Friday, February 18, 2011

Mótmæli í Jemen færast í aukana- Libíuleiðtogi í vondum málum- og á gulleynni Bahrein berast menn á banaspjótum


Mótmæli í Jemen færast í aukana

Einhvern veginn virtust mótmælaaðgerðirnar í Jemen ætla að renna út í sandinn eftir fyrstu dagana. Nú hefur mannfjöldi farið út á götur þar svo þúsundum skiptir og hefur komið til alvarlegra átaka milli hópanna.

Því valdamenn eiga alltaf sína dyggu stuðningsmenn og það gildir líka um Ali Abdullah Saleh forseta. Samtímis því að efnt hefur verið til fjöldamótmæla gegn honum þyrpast fylgismenn hans út á göturnar og lýsa yfir stuðningi.

Þessum hópum hefur lent saman, nú síðast í borginni Taiz í miðhluta Jemens svo og í suðurhlutanum í hafnarborginni Aden. Skothríð hefur heyrst en ekki hafa verið færðar sönnur á að hermenn hafi skotið; í Jemen er byssueign- einkum og sér í lagi Kalishnikov riflar- sennilega með því mesta sem gerist á eftir Bandaríkjunum.

Ættbálkahöfðingjar sem eru áhrifamiklir þar hafa opnað riflabúr sín upp á gátt og í stað þess að veifa fánum og mótmælaspjöldum, eða í mesta lagi hinum frægu jambia hnífum sem karlmenn bera við belti sér, sjást nú riflar á lofti. Og færist meiri hiti í þetta gæti auðvitað allt farið á alvarlegasta veg.

Kvennasamtök Jemens sem ég hef áður minnst á að væru stuðningsmenn forsetans virðast nú eitthvað hafa endurskoðað afstöðu sína en meirihluti þeirra hallar sér enn að forsetanum.

En meðalaldur íbúa Jemens er langyngstur allra þessara landa og unga fólkið í Jemen krefst mannsæmandi lífs og mun því vonandi láta að sér kveða.

Eins og fram hefur komið voru mótmælin í fyrstu nánast einvörðungu bundin við höfuðborgina Sanaa en hafa sem sagt breiðst út. Það er sérstaklega athyglisvert og hlýtur að verða forsetanum óvinsæla áhyggjuefni ef Adenbúar rísa upp.

Aden var höfuðborg Suður Jemens meðan landið var skipt. Við sameininguna töldu menn í Aden að þeir hefðu borið skarðan hlut frá borði þegar völdum var skipt og var ástæða þess að borgarastyrjöld braust út í Jemen fyrir 17 árum eða svo.


Bahrein, smáeyja undan ströndum Sádi Arabíu

Í Bahrein hefur verið mikil ólga og þar hefur dregið til tíðinda síðustu viku. Í fyrstu var ekki alveg ljóst hvað kom þeim af stað. Það hefur lengi verið grunnt á því góða milli sjita og sunnita á eynni. Sunnítar eru við völd en sjítar eru fleiri og telja sig ekki hafa fengið þau áhrif á stjórn landsins eins og þeim bæri. Sunnitar eða amk. valdahópurinn sem rakar að sér auði hefur sjitum margs konar niðurlæginu

Í fyrstu mótmælunum í Bahrein nú virtist það ekki vera trúarlegur ágreiningur sem hratt þeim af stað því menn gengu fylktu liði um götur og hrópuðu: ég er ekki sjia, ég er ekki sunni, ég er Bahreini.

Lögregla og her brást við af mikilli hörku og lamdi menn til óbóta og fréttir hafa borist um að einhverjir hafi verið skotnir. Mér er í rauninni fyrirmunað að skilja þá miklu heift sem einkennir viðbrögð lögreglu við mótmælunum í Bahrein vegna þeirra tiltölulega góðu aðstæðna sem fólk býr við.

Stjórnandi Bahreins Hamad bin Issa Al Khalifah hefur verið við völd síðustu ellefu ár en ætt hans hefur stjórnað síðan á 18. öld. Að vísu fékk landið ekki formlega sjálfstæði fyrr en 1971 og hafði áður verið breskt sjálfsstjórnarsvæði.

Þegar núverandi leiðtogi tók við völdum gerði hann ýmsar ráðstafanir sem mæltust vel fyrir hjá þorra manna.
Kona hans Sabika hefur látið að sér kveða og beitt sér fyrir umbótum og verið óspör að hvetja konur til þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi og með góðum árangri.

Læsi er á góðu róli í Bahrein og margir hafa síðar leitað sér framhaldsmenntunar erlendis eða í nágrannaríkjunum.

Blaðamenn hafa getað starfað þar nokkurn veginn án þess að hömlur hafi verið settar á störfum þeirra. Íbúar eru um 807 þúsund og þar af eru á þriðja hundrað þúsund útlendingar.Bahrein hefur verið vinsæll ferðamannastaður og einkum hafa Sádar og Kúveitar lagt þangað leið sína um helgar eða á hátíðum múslima.

