Monday, February 14, 2011

Úr ríki þagnarinnar


Asma og Basjar, forsetahjón Sýrlands

Margir hafa undanfarna daga og vikur undrast að lítið heyrist frá eða um Sýrland þegar fréttaskýrendur tala fjálglega um dóminóáhrif þess sem hefur gerst í Túnis og síðan Egyptalandi.
Sýrland hefur ekki komið við sögu að neinu ráði og fer þó ekki milli mála að þar er einræðisstjórn og eftirlit og ýmis konar höft og bönn sem flokkast ekki beint undir lýðræði.

En ástæðurnar eru ýmsar: Að sönnu hafa ýmsir andstæðingar stjórnarinnar hvatt fólk til að fara út á götur og mótmæla en það hefur ekki borið neinn árangur, að minnsta kosti ekki svo heitið geti.

Talsmaður Mannréttindavaktarinnar í Líbanon segir að þar valdi ótti við stjórnvöld og leynilögreglu sem vissulega lætur öðru hverju til sín tala. En talsmenn mannréttindavaktar með aðsetur í Líbanon skyldu - með fullri virðingu- vera teknir með nokkrum fyrirvara þegar Sýrland er annars vegar.

En það sem ræður kannski úrslitum er að hvað sem öðru líður og þótt stjórnarfarið í Sýrlandi sé ekki litið velvildaraugum er ýmislegt sem kemur til.

Forsetinn Basjar Assad er ungur maður og á óflekkaða fortíð. Hann var látinn taka við þegar faðir hans, hörkunaglinn Hafez al Assad, lést aldamótaárið og hafði varla komið nálægt stjórnmálum fyrr en faðir hans kvaddi hann heim í forsetaþjálfun eftir að elsi sonur gamla Assads, Basil lést í dularfullu bílslysi.
Basjar var þá í sérnámi í augnlækningum í Bretlandi og fátt annað benti til en hann mundi síðan fást við þá grein. En hlýddi kalli föður síns og hélt heimleiðis.

Sumum gramdist að þarna væri eins konar að myndast ríki sem kallaði sig lýðveldi en sonur var kvaddur til að taka við. Þær raddir hafa hljóðnað - en ekki þagnað alveg.

Basjar Assad hafði ótvíræðan vilja til umbóta í landinu þegar hann tók við árið 2000. Hann´aflétti ritskoðun, leyfði einkaskóla og einkabanka og linaði um alls kyns höft sem höfðu verið talin sjálfsögð og bara partur af daglegu lífi. Gömlu kallarnir sem hann erfði eftir föður sinn og höfðu hreiðrað um sig í valdastólum gerðu honum lífið þó erfitt svo að hann varð að hægja á umbótum.

Samt hefur hann haldið þeim áfram, en hægt og rólega. Það er líka skynsamlegt að dmínum dómi því umbætur í Sýrlandi verða að ganga hæfilega hægt. Annars gæti orðið kollsteypa og hún yrði bara til bölvunar.

Önnur ástæða fyrir því hvað Sýrland er "friðsælt" er sambúð kristinna og múslima. Um 10 prósent íbúa eru kristnir og þeir hafa full réttindi og verður ekki vart við að nokkur minnsti ágreiningur sé þar í millum. Kirkja og moska standa hlið við hlið og kristnir og múslimar virða helgidaga hins. ´Þegar ég bjó í Sýrlandi fannst mér eftirtektarvert hvað sambúð kristinna og múslima er áreynslulaus og sjálfsögð.

Basjar giftist ´skömmu eftir að hann tók við forsetaembætti. Kona hans Asma er af sýrlenskum ættum en uppalin í Bretlandi og Belgíu. Hún er tölvunarfræðingur að mennt enda var eins og við manninn mælt: farsímar og internet voru leyfð um leið og Asma hafði komið sér fyrir. Að vísu hafa ýmsar síður verið bannaðar en Sýrlendingar kunna lagið á að fara í kringum það. Og nú nýlega var hinu opinbera banni á Facebook og Twitter aflétt.

Asma er nútímakona, fríð sýnum og viðfelldin. Hún hefur sýnt trúnni virðingu en ber sjaldan klút um hárið. Hún hefur beitt sér í góðgerðarmálum, efnt til málþinga um stöðu kvenna og virðist njóta almennrar virðingar. Ekki er að efa að þau hjón búi vel og notalega en af eyðslu og bruðli fer ekki sögum.

Ungir Sýrlendingar virðast stoltir af forseta sínum. Hann er sá sem margir líta til sem leiðtoga araba í þessum heimshluta og þótt ekki séu allir á einu máli um hann eru menn sammála um að hann hafi komið á óvart í embættinu og hversu skörulega hann gegnir því. Hann er góður ræðumaður og rökfastur.

Það sem Basjar Assad er virtur fyrir er þó fyrst og síðast þetta: Hann er eini leiðtogi arabaríkjanna sem hvikar ekki í andstöðu við Bandaríkjastjórn og er sjálfur sér samkvæmur í andstöðu sinni. Hann dregur heldur ekki dul á fyrirlitningu sína á undirlægjuhætti ýmissa höfðingja í löndunum í kring gagnvart Bandaríkjastjórn.

Í landinu búa á aðra milljón Írakar nú, flestir fátækir flóttamenn, aðrir komu fyrir innrásina og áttu gnægð fjár. Sýrlendingar hafa reynt að taka á málefnum ´þeirra af hæglæti og skynsemi en það segir sig sjálft að það er ekkert smáræði að fá yfir sig þvílíkan fjölda Íraka á fáeinum árum.

Þegar allt er tekið með í reikninginn virðist Basjar Assad hafa þau tromp á hendi sem til þarf. Fólkið er að meirihluta sátt við hann og trúir því að hann vinni í þágu þess. Hann er andstæðingur Bandaríkjastjórnar og Ísraels. Enginn hefur sakað hann um spillingu.
Það er vitað engu að ýmislegt mætti betur fara í þessu landi. En margt er á réttri leið og það sem skiptir öllu: almenningur trúir á vilja forsetans til góðra verka.

Samt er ´vissulegu barnaskapur að búast við því að ekki gæti dregið til tíðinda. En sem stendur eru líkurnar minni en meiri.

9 comments:

Anonymous said...

Sæl Jóhanna

Takk fyrir síðast. Bæði fróðlegt og skemmtilegt námskeið um
Miðausturlönd.
Hef fylgst með skrifum þínum á síðunni þinni undanfarnar vikur og
þakka fyrir fróðlega pistla.
Óska þér til hamingju með daginn.

Kveðja,
Guðrún Axels.=

Anonymous said...

Sæl Jóhanna,
þakka þér kærlega fyrir fróðlegan pistil um Araballöndin. Kærkominn.


Með bestu kveðju / Best regards,

Edda Magnúsdóttir
Sölustjóri Matvælasviðs / Sales Manager Segment Food

Anonymous said...

Takk fyrir fróðlegan pistil. Gagnlegt að hafa svona fróðan nágranna
Bestu kveðjur Heba

Pétur Jósefsson said...

Sæl vertu Jóhanna. Eins og þín var von og vísa skrifar þú af skynsemi og öfgalaust um Sýrland sem ég átti kost á að ferðast um fyrir nokkrum árum - með þinni leiðsögn. Umsögn þín kemur heim og saman við ýmist efni um Sýrland sem ég hef að undanförnu lesið. Með þakklæti og afmæliskveðju,
Pétur J.

Herta said...

til hamingju með afmælið....

Anonymous said...

Sagt er að góðir hlutir gerist hægt. Meðan er ekki afturför, er hæg framför hið besta mál. Forsetahjónin eru bráðmyndarleg og ekki er verra að frúin er tölvunarfræðingur. Menntun og opið upplýsingaflæði mun færa þjóðinni frelsi smátt og smátt. Mér finnst orðið mjög spennandi að lesa pistlana þína Jóhanna. Ég er ennþá strand með "gattið", en held áfram að lesa Arabíukonur....;-))
Kv. S.Guðmars

Anonymous said...

Sæl Jóhanna mín

Það er svo margt og mikið að gerast í Arabalöndum þessa dagana sem er áhugavert að fylgjast með. Sérstaklega þegar maður er búinn að ferðast um á þessum slóðum eins og t.d. í Jemen - þar þyrfti nú aldeilis að taka til hendinni. Það er aðdáunarvert að fylgjast með þessari friðsamlegu uppreisn fólksins í Egyptalandi og vonandi breiðist boðskapurinn út víðar á sömu nótum.

Endilega haltu áfram að skrifa pistla, les þá með mikilli athygli.

Bestu kveðjur
Helga

Anonymous said...

Hafðu kæra þökk fyrir öfgalausan og skynsamlega ályktaðan pistil Jóhanna. Það er gott að eiga þig að þegar kemur að því að átta sig á stöðunni í þessum löndum sem eru svo fjarri.
Mér finnst býsna erfitt að fá innsýn í gegnum fréttirnar sem hafa tilhneigingu til að vera dálítið ýktar.
Bestu kveðjur, Bryndís Sím.

Anonymous said...

Góður og fróðlegur pistill eins og vanalega.
Afstaða almennings í Sýrlandi hlýtur að mótast af því að hann finni sig ekki beinlínis kúgaðan, þó "einræðisherra" stjórni landinu. Í flestum löndunum skara stjórnendur eld að eigin köku og sinna fjölskyldu- og bandamanna, en gera ekkert til að bæta kjör almúgans, en halda honum hinsvegar niðri með harðræði og refsingum.
Í þeim löndum mun upp úr sjóða fyrr eða síðar, en því miður geta afleiðingarnar orðið skelfilegar fyrir fólkið, ef almennilega skipulögð stjórnarandstaða er ekki til staðar til að taka við.
Þá skapast bara grundvöllur fyrir nýja harðstjóra og jafnvel enn meira harðræði, kúgun og fátækt.
Endilega haltu þessum fróðlegu pistlaskrifum áfram.
Kveðja,
Axel.