 þúsund fyrir Íranferð. Held hins vegar að ég hafi ekki sent alls kostar rétta greiðsluáætlun til Íranfara en bið þá að örvænta ekki. Verðið breytist ekki. Við möndlum þetta. En kærkomið væri óneitanlega að þeir sem sögðust ætla að fara í þá ferð og hafa allt í einu horfið úr sögunni létu vita. Ég tel það afar óheppilegt þegar svona lagað gerist að allt í einu telja menn ekkert sjálfsagðara en hoppa bara frá þó þeir hafi áður tilkynnt sig. Þetta er framkoma sem mér gremst stórlega en þakka þeim því betur sem hafa greitt eins og til var stofnað.
Nú er ég sem sagt búin í bili en mun láta frá mér heyra um leið og lúningurinn hefur lagast.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment