Sunday, August 28, 2011

Ítrekun varðandi heimilisföng- og sitt lítið af hverju´- endilega finnið hópmyndir sem vantar



Í þá gömlu góðu daga þegar Maher var frjáls og við gátum hópast til Sýrlands
Mynd Ásdís Ólafsdóttir

Nú vinnur ritnefndin að haustfréttabréfinu og mig langar að ítreka við ykkur að senda mér rétt heimilisföng. Einnig ef þið hafið fengið ný netföng.
Fréttabréfið verður bústið og girnilegt að venju, þar verður m.a. grein um sögu Afganistan, tölfræði ferðanna, smágrein um Eþíópíu, hugleiðing um Uzbekistanferð á vordögum og margt fleira.
Haustfundurinn er settur á 1.október og vinsamlegast takið daginn frá. Góður fyrirvari

Á linknum Þátttakendur í ferðum hef ég sett allar þær hópmyndir sem ég hef átt eða fengið lánaðar. Allmargar vantar og byggju einhverjir svo vel að eiga þær þætti mér afar vænt um að fá þær lánaðar í nokkra daga. Skoðið endilega hlekkinn. Þar má sjá hvaða myndir vantar. Vantar til dæmis mynd úr fyrri Ómanferð en hún var tekin og var fín en mér er ómögulegt að finna hana. Einnig vantar Sýrlands og Jemenmyndir. Kíkið endilega á þetta.

Ég hef fengið allmargar fyrirspurnir um þriðju Eþíópíuferð. Hún verður EKKI. Eins og ég hef sagt vonast ég til að ná þátttöku í Íranferð- ný dagskrá en auðvitað farið til Isfahan, en það verður síðasta ferðin.
Það er gerlegt að mjaka 2 í seinni Eþíópíuferð og nokkrir eru á biðlista í fyrri ferð.

Einnig hef ég fengið fyrirspurnir um Ómanferð en ætla ekki að plana neitt slíkt. Þær ferðir hafa verið nokkuð dýrar og ég tek Íran framyfir enda gekk nokkuð brösuglega að fylla þessar tvær Ómanferðir sem voru farnar.

Það er hætt við að bið verði á því að efnt verði í hópferðir á margar þær slóðir Arabaheimsins sem við höfum ferðast um eins og að drekka vatn. Það er hörumung til þess að vita hvað þar gerist þessar vikurnar og það er mikil einföldun og barnaskapur að ímynda sér að allt falli í ljúfa löð og málin leysist um leið og einræðismönnum hefur verið ýtt úr sessi. Margir virðast ætla að svo sé. En málið er miklu flóknara eftir átök síðustu mánaða.

Við getum vissulega kæst yfir því að hafa sótt þessa merku staði heim meðan allt var öruggt og þar sem ég komst nú ekki til Jemen fyrir Uzbekistanferðina vona ég enn að það takist eftir Íranferð í október. Oft hefur verið þörf að styðja krakkana í Jemen en nú beinlínis nauðsyn. Á meðan málin eru jafn óskýr og raun ber vitni um nú hef ég þó ekki haft samband við stuðningsmenn. Kunningjar mínir í Sanaa segja að enn sé ekki ljóst hvort skólar taki til starfa þar með eðlilegum hætti í haust og börnin luku ekki vorprófum.

En vinsamlegast munið að senda mér rétt heimilisföng. Það kostar sitt að pósta þau og magur félagssjóður VIMA hefur ekki efni á að borga undir fréttabréf sem síðan komast ekki til skila.

Thursday, August 25, 2011

Hvað hefur komið yfir Basjar Assad? Fullfljótt virðist að fagna falli Gaddafis



Svo virðist sem ekki gangi enn að hafa hemil á grimmd og miskunnarleysi sýrlenska hersins hvað sem líður fögrum orðum sem Basjar Assad forseti lætur frá sér fara.

Ýmsir ráðamenn svo sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Ban Kie Munh ræddi við hann á dögunum og Assad lofaði öllu fögru og sagði að nú sæist sem betur fer fyrir endann á þessum ósköpum. Hann hét einnig að þeim sem hefði verið hnepptir í varðhald vegna mótmæla yrði sleppt án frekari málalengina og að skriðdrekar sínir og hermenn yrðu dregnir tafarlaust til baka.

Þetta var í lok síðustu viku. Það hefur ekkert gott gerst síðan. Basjar Assad heldur uppteknum hætti og líf er murrkað út mótmælendum og jafnvel fara hermenn húsi úr húsi og handtaka menn.

Í aðalhafnarborg Sýrlands, Latakia var jafnvel skotið af sjó á borgina og mörg hundruð "óeirðaseggjum" var safnað saman á íþróttavelli undir eftirliti hermanna og hefur raunar ekki verið fylgt eftir í fréttum hverjar lyktir urðu á því máli.

Flóttamannabúðir Palestínumanna eru við Latakia eins og víðar í Sýrlandi og um tíma virtist hernum sérlega uppsigað við þá svo flóttamennirnir urðu að taka til fótanna og flýja- þótt mér sé raunar ekki ljóst hvert þeir hafa getað flúið eins og ástandið er þarna allt um kring.

Her hefur enn á ný lamið á mótmælendum í borginni Deir es Sour skammt frá landamærunum við Írak, og í Homs og Hama eru stöðugar óeirðir með tilheyrandi manndrápum.

Enginn veit hversu margir hafa verið drepnir, talað um 2.200 manns en mér finnst líklegt að sú tala sé miklu hærri, þúsundir hafa verið handteknar og mörg þúsund manns eru á flótta vítt og breitt um landið en hundeltir af hersveitum Assads.

Evrópusambandið hefur sett harðari refsiaðgerðir á Sýrland m.a. varðandi olíu- sem er raunar ekki flóandi í þessu landi- en allt kemur fyrir ekki. Forystumenn Evrópuríkja hafa reynt að tala við Assad. Hann er mjúkmáll og vinalegur og að símtalinu loknu fara skriðdrekar hans og drápstæki enn af stað og ráðast gegn mótmælendum.

Það er óhugnanlegra að fylgjast með framvindu mála í Sýrlandi en annars staðar á svæðinu. Vegna þess að ekkert að þessu þurfti að gerast. Þegar menn byrjuðu að safnast saman voru engin raunveruleg mótmæli gegn Assad í gangi. Menn vildu eiginlega bara taka þátt í að láta forsetann vita að gott væri nú að hann hraðaði þeim umbótum sem hann hefur sannanlega unnið að þennan áratug sem hann hefur setið að völdum.
Menn veifuðu myndum af honum og sýrlenska fánanum og lýstu yfir stuðningi við forsetann en vildi hann sem sagt gjöra svo vel. Þetta fór allt fram með friði.

En Basjar Assad og menn hans virðast hafa fyllst ofsóknaræði og skelfingu; í stað þess að bregðast við af yfirvegum og skynsemi. Þar með fór sem fór.

Basjar Assad á sér ekki viðreisnar von úr þessu. En það er afar vandséð hvernig þetta muni enda. Hann á sér ekki lengur bandamenn innan Arabaheimsins. Og hann heldur áfram að drepa landa sína og ofsækja. Og virðist ekki depla auga.

Hvað hefur eiginlega komið yfir Basjar Assad? Þennan hófsemdarmann og stillingarljós sem virtist vilja nútímavæða Sýrland og í sátt við sitt fólk



Fjölmiðlar voru skjótir til að lýsa yfir uppgjöf Gaddafis. Þegar þetta er skrifað er enn barist í Líbíu og m.a. í höfuðborginni Tripoli. Gaddafi finnst ekki, sonurinn Saif al Islam sem sagður var í haldi uppreisnarmanna kom fram á dögunum, og lýsti yfir að þetta væri allt í góðu lagi og faðir hans hefði völdin.

