Friday, November 19, 2010

Palestínufarar í sjöunda himni

Sæl öll

Komum heim núna áðan og vægt til orða tekið að segja að allir voru í sjöunda himni. Þetta var eftirminnileg ferð og lærdómsrík, spennandi og allir nutu hennar í botn.
Því miður gafst mér ekki tími til að setja annan pistil inn á síðuna og bæti hér með aðeins úr því.

Hópurinn hugdjarfi í Getsemanegarðinum. T.f.h Mousa, leiðsögumapur, Unnur Hólmfríður Brjánsdóttir, Helga Sverrisdóttir, María Kristleifsdóttir, Eyþór Björnsson, Máni Hrafnsson, Linda Vilhjálmsdóttir, Jóhanna Kristjónsdóttir
Önnur röð frá hægri Helena Gíslason, Sesselja Bjarnadóttir, Kristín Haraldsdóttir, Ólöf Arngrímsdóttir, Eva Júlíusdóttir, Davíð Baldursson, Aðalheiður Birgisdóttir, Ólöf Magnúsdóttir, Elísabet Jökulsdóttir
Aftasta röð f.h. Hafsteinn Hafsteinsson, Högni Eyjólfsson, Rikharð Brynjólfsson, Guðmundur Kr. Guðmundsson, Eygló Yngvadóttir, Steingrímur Jónsson, Baldvin Gíslason, Mörður Árnason

Fundurinn í Ramallah með konu Marwans Bargouti, þingmanns, Födwu sem við hittum á mánudaginn verður líklega það sem stendur upp úr hjá mörgum. Marwan Bargouti var dæmdur í fjórum sinnum lífstíðarfangelsi hjá Ísraelum og 40 ár til viðbótar til vonar og vara. Hann var þá þingmaður og mjög ötull talsmaður fyrir réttindum Palestínumanna og hvort sem sakir sem á hann voru bornar voru réttar eða ekki er augljóst að Ísraelar líta á hann sem hættulegan mann - og þarf raunar ekki ýkja mikið til að menn séu taldir hættulegir öryggi Ísraels eins og það er jafnan orðað.

Kona hans, Fadwa tók þá við baráttunni og stýrir skrifstofunni í Ramallah af miklum skörungsskap. Hún tók okkur afskaplega vel, sagði frá af hjartans einlægni og rakti í leiðinni margflókin samskipti þessara tveggja þjóða í landi Palestínumanna. Það væri of langt mál að rekja það en við vorum mjög snortin að hlýða á hana og sjá þessa hugrökku konu sem gæti svo sem allt eins verið handtekin sjálf ef svo bæri undir. Þarna stoppuðum við góðan klukkutíma og einnig kom að hitta okkur palestínskt skáld sem Linda og Elísabet höfðu óskað eftir að hitta og spjallaði við þær
Rétt er að taka fram að þar sem ég var enn afleit af íslensku kvefi veitti Mörður drengilega aðstoð svo ég þurfti ekki að tala eins mikið og ella.

Í Ramallah vitjuðum við einnig grafhýsis Yassirs Arafat þar sem tveir verðir standa heiðursvörð allan sólarhringinn. Guðmundur Kr. arkitekt var afar hrifinn af því hve smekkleg umgjörðin er og við vorum mjög sammála því.
Að svo búnu og eftir rúnt um Ramallah var haldið til Nablus og brá svo við að engar hömlur voru settar á ferð okkar. Líf og fjör í Nablus og andrúmsloftið hið glaðlegasta og okkur var hvarvetna vel tekið og boðin hjartanlega velkomin sem við gengum um markaðinn og fleiri staði. Nablus er frægt fyrir góðar sápur og gerðum við m.a. nokkur kaup í þeim. Einnig skoðuðum við Jakobsbrunninn sem grískir annast og undir fallega kirkju sem þar hefur verið reist.


Daginn eftir var seinni dagurinn í Jerúsalem. Þá var farið að kirkju heilagrar Önnu, móður Maríu meyjar, í salarkynni hinnar heilögu kvöldmáltíðar, skoðuðum Rómverjabrautina og gengum síðan um gyðingahverfið og armenska hverfið í gömlu borginni. Síðan var frjáls tími og menn nutu tímans og notuðu hann vel.

Síðasta daginn lá leiðin til Jerikó sem er ein af elstu borgum heims sem enn er í byggð á sínum upprunalega stað. Þar var farið um menjar elstu leifa þessarar vinalegu borgar sem er undurfögur og mikill gróður í vininni, keyrðum aðeins upp á fjallið þar sem Satan reyndi að freista Jesú í þann tíð og að einum af nokkrum greftrunarstöðum Moses
og svo var farið í Kumranhellana þar sem hin frægu Dauðahafshandrit fundust fyrir einskæra tilviljun 1947.
Það skal tekið fram að Mörður Árnason las víða upp úr Biflíu þegar við átti og á leiðinni heim frá Jerikó flutti Rikharð afar fróðlegan fyrirlestur um krossfarana og skýrðist þá m.a. ástæða þess þegar múslimum ofbauð þegar Bush hóf sína "krossferð" gegn múslimum eftir 2001.

Þetta er náttúrlega hrá upptalning en óhætt að segja að allir þeir staðir sem við sóttum heim snertu menn á einn eða annan hátt. Það var til dæmis afar furðulegt að hvern dag þegar við keyrðum út úr Betlehem og um hliðið á múrnum þar konu riffilbúnir Ísraelar inn í rútuna til að skoða okkur. Það var einstakt og skrítið að sjá að Ísraelar ráða löndum Palestínumanna og geta haft þar alla sína hentisemi. Margir sögðust ekki hafa gert sér grein fyrir því hve nærvera Ísraela er mikil og landtökubyggðir -sem nú mun hafa verið gert smáhlé á gegn vopnum og öðrum hergögnum til Ísraela- eru á hverju strái og misbjóða manni á allan hátt.
Það var sömuleiðis eftirtektarvert að aðra útlendinga rákumst við ekki á í Nablus, Ramallah og aðeins fáeina í Hebron því Ísraelar draga úr heimsóknum þangað eftir því sem þeir geta.

Við vorum afskaplega ánægð með hótelið, Jacir Intercontinental en þar gistum við allar næturnar í Palestínu. Herbergin falleg og umhverfið smekklegt og allur viðurgerningur fyrsta flokks. Veit ekki til að neinn hafi truflast í maga í ferðinni.

Síðasta daginn lögðum við svo snemma af stað að Hussein/Allenbybrú. Ekki voru Ísraelar neitt að ´flýta sér að koma okkur í gegn en enginn var þó handtekinn og allt gekk þetta bærilega. Jórdaníumegin biðu fullt´rúar ferðaskrifsstofunnar og var hópnum skipt, tæpur helmingur fór í dagsferð niður til Petra og hinir til Amman.
Petrafólk var feiknalega glatt yfir þeirri ferð og Ammanfarar fóru annað hvort niður í gamla bæ eða tóku því rólega á hótel Days Inn.

Stefanía Khalifeh ræðismaður okkur í Jórdaníu kom svo og snæddi kvöldverð með hópnum og þar mætti einnig Finnbogi Rútur Arnarson sem er nýlega tekinn til starfa hjá Flóttamannastofnun S. Þ fyrir Palestínu sem aðsetri í Amman. Við áttum notalegt kvöld. Ég þakkaði félögunum einstaklega góða og merkilega ferð og Elísabet sagði nokkur orð og fór með ljóð sem hún hafði ort eftir fundinn með konu Marwans Bargouti.

Ég yrði ekki hissa þó svo að fleiri vildu fara í ámóta ferð og þið látið vita ef áhugi er á því. Kvaddi líklega ekki alla félaga á Keflavík enda réðst kvefið á mig með endurnýjuðum þrótti í dag en við munum hittast á myndakvöldi þegar menn hafa safnað sér og sálum sínum saman. Mikið var tekið af myndum og ÞMáni var sérlega skjótur að setja myndir inn á Facebook og svo var einnig um Steingrím.

Þetta var sem sagt reynslu, gleði og fróðleiksferð og ég þakka fyrir einstaklega góðar samverustundir.

Varðandi Uzbekistan
Eftir því sem ég veit best eru vegabréfin okkar í þann veginn að leggja af stað frá London. Þrátt fyrir að ég vandaði mig sem mest ég mátti þurfti Gulla pé að koma til liðs til að allt gengi og ísl. sendiráðið þar hefur sýnt sérstaka hjálpfýsi. Vonast til að þau skili sér fljótlega eftir helgi og þá verður þeim komið til manna snarlega.

Mér sýnist þátttaka vera komin í Uzbekistan ferð í sept 2011 og bið ég nú menn að greiða staðfestingargjald í hana 1.des, reikningsnr sem fyrr 342 13 551346 og kt 441004-2220. Upphæðin er 50 þúsund krónur. Mun senda þeim sem hafa sýnt áhuga skeyti um þetta á morgun.
Minni líka páskafara á að greiða sín gjöld um mánaðamótin

Og ekki mega Íranfarar gleyma að borga. Það hefur verið smávægilegur misbrestur á því en flestir hafa greitt samviskusamlega og á réttum tíma.

Nú er ég sem sagt hrjáð af kvefi og ætla að lúra og taka öllu með ró á morgun og sunnudag.

4 comments:

Anonymous said...

Velkomin heim! Vonandi hristir þú kvefið úr þér, te og kleinur hjálpa. kv. ER

Anonymous said...

Takk, Edda mín. Við Bernharð bröllum þetta. Sé að þú hefur ekki komið auga á gardínuna við símann
Takk kærlega og Bernharð biður fyrir kveðju
JK

Anonymous said...

Velkomin heim Jóhanna. Ég á mér þann draum að komast með þér í nákvæmlega svona ferð! Varðandi kvefið, var ég komin í þrot síðan við hjónin fórum til Tenerife 18.september og er komin á þriðja sýklalyfjakúrinn. Er sem sagt komin með króníska berkjubólgu. Ég hvet þig til að fara til læknis sem fyrst til að lenda ekki í svoleiðis leiðindum. Góðan bata :-))Sv.G

Anonymous said...

Veriði velkomin Sv.G