Saturday, February 6, 2010

Muna- muna- áríðandi orðsending- tilnefning


Safnið til minningar um Khalil Gibran í Líbanon
Sæl veriði

Líbanons/Sýrlandsfarar hafa að mestu lokið greiðslum. Eða látið mig vita að hún komi eftir helgi. Gott mál og bestu þakkir.

Það er stundum vesen að fá peninga yfirfærða á þessum síðustu tímum en eftir athyglisverð átök mín við regluvörð Arionbanka fyrir nokkru hefur það gengið eins og í sögu. Ferðin er af minni hálfu nú fullgreidd.

Ein breyting verður sem þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af: við breytum um hótel í Palmyra og verðum þar á nýju og töluvert fínna hóteli. Það er systurhótel Semiramis
í Damaskus og er nýtt og vonandi ágætt eða vel það.

Í tilefni af því að ég á merkisafmæli þann 14.febrúar, verð 70 ára- sem mér finnst ansi góður brandari- eru börnin min að gera litla bók um afmælisbarnið. Þau hafa pukrast með þetta af mikilli snilld en þurftu að vísu að leita til mín varðandi upplýsingar og myndir og fleira svo ég er byrjuð að átta mig á hvernig bók þetta er:pistlar sem ýmsir samferðarmenn mínir á ýmsum tímum hafa skrifað. Auk þess fékk ég svo að skrifa um Fatímusjóðinn og börnin okkar í Jemen.

Meðal þeirra sem skrifa i bókina auk niðjatalsins er Margrét Pála Ólafsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Pétursson, Edda Ragnarsdóttir,Elín Skeggjadóttir, Hildur Bjarnadóttir, Þóra Kristjánsdóttir, Vilborg Sigurðardóttir, Mörður Árnason, Elísabet Ronaldsdóttir, Sigríður Ásgeirsdóttir, Kristín Thorlacius, Ásdís Halla Bragadóttir, Martin Hamelink,
Stella Jóhannsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Fríða Björnsdóttir, Elín Agla Brim, Anna Bjarnadóttir, Stefanía Khalifeh, Valgerður Kristjónsdóttir, Bragi Kristjónsson og Björn Bjarnason.

Mikill fjöldi mynda er í bókinni sem Vera S. Illugadóttir hefur leiáterað af stakri kúnst.

Þetta gæti orðið athyglisverð bók, vona ég og kannski bara skemmtileg. Þar sem ég vil ALLS EKKI afmælisgjafir eða blóm-fáránlegt þegar fólk á þessum aldri og ég kemst senn á- telur sig þurfa nokkra vasa eða styttur - þá bið ég VIMA félaga sem vilja festa kaup á þessari bók- hún mun kosta 5 þús. kr. - að leggja upphæðina inn á Fatimusjóðsreikninginn 342-13-551212 og kt 140240-3979.

Þar sem þetta hefur þegar spurst dálítið út innan VIMA hafa nokkrir þegar gerst áskrifendur og gleðilegt mál það.

Ég bið ykkur lengstra orða að láta kennitölu ykkar koma fram þegar greitt er svo unnt verði að senda bókina. Tveir hafa þegar greitt án þess að kennitala komi fram svo ég set bankann í það eftir helgi að finna út úr því.

Mér sýnist augljóst að ekki takist að koma bókinni út fyrir afmælið sjálft en mjög fljótlega upp úr því og hér með er því óskað eftir áskrifendum.

Tæknistjórinn tilnefndur til Edduverðlauna
Þá langar mig að segja ykkur að tæknistjórinn okkar, Elísabet Ronaldsdóttir hefur hlotið tilnefningu til Edduverðlauna fyrir klippingu myndarinnar Desember. Elísabet fékk þessi verðlaun í fyrra og festir sig æ rækilegar í sessi sem besti kvikmyndaritstjóri- eða klippari- sem við eigum og getum verið stolt af því.

Fyrirlestrar og ferðaáhugi
Stanslaust fyrirlestrahald hefur verið um arabalönd og önnur Miðausturlöng og verður svo út febrúar. Margir viðra ferðaáhuga við mig, einkum er Jemen og Íran nefnt. Skrifa það niður en aðhefst ekkert fyrr en ákveðnum fjölda er náð eins og margoft hefur komið fram. Eins og ég minntist á reikna ég með að skreppa til Jemen þegar hrinunni lýkur í febrúarlok og skoða þar hús sem ræðismaður okkar í Jemen hefur fundið og eru á viðráðanlegu verði- ég tala nú ekki um ef drjúgur skildingur kemur inn fyrir bókina.

Gott í bili og hlakka til að taka á móti sem flestum bókapöntunum.

2 comments:

Anonymous said...

Sælust. Þakka þér kveðjuna! :) Bræðurnir í Kjötborg vilja endilega selja afmælisritið án þess að taka neitt fyrir sjálfir. Bara styrkja Fatímusjóðinn. kv. ER

Anonymous said...

Heyrðu þetta er glæsilegt ! Verðum í sambandi um þetta þegar bókin er tilbúin en þakka þeim fyrir velvilja. Mættu fleiri taka þá sér til fyrirmyndar.
Svo á ég te ef tilnefndiklipparinn er einhvern tíma laus.
JK