Ég var í Bahrein um tíma fyrir allmörgum árum og veitti því t.d. athygli að á fimmtudögum komu Sádar í þúsundatali keyrandi yfir brúna sem er frá Sádi Arabíu, og hreiðruðu um sig á lúxushótelunum og skemmtu sér með gríðarlegum tilþrifum.

Bahrein var það land á Arabíuskaganum þar sem fyrst fannst olía og olía og olíuvörur hafa allar götur síðan verið það sem meirihluti íbúa og útlendinga hefur lífsviðurværi sitt af. Meðaltekjur eru með því hæsta sem gerist á svæðinu en allir vita að misskipting auðs er þar eins og annars staðar.

Eftir að hafa skoðað vandlega fréttir af mótmælunum í Bahrein má sjá að mönnum gremst spilling og yfirgangur valdastéttarinnar sem eru sökuð um alls kyns óhæfu. Á hinn bóginn dreg ég stórlega í efa að þar liggi rætur málsins


Við Gaddafi á þjóðminjasafninu í Tripoli

Þegar uppreisnin í Egyptalandi hófst var Gaddafi Líbíuleiðtogi ekki seinn á sér, frekar en fyrri daginn, að gefa yfirlýsingar. Hann sagði að þessir atburðir gætu aldrei gerst í landi sínu, þar væru allir glaðir og sáttir.

En nokkrum vikum síðar dró til tíðinda í Benghazi næst stærstu borg landsins og þar hefur logað allt í mótmælum síðustu daga, menn hafa særst og einhverjir fallið þó erfitt sé að fá öruggar fréttir sem stendur.

Það var einmitt í Benghazi sem uppreisn Moammars Gaddafis hófst sumarið 1969 þegar þáverandi konungi Idriss var steypt af stóli. Sú bylting fór fram án blóðsúthellinga.

Moammar Gaddafi er fæddur í litlum bæ í suðurhluta Líbíu. Hann var aðeins 27 ára þegar hann stóð fyrir byltingunni 1969. Honum var fagnað mjög þegar hann hrakti Idriss kóng frá völdum en fljótlega kom í ljós að Gaddafi þótti harla furðulegur náungi.

Hann hefur aldrei skipað sig forseta Líbíu og er jafnan kallaður leiðtogi. Hann valdi frá upphafi eingöngu konur í lífvörð sinn og gerði margt til að bæta stöðu kvenna. Hann vingaðist við Assad gamla, þáverandi forseta Sýrlands en ekki stóð sá vinskapur lengi.

Hann lýsti því yfir að hann vildi bæta læsi í landinu og leitt var í lög að þeir foreldrar yrðu sektaðir sem trössuðu að senda börn sín í skóla.

Hann hóf að skrifa barnabækur- sem að sönnu hafa ekki náð útbreiðslu nema í Líbíu og þá einkum og sér í lagi sem gjafir til barna frá honum sjálfum. Eitthvað hefur þó verið gefið út í öðrum Norður Afríkulöndum af þessum bókum hans.
Hann gaf einnig út Grænu bókina þar sem hann útlistaði stefnumál sín og hugsjónir og voru skiptar skoðanir um hana og mörgum þótti hún satt að segja einfeldningsleg og afkáraleg.

Allt var þetta samt gott og blessað. Olía var í landinu og útlitið hreint ekki slæmt í upphafi. En Gaddafi er sérlundaður furðufugl og samskipti hans við aðra forystumenn Arabalanda reyndust æði brösótt og reyndar lenti hann upp á kant við þá flesta fyrr en varði.

Það aflaði Gaddafi trausts og vinsælda á fyrstu valdaárunum að honum virtist alvara í því að bæta hag alþýðu manna. Hann tjáði sig óspart um bága stöðu Palestínumanna og var fljótlega grunaður um að leyfa "hryðjuverkamönnum" Palestínumanna að koma upp þjálfunarbúðum í landinu.

Kostuleg framkoma hans hefur oft verið í fréttum. Þegar Gaddafi hefur farið í heimsóknir utan Líbíu vill hann ekki sjá að gista á fráteknum glæsisvítum heldur hefur með sér stærðarinnar tjald sem hann slær upp í hótelgörðunum og býr um sig þar.

Framan af höfðu Líbíumenn lúmskt gaman af uppátektarsemi Gaddafis en ekki voru liðin mörg ár uns mönnum tók að blöskra vaxandi einræðistilburðir hans, ofsóknarkennd sem smám saman hefur keyrt úr hófi fram. Hann lætur handtaka og fangelsa alla þá sem hann grunar um að vera sér ósammála og vantar flest upp á að viðkomandi fái sanngjarna málsmeðferð. Persónudýrkun er víða stunduð í þessum heimshluta eins og VIMA menn vita og var Gaddafi þar síst undantekning.

