Sunday, February 13, 2011
Mótmæli brotin á bak aftur í Jemen og Alsír - en líklega er hafin framvinda sem verður ekki stöðvuð
Tawwkool Kerman með börnum sínum
Um helgina rétt í sömu mund og fréttir bárust um heiminn að Múbarak Egyptalandsforseti hefði neyðst til að segja af sér, brutust einnig út mótmæli víðar, þ.e. í Jemen. Þar hafa mótmælagöngur verið öðru hverju síðustu vikurnar en verða varla taldar öflugar, því lögregla hefur stöðvað þær, að því er virðist án verulegrar fyrirhafnar.
Samt er augljóst að forseti Jemens Ali Abdullah Saleh verður að hugsa sitt ráð og hefur þegar gert alls konar tilslakanir sem sagt hefur verið frá í pistlum hér. Hann hefur heitið að draga úr kostnaði háskólanema, stofna sjóði stil að styrkja verk sem gætu fært fólki atvinnu og fleira og fleira.
Í mínum huga virðist Jemena skorta kraftinn, áræðið og umfram allt úthaldið sem Egyptar sýndu en þó skyldu menn fara gætilega í að vanmeta þá. Námsmenn við háskólann í Sanaa og blaðamannasamtökin svo og konur í stórum hópum hafa þyrpst út á göturnar og mótmælt og jemenska blaðakonan Tawakul Kerman sem í rauninni hratt þessu öllu af stað segir fullum fetum að Jemenar muni ekki gefast upp fyrr en Saleh víkur af forsetastóli.
Hin opinberu kvennasamtök Jemena eru hins vegar meira og minna hlynnt forsetanum og hann hefur um sig stóran hóp manna sem vilja síst að hann fari frá vegna þess að þar með væru þeirra eigin hagsmunir í húfi.
En við verðum óneitanlega og því miður að taka gattneyslu Jemena með í reikninginn. Gattið gerir þá sljóa og sinnulausa og heldur þeim niðri og svo virðist að minnsta kosti í bili að þeir kjósi fremur að mótmæla smástund en fari svo og setjist að gattinu og spjalli um mótmæli í makindum og hugsi sér að gera eitthvað seinna- kannski.
Samt ætla ég að leyfa mér að vona að Jemenar gefist ekki upp.
Konur í Alsír
Sagt var frá því í gær, laugardag, að lögreglan í Algeirsborg hefði dreift tugþúsendum mótmælenda sem komu saman til að láta í ljós óánægju með stjórnarfarið.
Alsír er langtum flóknara samfélag en Jemen. Þar hefur í rauninni aldrei ríkt friður í raun og veru nema kannski rétt fyrstu árin eftir að Alsíringar unnu nýlenduherrana Frakka í blóðugu frelsisstíði 1962 og Frakkar viðurkenndu sjálfstæði landsins.
Þar með var komið á sósialisku lýðveldi í Alsír en flokkadrættir og greinir með ótal hópum og mjög sundurleitum hafa sett mark sitt á þetta samfélag allar götur síðan. Islamistar- bæði herskáir og hófsamir- svo og stjórnarflokkurinn hafa verið að stríða innbyrðis til mikils tjóns fyrir land og þjóð og þetta vissulega sett svip sinn á allt.
Í kringum 1990 var stjórnin í Alsír þó- að minnsta kosti á yfirborðinu- komin á þá skoðun að málið yrði að leysa og efnt skyldi til frjálsra kosninga í landinu. Þá kom í ljós að flokkur islamista FIS hafði farið með sigur af hólmi.
Og þar með voru kosningarnar ógiltar og herforingjastjórn tók völdin og hefur setið síðan.
Þegar Alsír varð frjálst frá Frökkum voru miklar vonir bundnar við bjartari framtíð. Olía var í landinu og menn sáu í hillingum að nú mætti bæta kjör alþýðu manna, efla menntun, bæta stöðu kvenna o.sfrv. osfrv.
Sumt af þessu hefur gengið eftir en flest ekki. Olían reyndist ekki eins mikil og menn höfðu reiknað menn, spilling í stjórnkerfi og efstu lögum samfélagsins hefur aukist og núverandi forseti Bouteflika hefur ekki haft dug og vilja til að koma á umbótum í landinu sem sárlega er þörf á.
Við bætist einnig deilur við nágrannann Marokkó en Alsíringar hafa löngum stutt Polisariohreyfinguna í Vestur Sahara sem lítur á sig sem sjálfstætt ríki en Marokkar hafa engu að síður ráðið.
Konur í Alsír hafa af miklu kappi aflað sér mennta og hafa algera sérstöðu arabískra kvenna hvað það snertir að þær sækjast ekki í jafn ríkum mæli og kynsystur þeirra í öðrum frændríkjum eftir að gifta sig og eiga börn í einum hvelli. Auk þess hafa þær sótt í og þykir sjálfsagt að búa einar- en slíks eru ekki mörg dæmi annars staðar.
Sem stendur er Alsír gáta.
Enginn getur reiknað út hvað gerist í þessu gríðarstóra landi með sínar 35 milljónir íbúa og sundurleitt mannlíf.
En Alsíringar sýndu það í löngu frelsisstríði við Frakka að í þeim býr atorka og kjarkur sem þeir gætu kannski farið að virkja aftur- þótt vona megi að baráttan verði ekki jafn ´blóðug og hroðaleg og stríðið við Frakkana.
Altjent er Boutflika skelkaður og hefur sýnt það með alls konar yfirlýsingum sem eru mjög í sama anda og gefnar hafa verið í þeim löndum þar sem til tíðinda hefur dregið þessar seinustu vikur.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Kæra Jóhanna
Bestu þakkir fyrir alla þína frábæru “Pistla”
Gaman að heyra í þér í úvarpinu líka.
Kær kvaðja
Jóna og Sigurður
Frábært!
Takk fyrir fræðsluna og þú varst líka góð í Vikulokunum ;-)
Kv. S Guðmars
Hjartans þökk fyrir fróðleiksmolana þína kæra Jóhanna
Yst
Hjartans þökk fyrir fróðleiksmolana þína kæra Jóhanna
Yst
Post a Comment