Wednesday, September 22, 2010

Munið- munið laugardagsfundinn - og alls konar upplýsingar




Sæl öll á septemberdegi

Vil minna ykkur á fundinn n.k. laugardag í Kornhlöðunni við Bankastræti kl. 14.
Magnús Sveinn Helgason mun flytja þar forvitnilegt erindi um þær breytingar sem hafa orðið á umfjöllun og umræðum um Miðausturlönd og islam í bandarískum stjórnmálum síðan 11.september 2001 og hvaða hlutverk islam virðist leika í kosningabaráttunni þar ní í haust.

Hann beinir sjónum að pólitíkseringu islam og vaxandi islamandúð í bandarískri stjórnmálaumræðu.

Magnús er sagnfræðingur og stundakennari við Háskólann á Bifröst og sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum. Síðan 2006 hefur hann haldið úti bloggsíðu á Eyjunni Freedomfries. Hann var búsettur í Bandaríkjunum frá 2000-2008 meðan hann var við doktorsnám í sagnfræði.

Þetta efni er sérlega forvitnilegt enda vita allir að fréttaflutningur í Bandaríkjunum af því sem gerist í heiminum og ekki aðeins Miðausturlöndum er afskaplega einlitur og takmarkaður.
Hvet menn til að mæta og ég er viss um að Magnús mun taka spurningum vel og leysa úr þeim.
Endilega takið með ykkur gesti og látið þetta berast.

Kaffi og tertur á boðstólum, félagsgjöld óskast greidd og nýir félagar boðnir velkomnir. Fréttabréfið er allt farið út, nokkur hafa komið til baka og suma fundu bréfberar okkar ekki vegna þess að fólk hefur flutt. Bið menn lengstra orða að senda okkur tilkynningu um slíkt.
Nokkur heimilisföng voru röng vegna mistaka okkar og beðist velvirðingar á því.

Uzbekistan
Þá er hér tvennt í sambandi við Uzbekistan: Allir ferðafélagar þangað í apríl n.k. hafa sent mér ljósrit og vinnustaðfestingu. Takk fyrir. Þetta fór ég með í skönnun í morgun og hef sent það út. Fundur um vegabréfsútfyllingarmál verður í lok nóv. í síðasta lagi. Kannski fyrr. Vinsamlegast fylgist með því.

Þá vil ég benda á að dagsetning fyrir ferðina í september er klöppuð og klár, 9.-22.sept og þeir sem hafa hug á þeirri ferð gefi sig fram fyrr en síðar. Óskað er eftir að þeir greiði síðan 50 þús. kr. í staðfestingjargjald fyrir 1.desember.

Íran
Þegar þetta er skrifað hef ég enn ekki fengið ljósrit af vegabréfum frá öllum Íranförum og bið menn lengstra orða að drífa í því að senda þau til mín.

Bendi á að ég hef uppfært Íranáætlunina og hún er komin aftur á hlekkinn sinn.

Fundur varðandi vegabréfsáritunarútfyllingu þar sem allir mæta með nýjar passamyndir og konur beri slæðu á myndum, verður í lok nóv. Eða fyrr ef hægt er að koma því í kring. Þá verða allir að mæta svo ég reyni að hafa á því góðan fyrirvara.

Annað flandur
Ég fer svo um miðja næstu viku til Líbanon og Sýrlands fyrir Bændaferðir. Í hópnum þeim er 31 og lukkast vonandi vel. Við höfum sömu gæda og í ferðinni síðasta vor.

Svo er ferðin til Palestínu 11.-19.nóvember og er fullskipuð og velskipuð eins og vera ber. Stend í stappi við ferðaskrifstofuna í Palestínu vegna verðbreytinga á ferðinni. Ekki séð fyrir endann á því. En hugsanlegt ég neyðist til að hækka ferðina um 20 þúsund krónur vegna þessa.
Læt þá þátttakendur vita síðar en við sjáum til.


Sjáumst svo á fundinum á laugardag. Þetta er fýsilegt efni og hvet ykkur til að taka með ykkur gesti. Og endilega sendið áfram á kunningja og vini.

1 comment:

Anonymous said...

Vil taka fram að þeir sem hafa ekki tilkynnt sig í seinni Uzbekistanferð fyrir 1. des og ef þátttaka reynist ekki næg þá dettur hún bara um koll
Kvjk