Þegar PANAM vélin var skotin niður yfir Lockerbie í Skotlandi beindist grunur mjög fljótlega að Líbíumönnum. Gaddafi þvertók fyrir alla samvinnu um rannsókn þess hörmulega máls og varð til þess að honum var útskúfað á Vesturlöndum, einkum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fréttir um að hann styrkti hryðjuverkamenn hvar sem þeir væru við iðju sína varð síðan til þess að Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti fyrirskipaði loftárás á Líbíu í apríl 1986.

Þá fórst nokkur fjöldi manna, meðal annars kjördóttir Gaddafis og var augljóst að 0honum var mjög brugðið við þann atburð.

Það var þó ekki fyrr en 2003 sem hann ákvað að láta undan og féllst á að framselja þá sem grunaðir voru. Upp úr því tóku Bandaríkjamenn- eða réttara sagt Bandaríkjastjórn- hann í sátt og var nú Gaddafi snarlega strikaður út af hinum alræmda lista Bandaríkjamanna yfir hin svokölluðu öxulveldi hins illa.

En Gaddafi hefur kúgað landa sína og hann hefur ekki verið til viðræðu um umbætur því honum hefur sjálfsagt fundist sjálfum að það væri allt í hinum mesta sóma í landinu.

Hann hefur verið sakaður um spillingu og hann hefur gert eins og fleiri leiðtogar þessa heimshluta talið að sjálfsagt og best að sonur sinn tæki við af sér. Því eru Líbíumenn andsnúnir, bæði í prinsippinu og auk þess hefur þessi sonur Gaddafis á sér hið versta orð.

Því getur varla komið á óvart að þessi mótmæli hafi brotist út og það kemur kannski heldur ekki á óvart hvað Gaddafi virðist ætla að sýna mikla einurð í að brjóta þau á bak aftur- hvort sem það nú tekst eða ekki.


En hvað verður og hvað veldur?

Einhver hefur komist svo að orði að það sé kannski minnsta mál að gera byltingu en öllu meira að finna menn sem geta haldið þannig á málum að að til framfara horfi fyrir þær þjóðir sem rísa upp. Við sjáum átakanlegt dæmi um það í Írak - þótt þeir hafi ekki risið upp heldur réðust Bandaríkjamenn þar til inngöngu. Þar misreiknuðu þeir sig og héldu að þeim yrði tekið fagnandi og síðan mundi allt fyllast af vestrænu lýðræði.

Það hefur ekki reynst þannig og það er spurning hvernig framvindan verður í þeim löndum arabaheimsins þar sem nú ólgar og kraumar.

Hlutur Bandaríkjamanna?
Það er óhjákvæmilegt að velta honum fyrir sér. Egyptaland Múbaraks var ásamt Sádi Arabíu það land sem Bandaríkjamenn studdu hvað dyggilegast. Ali Abdullah Saleh sem lengi var einn af óvinum Bandaríkjamanna kúventi fyrir nokkrum árum og vingaðist við þá. Jórdanía er - hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki- vinur Bandaríkjamanna. Í Bahrein er aðalflotastöð Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum.
Þetta er varla tilviljun.
Og óneitanlega verður Gaddafi að teljast mjög góður kunningi Bandaríkjastjórnar þótt hann sé kannski ekki í innsta vinahringnum.

Það hefur hingað til verið aröbum - og þá er ég ekki að tala um valda og yfirstétt þessara landa heldur óbreyttan almúgann- óskaplegt gremjuefni hvað Bandaríkjastjórn hefur endalaust blandað sér í þau mál án þess að skynsemi og þekking sé höfð með í för. Með stuðningi við Ísrael, með innrás tvívegis í Írak. Með stuðningi við spilltar ríkisstjórn í Egyptalandi og í Líbíu.

Ég ætla að leyfa mér að halda fram að ástæður þessarar miklu ólgu takmarkist ekki aðeins við það að menn mótmæli harðstjórn og kúgun heldur einnig því að þessir ráðamenn sem óánægjan beinist gegn hafa á einn eða annan hátt gengið erinda "alheimslöggunnar" eins og Bandaríkjamenn eru gjarnan kallaðir í þessum heimshluta. Af þeim sökum er ekki skrítið þótt Sádar séu byrjaðir að nötra líka.

3 comments:

Anonymous said...

Takk enn og aftur Jóhanna fyrir góða og fróðlega grein. Bíð spennt eftir seinni hlutanum;-)
Kv. S.Guðmars

Anonymous said...

Ath að seinni hlutinn er kominn inn.
JK

Anonymous said...

Ekki kemur maður að tómum kofunum hjá þér frekar en fyrri daginn.
G. P.