Sæl veriði og gleðilega páska
Við erum komin heim, lúin en ljúf og kát. Kvaddi flesta á Keflavík, bið að heilsa hinum kærlega og þakka fyrir ferðina sem hófst með ósköpum í morgun (gærmorgun réttara sagt) þegar tvær Kristínar og ein lítil Borgarfjarðarstúlka lokuðust inni í lyftunni á Semiramis hótelinu í Damaskus þegar verið var að leggja af stað út á Damaskusflugvöll.
Starfsmenn hótelsins voru ansi hreint ráðalausir lengi vel og þurfti Illuga til að ærast hressilega svo eitthvað gerðist þeim til björgunar. Þær báru sig allar eins og hetjur eftir 40 mínútna veru í þröngri lyftunni. Eftir á þótti okkur þetta skondið að ferðin skyldi enda með tíðindum eins og hún byrjaði.
Annars hefur allt verið í sóma síðustu dagana. Í gærkvöldi(fyrrakvöld sem sagt) fórum við í heimsókn til ræðismannsins í Sýrlandi, þess vinalega og gestrisna manns, Aboud Saraf sem tók á móti hópnum af elskusemi og rausn eins og hans var von og vísa.
Fyrr um morguninn á Þjóðminjasafnið sem er afskaplega skemmtilegt og síðdegis á sögustund, hakavati og lék sögumaðurinn Shadi við hvern sinn fingur og sagði með feiknalegum tilþrifum eldgamla ástarsögu. Á Omyad veitingahúsinu kýldum við okkur út af gómsætum mat, fylgdumst af aðdáun með dervisjdönskum og ég mælti kveðjuorð. Viðar Eggertsson og Bergþór Halldórsson töluðu líka og sögðu falleg og ánægjuleg orð um ferðina og Jórunn Sigurðardóttir ávarpaði Walid gæd sérstaklega og honum þótti afskaplega vænt um það. Hann vann hylli allra í hópnum sem og Abdul bílstjóri. Skínandi menn báðir tveir.
Ferðin í kastala riddaranna tókst eins og best var á kosið, að vísu bilaði rútan á leiðinni en þá vippaði hópurinn sér bara út og gekk og rútan kom síðar viðgerð og fín um það bil sem við höfðum lokið dægilegum hádegisverði hjá hinum litríka vini okkar, Omaran.
Þegar haldið var sem sagt út á völl- að lyftuævintýri lukkulega loknu- var enn ekki ljóst hvort Catherine fengi visa til að vera í viku hjá syni og tengdadóttur en það leystist með bravör með hjálp ræðismanns og þrjósku Walids og mín og hún kemur heim eftir viku eins og alltaf var ætlunin.
Ég held að óhætt sé að segja að allir hafi verið ánægðir með ferðina, lítið létu magakvillar á sér kræla og voru kveðnir niður snarlega þar sem þeir stungu sér niður.
Hópurinn var sérstaklega samrýmdur eins og ég hef sagt fyrr, kannski hristist hann fyrr saman vegna þess mótbyrs sem var í upphafi ferðar.
Og hvernig er nú með kaup á afmælisbókinni??
Enn hef ég ekki getað kannað hvernig afmælisbókinni hefur reitt af meðan ég var í burtu en veit þó að Edda Ragnarsdóttir hefur staðið sig eins og hetja í að koma út pöntuðum bókum.
Samt bið ég ykkur að koma til liðs og drífa í því svo Fatimusjóðurinn gildni verulega.
Ýmsir sem ég bjóst við að mundu snarlega kaupa hana hafa annað hvort ekki látið í sér heyra eða ekki gert upp. Hvet ykkur eindregið til að hjálpa mér til að við getum látið það verða að veruleika að ganga frá húsakaupunum fyrir krakkana í Sanaa.
Einn er hver einn og eins hafa margir tekið aukaeintak/tök til gjafa. Þakka allt slíkt
Nú fer ég að sofa og bíð eftir sálinni eftir forkunnargóða ferð með einstaklega góðum hópi. Við efnum svo til myndakvölds með þátttöku sem allra flestra og held að menn hlakki til að skiptast á myndum og rifja upp ferðina.
Saturday, April 3, 2010
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Sæl vertu,
og bestu þakkir fyrir samveruna, sem sem mér þótti afar góð.
Kærar kveðjur
Ásrún
Post a Comment