Wednesday, April 18, 2012

Eþíópíufarar mættir til heimalandsins

Sæl veriði
Við komum í eftirmiðdag, seinni Eþíópuhópur og ég heyri ekki betur en allir séu afskaplega glaðir yfir ferðinni og þyki sem þeir hafi lært margt og séð enn fleira.

Í gær vorum við í hangsi og dúlli í Addis, fengum okkur svo súpu á Khaleb og ávexti og þar þakkaði ég hópnum ánægjulega samveru og rifjaði upp nokkra tölfræði um ferðir VIMA sem þótti hinar merkustu. Sveinn Einarsson fór með ljóð sem hann hafði ort í ferðinni og hefur lofað mér því við fyrsta tækifæri og þá set ég það inn á síðuna.
Einnig talaði Edda Gísladóttir og taldi þetta merkustu ferðina sem þau Þröstur hafa farið með VIMA og af mörgum góðum, Elísabet Ronaldsdóttir sem var mín hjálparhella í ferðinni þegar ég lasnaðist sagði falleg orð og það gerði líka Jóna Einarsdóttir. Svo talaði Sindri Steingrímsson, fulltrúi unga fólksins í ferðinni en það var óvenju margt og var allt til sóma og ánægju. Tel ég þá þrjú barnabörn Guðmundar Péturssonar, Ísleif Illugason og Birtu Björnsdóttur. Þau urðu öll mjög vinsæl í ferðinnienda ljúf og skemmtileg, áhugasöm og forvitin.

Hópurinn var sem sagt hinn ágætasti, fannst sumt erfiðara en annað, einkum til að byrja með og allt var það mér mjög skiljanlegt.
Næst síðasta kvöldið í Addis fórum við á menningarlegt veitingahús þar sem matur var gómsætur og söngvar og dans var sýnt við mikla ánægju. Þar færði Elísabet mér fallega gjöf: styttu af mursikonu þar sem ég missti nánast alveg af suðrinu vegna lasleika að þessu sinni.

Við fórum snemma við flugvallar í Addis í gærkvöldi en ekki dugði það: þröngin var þvílík og afgreiðsla gekk afar seint svo ég hafði með naumindum tíma til að fá mér eina sígarettu og kaffibolla áður en ég varð að þjóta út í flugvél. Held að sálin hafi týnst þarna og mun bíða þolinmóð eftir henni.

Við þurftum hins vegar ekki að bíða nema klst þar til við gátum tjekkað inn á Heathrow sem var prýðilegt þótt Salma vinkona væri ekki í vinnu þennan daginn. Við kvöddum þar með virktum Svein Haraldsson sem ætlaði að vera fáeina daga í London og Sindra Steingrímsson sem átti flug til Stokkhólms kl. 14 í dag.

Nokkrir skutluðu til mín aukabirrum sem koma sér vel þegar ég fer í samskonar ferð fyrir Bændaferðir n.k. haust og þakka fyrir það.

Ég hélt að fréttabréfið biði mín en svo var ekki, vona það sé í þann veginn að skila sér. Minni á að síðasti aðalfundur VIMA verður 28.apríl n.k. Hvet fólk eindregið til að mæta. Engu að síður er eftir nýja Íransáætlunarferðin í september og þarf að athuga þegar sálin skilar sér hvort hún er ekki að verða fullskipuð.

Þakka svo enn og aftur félögunum 29 í Eþíópíu fyrir góða samveru og vona ég hafi kvatt flesta á vellinum og sendi altjent kærar kveðjur til ykkar allra.

No comments: