Friday, September 5, 2008

Þá er að tosa sér niður úr Jemenskýjum í bili og fara til Sýrlands



og er sannarlega ekki í kot vísað. Allir Sýrlands/Jórdaníufarar vita að þeir skulu vera komnir á flugvöllinn kl. 5,15 á sunnudagsmorgun og muna að tjekka inn til Amman. Gæta að því vel og vandlega.
Við lendum í Frankfurt um hádegið á sunnudaginn og beint í Royal Jordanian vél til Amman og þar verðum við svo næstu fimm dagana að keyrt er yfir til Sýrlands. Þetta ætti allt að verða hið þægilegasta og ég hlakka mikið til að koma enn á þessar slóðir, Sýrland er alltaf númer eitt.

Hér hjá mér eru enn allmörg jemensk pils sem lánuð voru á markaðinn en ég veit ekki svo gjörla hverjir eru eigendur. Sama máli gildir með diska, nokkrir merktir og þeim reyni ég að koma til skila í dag. Ef það tekst ekki vona ég menn afsaki það og ég geng frá því eftir heimkomuna. Tveir þrír kjólar sömuleiðis. Gefið ykkur vinsamlegast fram varðandi þessa hluti.

Fréttabréfið okkar er í vinnslu undir forystu Dóminik og ritnefndar og kemur líklega út um 20.sept. Haustfundurinn okkar í Kornhlöðunni verður laugardag 27.sept. kl 14 Dagskrá tilkynnt síðar en takið frá 2 tíma eða svo. Margt hnýsilegt efni í fréttabréfinu að venju og Guðrún Halla gerir m.a. markaðnum ítarleg skil í máli og myndum.
Eftir að fréttabréfið kemur út þurfa menn að tilkynna sig í ferðirnar 2009 skv. upplýsingum þar. Má ekki seinna vera. Ekki þó Úzbekistan og Kirgistan. Sú ferð er fullskipuð

Vil benda á að ég hyggst fresta Jemenmyndakvöldi fyrir hópana báða þar til Sýrlands/Jórdaníuferð lýkur. Læt ykkur vita jafnskjótt og hægt er og vonast til að sjá þar sem flesta.

Líbíufarar munu einnig hittast undir mánaðamót sept/okt til að fá sína miða og ferðagögn. Fer duggulítið eftir því hvenær Mímir símenntun getur lánað mér húsnæði í Stýró.

Ég bið ykkur að athuga að ég sendi engar tilkynningar til ykkar um að pistlar hafi birst. Samt vona ég að menn fari inn á síðuna og fylgist með okkur. Og sendi kveðjur. Það þykir okkur öllum dægilegt. Býst við að geta sent fyrsta pistil á mánudagskvöldið

Nú fer ég að strauja og pakka niður.
Sæl að sinni

No comments: