Monday, March 10, 2008

Við ættum að muna eftir kortunum í fermingargjafir



Sæl öll á þessum bjarta marsdegi og er ekki laust við að daufur vorilmur sé í lofti.
Mér finnst aðkallandi, bráðnauðsynlegt og sjálfsagt að minna ykkur á gjafakort Fatimusjóðs til fermingargjafa.
Stundum er ég smeyk um að við vanmetum krakkana okkar; sannleikurinn er sá að þau eru ekki öll óð í peninga og hvers kyns græjur sem ég kann alls ekki að nefna. Þau vilja láta gott af sér leiða. Ef foreldrar og ættingjar útskýra fyrir þeim hlutverk Fatímusjóðs og hvað þau gera mikið gagn með því að hjálpa til, er ég viss um að þau verða stolt af framlagi því sem felst í gjafakorti.
Er að hugsa um að útbúa smáplagg þar sem eru upplýsingar um sjóðinn og fólk gæti fengið slíkt með.
Endilega hafið þetta hugfast. Notið kortin, það er í reynd ótrúlega mikið sem getur safnast í sjóðinn á þennan hátt.

Nú fer ég til Írans seinni partinn í vikunni, en Gulla pe, gudlaug.petursdottir@or.is
mun þá sjá um það fyrir mig og þið getið hikstalaust snúið ykkur til hennar.

Íranhópurinn er í startholunum og hlakkar til. Ágæt hjón hafa bæst í seinni Jemenferðina svo þar er allt í góðum málum þó ég geti enn bætt þar við tveimur ef vill.

Nú vantar mig aðeins að heyra frá örfáum sem töldust ákveðnir í Líbíuferð og ef þeir láta ekki vita af sér geta aðrir bæst við. Líbía verður spennandi ævintýri.

Þá hef ég hugsað mér að fara í kynnisferð til Úzbekistan og Kyrgistan upp úr miðjum júní til að undirbúa för okkar þangað á svipuðum tíma 2009.

Ég skýt því svo að fyrir ferðafélaga Garps Elísabetarsonar, að hans og Ingunnar fríða og fallega barn var skírt á laugardag. Hún heitir Embla Karen. Fjórar langömmur og einn langafi mættu þar og við gerðum hvað við gátum til að stela senunni frá ömmum og öfum.

En sem sagt: munið gjafakortin. Þið getið farið inn á síðuna og valið það kort sem ykkur hugnast best.
Bless í bili

No comments: