Sunday, June 29, 2008

Upphitun fyrir hlaup á menningarnótt - upplýsingar um verð



Góðan daginn öll
Nú er ráð að draga fram hlaupaskó og byrja að æfa sig fyrir Glitnishlaupið á menningarnótt.
Við vorum þátttakendur í því í fyrra og all margir hlupu fyrir Fatimusjóð eða hétu á sína hlaupara og við getum fengið drjúga upphæð fyrir það
Hvet menn eindregið til að leggja okkur lið í þessu.

Þá er rétt og ljúft að þakka fyrir góðar undirtektir félaga við hinum merka PERLUMARKAÐI sem verður 31. ágúst. Þar safnar aðgerðarhópur kvenna undir forystu Sigþrúðar Ármann og fleiri ötulla kvenna alls konar góðum fatnaði, munum öðrum til að selja til ágóða fyrir byggingarsjóðinn. Einnig verður FATIMUKAKAN seld þar og margir hafa boðið fram krafta sína við bakstur.
Einnig verða á boðstólum munir frá Jemen sem ég og fleiri höfum sankað að okkur í síðustu tveimur Jemenferðum, svo sem teikningar eftir krakkana okkar, slæður og skjöl, töskur eftir konurnar okkar á fullorðinsfræðslunámskeiðinu ofl ofl.

Auk þess verður matarhorn þar sem seldur verður arabískur matur, hennaskreytingar, tónlist og er þá fátt eitt talið.
Bið alla sem vilja leggja þessu lið að hafa samband.

Vek svo athygli á því að ég hef sett verð- vonandi endanlegt- inn á LÍBÍUFERÐINA, inn á ÍRAN og Jemenferðina á næsta ári. Vonast til að Kákasusverð komi innan tíðar, svo og Óman og Líbanon og Sýrland.

Loks má svo nefna að ég er að stússa í rannsóknarferð til Úzbekistan og Kyrgistan seinna í sumar. Mér sýnist sem það muni ganga og þá er meiningin að skoða þá staði sem ég held að okkur muni falla í geð, athuga gististaði og samgangnamál.
Læt ykkur vita um það þegar það skýrist

Síðan væri ráð að setja sig senn í stellingar og fylgjast með lokaleiknum á EM í fótboltanum.

No comments: