Tuesday, May 24, 2011

Eþíuáætlun er að verða tilbúin



Húsakynni í suðrinu


Lucy er 3,5 milljón ára gömul. Eftirlíking af henni er á þjóðminjasafninu í Addis Abeba.



Kona af mursiættbálknum en skreytingar þeirra eru mjög sérstakar.
Ljósmyndir JK

Sæl öll

Eþíópíuáætlun er að verða tilbúin og eina sem ég bíð nú eftir er verð á flugfargjöldum frá London til Addis Abeba.

Áætlað er að ferðin standi í 16 eða 17 daga og verður trúlega undir lok febrúar.
Verði þátttaka þannig að ástæða sé til að efna í aðra ferð mundi hún að líkindum vera um páskana þ.e. í lok mars og fram í apr.

Í ferðinni ferður fyrst farið um norðurhlutann, flogið til Barhidar og skoðaðir hinir mikilfenglegu fossar Bláu Nílar, í siglingu út á Tanavatn og farið í sérstæða og gamla klausturbyggingu þar á eynni.

Flogið til Lalibela þar sem sex kirkjur frá 12. öld eru hoggnir inn í fjöllin, hreint ógleymanleg sjón.

Til Axum þar sem stórfenglegir óbeliskar eru og leifar má sjá af kirkju heilagrar Maríu og er þá aðeins fátt talið

Flogið til Addis og þá mætti nota tíma á Þjóðminjasafninu og skoða stærsta útimarkað Afríku, í dómkirkju heilagrar Maríu ofl.

Að svo búnu er haldið til suðurs þar sem landslagsfegurð og ættbálkadyrð ræður ríkjum og vonandi komust við til að fylgjast með mörkuðum innfæddra ofl ofl. Heimsótt lítil og litrík þorp heimamanna.

Í þessari ferð er gist á mjög þokkalegum hótelum, sumum betri en öðrum en eins og ég hef tekið fram skulu menn hafa það bak við bæði eyru að Eþíópía hefur ekki þróaða ferðaþjónustu en því hlýlegra er viðmót fólksins og á sér vart sinn líka.

Þar sem hótelpláss er sums staðar í litlu bæjunum takmarkað verður ekki unnt að taka fleiri en 25-27 í ferð. Nauðsynlegt að vita hverjir óska eftir eins manns herbergjum því sums staðar eru þau tiltölulega fá.

Ég get af eðlilegum ástæðum ekki sagt með vissu til um verð að svo komnu máli en býst við að það verði 450 þúsund kr. á mann.
Staðfestingjargjald er 50 þúsund kr.

Nauðsynlegt að vita sem fyrst hvort menn vilja fara í fyrri eða seinni ferð. Hugsanlegt þó að ekki sé alltaf hægt að verða við því.


Áætlað er að í verði verði eftirtalið innifalið
Flug til London-Addis Abeba-London-Keflavík.
Allt flug innanlands í Eþíópíu.
Allir skattar
Sigling á Tanavatni
Hálft fæði, þ.e. morgunverður og kvöldverður
Tveir nestishádegisverðir, (við fossa Bláu Nílar og í Wadiþjóðgarðinum í suðri)
Aðgangur að öllum stöðum sem heimsóttir eru
Öll keyrsla(rúta fyrir norðan en jeppar í suðri)
Tvær vatnsflöskur á dag
Danssýningar og kaffisiðasýningar
Þjórfé til burðarmanna á hótelum

Ekki innifalið
Vegabréfsáritun (líklega um 30 dollarar)
Þjórfé til aðalleiðsögumanns og bílstjóra
Myndatökugjald(margir þjóðflokkanna vilja fá smágreiðslu fyrir myndatöku og verður ekki undan því vikist ef menn taka myndir á annað borð)
Drykkir, áfengir eða óáfengir

TRYGGINGAR skulu menn bera fullkomna ábyrgð á sjálfir.

Menn athugi að vegabréf skulu skv. alþjóðareglum vera gild í sex mánuði eftir að ferð lýkur.

Þar sem margir hafa lýst áhuga á þessari ferð ákvað ég að setja þetta inn svo menn gætu íhugað málið en nákvæm áætlun verður sett inn á allra næstu dögum.

Einnig verður efnt til fundar með áhugasömum í júní n.k. ef mögulegt reynist.

Bið þá sem hafa tilkynnt um áhugasama kunningja/vini að láta þá vita af þessu og koma boðum til þeirra sem eru ekki með netfang.