Monday, September 22, 2008

Fatimukökuuppskriftin og Líbanon of.l



Hef fengið margar fyrirspurnir um Fatimukökuna og því set ég enn uppskriftina hér
Miðað er við venjulega bolla býst ég við. Ég hugsa ég hafi notað of stóra bolla því þessi uppskrift var rífleg í eitt form.

Kannski má minnka smjörið í því sem er hrært saman við hunang og kanil í því sem er sett ofan á,

1/3 bolli brætt smjör
3 egg
½ bolli sykur
Vanilludropar
½ bolli hveiti
½ teskeið lyftiduft



Sett ofan á
½ bolli brætt smjör
½ bolli sykur
1/3 bolli hunang
½ tesk. Kanill


Smyrjið kökuform. Hitið ofninn í 200 gráður
Hrærið egg, sykur og vanilludropa vel og vandlega. Bætið í bræddu smjöri og hrærið
Bætið hveiti og lyftiduft saman við og hrærið gætilega. Sett í bökunarform og bakið í 10-12 mínútur.
Á meðan má bræða smjörið við lágan hita og bætið við hunangi, kanel og sykri. Hrærið vel og þegar það er í þann veginn að sjóða takið þá af pönnunni og hellið yfir kökuna. Setjið hana aftur í ofninn umþ.b 15 mínútur.

Líbanon, Kákasus og fleira
Hef fengið allmargar fyrirspurnir um ferð til Líbanons næsta vor, líklega í mars.
Einnig eru Kákasusmenn að spyrjast fyrir um ástand mála þar. Íran virðist í besta lagi og sömuleiðis Jemen.
Hef sent ferðaskrifstofustjórunum fyrirspurn um málið og vonast til að fá svar fljótlega.
Líbanon ferðin yrði í viku. Kákasus í 16-18 daga og Íran eins og venjulega. Hef ekkert fullnaðarverð að svo komnu en ég reikna með að ferðirnar 2009 hækki verulega ef ekki fer að rætast úr gengismálum

Á fundinum á laugardag kl 14 í Kornhlöðunni verð ég kannski komin með verð en menn skulu athuga að það er allt með fyrirvara.
Hvet fólk til að koma þangað og hlusta á Guðríði Guðfinnsdóttur sem bjó mörg ár í Jórdaníu og þekkir þar allt út og inn. Mörður Árnason verður fundarstjóri og það ferst honum alltaf vel úr hendi.

Myndarlegt fréttabréf ætti að koma til ykkar varla síðar en á morgun eða miðvikudag.

Þá hef ég sent Líbíufólki tilkynningar um fund n.k sunnudag til að afhenda miða ofl og menn munu gæða sér á döðlum og kökum sem ég keypti í Sýrlandi. Þangað verða allir að koma. Tveir hafa ekki sent mér ljósrit úr pössum og verður það að gerast í síðasta lagi á miðvikudag til að þeir geti undirbúið vegabréfsáritanir.

Hef heyrt frá nokkrum Sýrlands og Jórdaníuförum og allir virðast mjög ánægðir.
Sálin mín er líklega við Færeyjar og flýgur nú heim af seiglu.

4 comments:

Herta Kristjánsdóttir said...

Líbanon..skrifaðu mig, verð í Köben um helgina..knús Herta

Anonymous said...

Geri það með kæti. Gjörið svo vel og gefið ykkur fram snarlega
KvJK

Anonymous said...

Þetta kveikir í mér. Líbanon í viku - það yrði draumaferð.
Ég fylgist með.
Kv. Hólmfríður Björns.

Anonymous said...

Úzbekistan og Kirghistan eru efstir á lista en ef eitthvað gerist ekki þar, kem ég með til Líbanon.