Wednesday, February 2, 2011
Forseti Jemens orðinn hræddur- gerir ótal breytingar til hins betra
Konur fara fyrir mótmælagöngu í Sanaa. Hópur ungra drengja hrópaði slagorð til stuðnings forsetanum. Þeir sögðust hafa fengið peninga til að hylla hann. Þegar þeim fannst þeir hafa unnið fyrir upphæðinni fóru þeir heim.
Það sama er að gerast í Kairó. Þar sagði egypskur stjórnmálaskýrandi að fólki hefði verið borgað (50 egypsk pund) fyrir að ráðast gegn mótmælendum á Tahrirtorgi
Ali Abdullah Saleh, forseti Jemens
Þeir gerast hratt atburðir í Arablöndum þessa dagana. Nú hefur Ali Abdullah Saleh forseti Jemens sagt á jemenska þinginu- nánar tiltekið í morgun- að hann ætli að grípa til margvíslegra ráðstafana til að bæta líðan fólks:
1. Hann heitir því að laun verði hækkuð og verðlag á nauðsynjum lækkað frá og með deginum í dag
2. Hann hefur gefið fyrirmæli um sjóðsstofnun sem hafi það að markmiði að ýta undir atvinnumöguleika bæði framhalds- og háskólanemenda.
3. Gjöld háskólanema á seinni önn verði tafarlaust lækkuð og lög sett þar um.
4.Hann hefur heitið alls konar stjórnskipulegum umbótum en fyrst og fremst að hann muni hafa samráð við stjórnarandstöðuna til að hlýða á/fara eftir tillögum þeirra til að auka atvinnu.
5. Hann hefur heitið að leggja á hilluna allar fyrri hugmyndir um að sonur hans taki við forsetaembættinu eins og hann hafði ætlað sér að koma í gegn
Stjórnarandstöðumenn og andstæðingar forsetans hafa verið með mótmælagöngur í Jemen flesta daga síðan í sl viku. Í bígerð var að efna til " Dags reiðinnar" á morgun um gervallt landið til að mótmæla og krefjast þess að forsetinn leggi niður völd sem hann hefur haft í áratugi.
Þegar þetta er skrifað er ekki vitað hvort þessi loforð forsetans- sem menn munu fylgjast vel með því hvort hann stendur við- verða eða hvort þessi orð muni duga til að lægja öldurnar. Sumir stjórnarandstöðuleiðtogar segja þetta sé of seint og hann verði að fara.
Án efa skýrist það á næstu dögum og vikum. Kosningar eru fyrirhugaðar í Jemen 27.apríl og forsetinn sagði einnig að hann lofaði að tryggja að þær færu fram á heiðarlegan hátt og erlendir eftirlitsmenn mundu fylgjast með að engin brögð væru í tafli.
Ég hef talið ástæðu til að skrifa þessa pistla nú upp á síðkastið því mér finnst að okkar fólk hafi áhuga á að fylgjast með þeim tímamótaatburðum sem eru að gerast í heimshlutanum okkar.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
5 comments:
Mjög gott að fá þessa pistla frá þér, þeir eru skrifaðir á mannamáli.
kveðja
Margrét
Heil og sæl Jóhanna mín
Gleðilegs árs og FRIÐAR !! óska ég þér og þínum.
Það er ómetanlegt að fá þessa pistla frá þér og mikla ánægju og lærdóm höfðum við að
Sjá þig í Silfrinu. Þú ert orðin mikill þekkingarbrunnur á þessu sviði . kærar þakkir og allt hið besta
Kv Heba
Takk fyrir þessa pistla Jóhanna … kann vel að meta þá!
Gg
sæl Jóhanna
Takk fyrir síðast. Þetta var fínn fundur og bráðnauðsynlegt að fá samantekt á atburðum og
því sem er að gerast í Mið-Austurlöndum.
Sömuleiðis áhugavert og gaman að fá að kynnast Kúrdistan og þessum mæta hjónum.
Síðan heyrði ég þetta fína viðtal við þig á Rás 1, Hringsól.
Takk fyrir þessa pistla, þeir eru bráðnauðsynlegir.
Batnandi mönnum er best að lifa. Það er heldur betur farið að hitna undir þessum einræðisherrum þarna niður frá.
Vonandi fer þetta allt vel í Egyptalandi, kemur líklegast best í ljós á föstudaginn.
kkv.
Hulda W.
Mjög fínt að fá þessa pistla frá þér. Þeir bæta miklu við það sem maður sér og heyrir í fréttunum.
Kveðja,
Axel.
Post a Comment