Sælt veri fólkið
Er nýkomin eftir tólf daga ferð um Eþíópíu sem var ævintýraleg í hvívetna og þykir sýnt að þangað eigum við að leggja leið okkar á næsta ári ef guð lofar.
Dagarnir voru vel notaðir, fór fyrst um norðurhluta landsins þar sem sögulegar minjar eru í búntum, kirkjur hoggnar inn í fjöllin, merkilegir óbeliskar, að fossum Bláu Nílar svo fátt eitt sé nefnt. Allmargir staðir á þessu svæði eru á heimsminjaskrá og verður afskaplega skiljanlegt þegar á staðina er komið.
Seinni hluta ferðarinnar skoðaði ég suðurhlutann með sínu litríka ættbálkalífi og verður sjálfsagt eftirminnilegust heimsóknin til mursiættbálksins sem hefur sérstæða útlits og skreytingarsiði og má deila um hvort þeir falla að fegurðarsmekk okkar.
Einstakt viðmót fólksins hvert sem farið var, landlagið svo stórkostlega fallegt að stundum stóð ég bara á öndinni og orð virtust fánýt til að tjá hugsun um allt það sem fyrir augu bar og eiginlega erfitt að átta sig á hvar á að byrja.
Um fimmtíu manns hafa skráð sig áhugasama í ferð á næsta ári og innan tíðar mun Jósef sá ágæti ferðastkrifstofunáungi senda mér fullbúna áætlun sem við reiknum með að fari í 16 dagar. Eþíópía er líka þannig land að það má ekki æða um of út og suður, áhrifin eru sterk og þau þarf að melta og framandi í meira lagi.
Þegar ég hef fengið þessa áætlun, þar sem m.a kemur fram verð og þessháttar hef ég samband við þessa áhugasömu og er trúlegt að þeir verði þá að vera nokkuð snarir í snúningum að ákveða sig. Einnig mætti svo sem hugsa sér tvær ferðir, rétt eins og við gerðum í Líbíu um árið.
Við Jósef ræddum um síðla febrúar og fram í mars en allt er það óákveðið enn og margt þarf að taka með í reikninginn.
Á hinn bóginn þurfa menn einnig að hafa hugfast að Eþíópía hefur ekki þróaða ferðaþjónustu og aðbúnaður er sums staðar ekki stórbrotinn enda varla stefnt á að fara til þessa lands til að lifa í lúxus og við vestræna háttu.
Það má gera ráð fyrir að til þess að skoða norðurhlutann verði flogið milli staða með því ágæta flugfélagi Ethiopian airlines en um suðrið verður aðallega farið á jeppum.
Á aðalfundinum um daginn skráðu sig allmargir og áður hafði hópur lýst áhuga svo ég bið um snör viðbrögð um leið og ég hef dagsetningar, verð og áætlanir á hreinu.
Eitt er bara alveg víst: maður kemur heim frá Eþíópíu ríkur af reynslu og hrifningu yfir því sem þar er hægt að upplifa. Þarna er Afríka eins og hún gerist sönnust. Svo mikið er víst.
Íran í norðri og vestri
Ég sagði frá því á aðalfundinum að margir hefðu hug á að skoða Íran ítarlegar og nú hef ég fengið nýja áætlun um norður og vesturhlutann. Um fimmtán manns hafa lýst áhuga en við verðum að vera a.mk. 25 til að verði úr því. Nú bauka ég næstu daga við þetta hvorttveggja og bið ykkur endilega að fylgjast með enda mun ég einnig hafa samband við þá sem hafa látið í ljós áhuga.
Íran er gríðarstórt og fjölbreytt og mér sýnist á þessari áætlun- þar sem ferðin hefst í Tabriz í norðri, farið til Hamadan, Zanzan, Kermanshah og víðar og endað í Isfahan að við gætum fengið æði glögga mynd af þessu landi sem hefur sannast að segja heillað íslenska ferðamenn okkar upp úr skónum.
Friday, May 20, 2011
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Bíð spennt eftir frekari upplýsingum um Eþíópíu. Ferðiin þín hljómar afskaplega spennandi.
Sigga Ásgeirs
Gætirðu ekki skipulagt leiðinlega ferð til lands sem er ekki áhugavert svo að ég fái smáhvíld?
Guðm. P.
do it!
Post a Comment