Stjórnir ýmissa landa viðurkenna uppreisnarmenn sem lögmæta stjórnendur og það finnst mér afar sérkennilegt því í reynd er ekki vitað nema að takmörkuðu leyti hverjir þeir eru. Leiðtogar þeirra eru þegar farnir að stríða um völdin innbyrðis og það verður bara vatn á myllu Gaddafis og þeirra sem enn styðja hann.

Og séu menn svo einfaldir að trúa því að það eitt að koma Gaddafi frá leysi mál Líbíu eru þeir á villigötum. Það tekur eitthvað við ef og þegar hann fer í alvörunni. Og við höfum ekki grænan grun um hvað það verður.

Bandaríkjamenn voru ásakaðir fyrir að hafa ekkert plan B til reiðu eftir að í ljós kom að Írakar voru ekkert sérlega lukkulegir með innrásina 2003. Síðan hefur allt logað í illdeilum í Írak og Bandaríkjamenn segjast nú vera á förum þaðan. Skilja eftir sundraða þjóð og eyðilagða. Menn eru drepnir í Írak á degi hverjum. Það er ekki lengur fréttnæmt og framtíðin í því landi algerlega óráðin gáta. En þeir náðu þó Saddam! Maður veit ekki hvort á að hlæja eða gráta.

Það er því ekki nóg að NATO varpi sprengjum á einhverja sem þeir telja vera liðsmenn Gaddafis í Líbíu og uppreisnarmenn nái golfvellinum sem Gaddafi hefur spilað golf á. Það gætu hafist hefndaraðgerðir og valdabarátta af hörkulegra taginu því enginn virðist í reynd vita hvað á að gera þegar Gaddafi hrökklast frá.

Hvorki Líbíumenn né Sýrlendingar hugsa út í hvað verði síðan. Og þar með getur blóðbaðið haldið áfram og ekki þokkalegra ástand komið upp en nú er í þessum tveimur löndum. Því er nú verr og miður.

Saturday, August 20, 2011

Mæli með eþíópískum veitingastað á Flúðum



Við gerðum okkur ferð í gær, föstudag, slúðurfélagskonurnar fjórar Edda Ragnarsdóttir, Guðlaug Pétursdóttir, Þóra Jónasdóttir og ég að Flúðum í gær. Erindið var að skoða nýjan eþópískan veitingastað sem hefur nýlega tekið til starfa. Stjórnandi þar er eþíópísk kona og íslenskur eiginmaður hennar.

Eftir þessa heimsókn og eftir að hafa bragðað á réttunum þykir mér sjálfsagt að hvetja ykkur til að koma þar við. Maturinn er ekta eþíópískur og ekki dýr. Við fengum okkur fjóra rétti og skiptumst á að smakka hjá hver annarri.

Stúlkan sem kom þessu á fót sagðist hafa búið hér í þrjú ár. Hún talar prýðisgóða íslensku og var elskuleg og gladdist að heyra að íslenskir hópar hygðust heimsækja landið hennar á næsta ári.




Fylgst með dæmigerðum kaffiuppáhellingi á veitingastaðnum Minilik á Flúðum.

Wednesday, August 17, 2011

Dagsetningar á seinni Eþíópíu breytast ekki - líklega blásin af Íran 2



Góðan daginn öll.

Ætlaði bara að árétta að seinni Eþíópíuferðin verður 31.mars til 17.apr. 2012 eins og áformað var. Hafði hugsað mér að færa hana um nokkra daga en svo verður sem sagt ekki.
Athugið það.
Enn er hægt að fá pláss í þeirri ferð, sú fyrri er uppseld og fólk hefur sýnist mér greitt skilvíslega sitt staðfestingargjald. Takk fyrir það.

Hafði á prjónunum Íranferð í sept 2012 um norður og vesturhluta Írans vegna þess að margir virtust áhugasamir. Áætlun er tilbúin en nú vantar hins vegar þátttakendur, við þurfum að vera 20 til að verð haldist sem vit er í.
Það er langt í ferðina en mér heyrist samt vera hik á mörgum svo ég býst við að hún verði blásin af. Best að bíða samt aðeins. Málið er að geti ég ekki tilkynnt ferðaskrifstofunni um þetta fyrr en síðar gerist bara eitt: ferðin hækkar enn.

Nokkrir hafa staðfest að þeir komist ekki og aðrir eru hikandi. Bíð þó fram í ágústlok með að hætta við ferðina því þetta landsvæði sem farið er um í nýju áætluninni er öldungis heillandi. Þið látið frá ykkur heyra en sem stendur sýnist mér aðeins 6-8 ákveðnir.
Uzbekistanseptemberfarar búast senn til brottferðar og allt gott um það að segja.

Þá fer ég í Íranferð(okkar áætlun) í október fyrir Bændaferðir og er komin 25 manna þátttaka í hana. Mér skilst að í hana megi þó bæta við.

Ekki blæs byrlega í Jemen

Sennilega verður ekki af því að ég skutlist til Jemen eins og mig hafði langað til að gera í þessum mánuði. Hef reynt að hafa samband við kunningja þar en ástandið er mjög viðkvæmt og hefur ekki skánað eftir að forsetinn Ali Abdullah Saleh, sem hefur verið í læknismeðferð í Sádi Arabíu í tæpa 2 mánuði - segist nú ætla að snúa heim.

Þá brutust út óeirðir einn ganginn enn. Kunningjar mínir segja mér að eins og málin standa núna sé ekki búist við að skólahald verði með eðlilegum hætti og er það m.a. ástæðan fyrir því að við verðum að bíða um sinn með það að taka upp stuðning við krakkana þar.

Sýrland í loga
Þarf ekki að fara mörgum orðum um ástandið í Sýrlandi en þar virðast hörmungar engar endi taka og Basjar Assad forseti hefur klúðrað öllu svo gersamlega að þungbærara er en tárum taki.

Námskeið hjá Mími símennt í nóvember

Vil taka fram að Mímir símennt hefur beðið mig halda námskeið í nóvember um ástandið í Miðausturlöndum. Það verður 2ja kvölda námskeið. Þar verður lögð megináhersla á þá atburði sem hafa átt sér stað síðustu mánuði og reynt að ígrunda og greina það.
Einnig verður talað um stöðu kvenna, trúna og sögu 20.aldar í þessum heimshluta.
Hvet ykkur til að fylgjast með því þegar Mímir sendir frá sér bæklinginn sinn.

Sunday, August 7, 2011

Líflegir Eþíópíufundir í gær



Glaðlegir heimamenn
Mynd JK

Fundir í gær með Eþíópíuhópum voru líflegir og þó svo allmargir kæmust ekki af ýmsum og kannski nokkuð augljósum ástæðum var þetta verulega hressilegt. Við fengum okkur kaffi og te og mauluðum sætindi með, fórum yfir ferðaáætlun og allir fengu líka greiðsluplan til að þeir vissu hvenær á að borga. Bið alla að gera það skilvíslega og skv. þessum blöðum.
Þeim sem ekki komust en höfðu skrifað sig hef ég sent á imeili áætlun svo það ætti allt að vera í góðu standi.

Ekki má gleyma því að Gulla pé var mér til aðstoðar og hún lét disk sem ég fékk í Eþíópíu rúlla og menn höfðu augljóslega gaman að því að fylgjast með honum og fá nokkra hugmynd um þetta magnaða land sem Eþíópía er.

Vil taka fram að það eru pláss laus í seinni ferð og bið menn ákveða sig eins fljótt og verða má.

Uzbekistanfarar hittust í vikunni og fengu sína miða og allt á réttu róli þar og hópurinn virðist fínn og fullur tilhlökkunar.

Ég vil líka benda á að ég ætla ekki að hafa þriðju Eþíópíuferð. Smáhreyfing hefur verið á Íran ferð- ný áætlun- en fleiri þurfa að bætast við svo af verði. Sú ferð mundi að líkindum vera í september 2012 og að því búnu ætla ég að taka upp fyrri háttu og ferðast ein og taka ekki fleiri VIMA hópa. Þetta verður þá orðið harla gott.

Sigríður Ásgeirs lánaði mér Egyptalandsmyndina og læt skanna hana inn eftir helgi og bæta á þátttakendasíðuna. Ef einhverjir eiga hópmyndir úr ferðum Sýrland/Jórdanía vantar nokkrar slíkar. Þætti vænt um að fá þær lánaðar ef einhverjir luma á slíkum.

Þá veit ég að ritnefnd vinnur nú að undirbúningi fréttabréfs sem kemur út um miðjan sept og verður þar gott og fýsilegt efni. Bið menn endilega að láta vita um breytt heimilisföng og sömuleiðis er nauðsynlegt að fá rétt netföng

Haustfundur verður trúlega 1.okt. og þar höfum við fengið snjallan ræðumann.

Thursday, August 4, 2011

Við erum öll ein fjölskylda

Sælt verið fólkið
Mér finnst ástæða til að VIMA félagar lesi þetta og leggi málinu lið á einn eða annan hátt. Þetta er í grannlandi Eþíópíu sem tveir hópar munu heimsækja á næsta ári ef allt fer að líkum.

Hrafn Jökulsson, sonur minn sem áður stýrði Hróknum af skörungsskap hefur beðið mig að leita til ykkar. Þið gætuð kíkt við í ráðhúsinu og lagt eitthvað af mörkum, tekið skák eða sýnt samstöðu á einn eða annan hátt.

Við erum ein fjölskylda: Fjöldi þjóðkunnra Íslendinga tekur áskorun skákbarna sem safna fyrir börnin í Sómalíu
Margir þjóðkunnir Íslendingar ætla að taka áskorun skákbarnanna, sem um helgina munu tefla maraþon við gesti og gangandi í Ráðhúsinu og safna þannig sem notað verður til að bjarga sveltandi börnum í Sómalíu.

Kristjón K. Guðjónsson, sem hefur umsjón með gestalistanum í Ráðhúsinu, segir undirtektir frábærar. ,,Það vilja allir leggja sitt af mörkum, alveg burtséð frá skákkunnáttu. Yfirskrift söfnunarinnar er eitthvað sem allir Íslendingar geta skrifað undir: Við erum ein fjölskylda.“

Meðal þeirra sem ætla að spreyta sig á móti krökkunum í Ráðhúsinu um helgina eru Jón Gnarr borgarstjóri, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Ísgerður Gunnarsdóttir leikkona, Bogi Ágústsson fréttamaður, Illugi Jökulsson blaðamaður, Þorgrímur Þráinsson rithöfundur, Bjarni Guðjónsson fyrirliði KR, Egill Ólafsson leikari og söngvari, Þorsteinn Guðmundsson leikari, Adolf Ingi Erlendsson fréttamaður, Gunnleifur Gunnleifsson markvörður, Ingibjörg Reynisdóttir leikkona, Hjörtur Hjartarson fréttamaður og liðsmaður ÍA, Andri Steinn útvarpsmaður, Geir Ólafsson söngvari, Snorri Ásmundsson listamaður, Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóri og Siggi stormur.

Mótherjar krakkanna borga upphæð að eigin vali, sem rennur beint í söfnun Rauða kross Íslands vegna hinnar hræðilegu hungursneyðar í Sómalíu.

Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum notað verður allt framlag söfnunarinnar notað til að kaupa vítamínbætt hnetusmjör, sem er notað til að hjúkra alvarlega vannærðum börnum til heilbrigðis í Sómalíu.
Taflmaraþonið í Ráðhúsinu hefst klukkan 10 laugardaginn 6. ágúst og stendur til klukkan 18. Það heldur áfram á sunnudag, á sama tíma, og er það einlæg von íslensku skákkrakkanna að sem allra flestir leggi leið sína á maraþonið.
Skákakademía Reykjavíkur og Skáksamband standa að maraþoninu, en kjörorð Skákhreyfingarinnar er „Við erum ein fjölskylda“ og með maraþoninu í Ráðhúsinu vilja ungir liðsmenn skákgyðjunnar á Íslandi sýna börnum í Sómalíu stuðning í verki.