Thursday, June 19, 2008

Nýjar hugmyndir Nouriu


Góðan og blessaðan 19.júní

Þegar seinni hópurinn var í Jemen á dögunum ræddi Nouria við mig nýjar hugmyndir sem hún hefur um að tengja nám eldri krakka(15 ára og eldri) við starfsnám. Meðal annars alls konar nám í iðngreinum sem gætu nýst krökkunum ef þau ætla til dæmis ekki - af aðskiljanlegum ástæðum- að ljúka menntaskóla og fara í háskóla.

Mér finnst þetta öldungis kjörið en allt byggist þetta vissulega á því að við getum fest kaup á stærra húsnæði áður en mjög langt um líður. Byggingarsjóðurinn hefur ekki gildnað neitt að ráði upp á síðkastið en þó munar um framlög sem síðasti Jemenhópur ákvað að færa mér og ratar sú upphæð beinustu leið í byggingarsjóðinn. Langflestir hafa nú greitt þessi framlög og ég þakka virktavel fyrir það.

Hún er einnig með hugmyndir um að efla fullorðinsfræðsluna til að gera konum sem standa sig vel þar, kleift að stofna tvær eða þrjár saman lítil fyrirtæki. Þær fengju aðstöðu í miðstöðinni fyrir þá starfssemi meðan þær væru að koma undir sig fótunum. Það er einnig jákvætt að nú eru ýmis fyrirtæki í Jemen farin að panta smágripi frá YERO sem þær saumanámskeiðskonur framleiða undir handleiðslu kennara.

Þá er frá því að segja að síðast í ágúst verður haldinn veglegur markaður til styrktar byggingarsjóðnum og aðgerðarhópurinn sem var settur á laggirnar sl. haust vinnur af kappi að því að undirbúa hann. Frá þessu verður sagt nánar um eða upp úr mánaðamótum.

Þegar við vorum í Jemen í ferðunum tveimur síðustu keypti ég hvers kyns jemenska gripi, svo sem sjöl, töskur, myndir eftir krakkana, dúka ofl. ofl sem verður selt á þessum markaði og ýmsir þátttakendur í ferðunum hétu að leggja þessu lið og keyptu muni sem fara á þessa sölu.
Sömuleiðis finnst okkur kjörið að selja þarna FATIMUKÖKUNA og þegar nær dregur mun ég hafa samband við Jemenfara fyrr og síðar og óska eftir liðsinni þeirra við bakstur, etv. vinnu á markaðnum og þess háttar.
Allar hugmyndir frá ykkur eru líka afskaplega vel þegnar.

3 comments:

Anonymous said...

Flott hjá henni.Kv.Gulla Pé

Anonymous said...

En ekki hvað,áfram stelpur og strákar. Hvar er að finna uppskrift af Fatimukökunni? Gaman að heyra framhaldið. Jóna E.

Anonymous said...

Sæl,

Ég var bara að spá hvort að það ætti að vera einhver svona markaður eða fjáröflun hér á Akureyri. Ef það eru fleiri hér væri ég til í að vera með að gera eitthvað.

kv. Svala