Thursday, August 25, 2011

Hvað hefur komið yfir Basjar Assad? Fullfljótt virðist að fagna falli Gaddafis



Svo virðist sem ekki gangi enn að hafa hemil á grimmd og miskunnarleysi sýrlenska hersins hvað sem líður fögrum orðum sem Basjar Assad forseti lætur frá sér fara.

Ýmsir ráðamenn svo sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Ban Kie Munh ræddi við hann á dögunum og Assad lofaði öllu fögru og sagði að nú sæist sem betur fer fyrir endann á þessum ósköpum. Hann hét einnig að þeim sem hefði verið hnepptir í varðhald vegna mótmæla yrði sleppt án frekari málalengina og að skriðdrekar sínir og hermenn yrðu dregnir tafarlaust til baka.

Þetta var í lok síðustu viku. Það hefur ekkert gott gerst síðan. Basjar Assad heldur uppteknum hætti og líf er murrkað út mótmælendum og jafnvel fara hermenn húsi úr húsi og handtaka menn.

Í aðalhafnarborg Sýrlands, Latakia var jafnvel skotið af sjó á borgina og mörg hundruð "óeirðaseggjum" var safnað saman á íþróttavelli undir eftirliti hermanna og hefur raunar ekki verið fylgt eftir í fréttum hverjar lyktir urðu á því máli.

Flóttamannabúðir Palestínumanna eru við Latakia eins og víðar í Sýrlandi og um tíma virtist hernum sérlega uppsigað við þá svo flóttamennirnir urðu að taka til fótanna og flýja- þótt mér sé raunar ekki ljóst hvert þeir hafa getað flúið eins og ástandið er þarna allt um kring.

Her hefur enn á ný lamið á mótmælendum í borginni Deir es Sour skammt frá landamærunum við Írak, og í Homs og Hama eru stöðugar óeirðir með tilheyrandi manndrápum.

Enginn veit hversu margir hafa verið drepnir, talað um 2.200 manns en mér finnst líklegt að sú tala sé miklu hærri, þúsundir hafa verið handteknar og mörg þúsund manns eru á flótta vítt og breitt um landið en hundeltir af hersveitum Assads.

Evrópusambandið hefur sett harðari refsiaðgerðir á Sýrland m.a. varðandi olíu- sem er raunar ekki flóandi í þessu landi- en allt kemur fyrir ekki. Forystumenn Evrópuríkja hafa reynt að tala við Assad. Hann er mjúkmáll og vinalegur og að símtalinu loknu fara skriðdrekar hans og drápstæki enn af stað og ráðast gegn mótmælendum.

Það er óhugnanlegra að fylgjast með framvindu mála í Sýrlandi en annars staðar á svæðinu. Vegna þess að ekkert að þessu þurfti að gerast. Þegar menn byrjuðu að safnast saman voru engin raunveruleg mótmæli gegn Assad í gangi. Menn vildu eiginlega bara taka þátt í að láta forsetann vita að gott væri nú að hann hraðaði þeim umbótum sem hann hefur sannanlega unnið að þennan áratug sem hann hefur setið að völdum.
Menn veifuðu myndum af honum og sýrlenska fánanum og lýstu yfir stuðningi við forsetann en vildi hann sem sagt gjöra svo vel. Þetta fór allt fram með friði.

En Basjar Assad og menn hans virðast hafa fyllst ofsóknaræði og skelfingu; í stað þess að bregðast við af yfirvegum og skynsemi. Þar með fór sem fór.

Basjar Assad á sér ekki viðreisnar von úr þessu. En það er afar vandséð hvernig þetta muni enda. Hann á sér ekki lengur bandamenn innan Arabaheimsins. Og hann heldur áfram að drepa landa sína og ofsækja. Og virðist ekki depla auga.

Hvað hefur eiginlega komið yfir Basjar Assad? Þennan hófsemdarmann og stillingarljós sem virtist vilja nútímavæða Sýrland og í sátt við sitt fólk



Fjölmiðlar voru skjótir til að lýsa yfir uppgjöf Gaddafis. Þegar þetta er skrifað er enn barist í Líbíu og m.a. í höfuðborginni Tripoli. Gaddafi finnst ekki, sonurinn Saif al Islam sem sagður var í haldi uppreisnarmanna kom fram á dögunum, og lýsti yfir að þetta væri allt í góðu lagi og faðir hans hefði völdin.

Stjórnir ýmissa landa viðurkenna uppreisnarmenn sem lögmæta stjórnendur og það finnst mér afar sérkennilegt því í reynd er ekki vitað nema að takmörkuðu leyti hverjir þeir eru. Leiðtogar þeirra eru þegar farnir að stríða um völdin innbyrðis og það verður bara vatn á myllu Gaddafis og þeirra sem enn styðja hann.

Og séu menn svo einfaldir að trúa því að það eitt að koma Gaddafi frá leysi mál Líbíu eru þeir á villigötum. Það tekur eitthvað við ef og þegar hann fer í alvörunni. Og við höfum ekki grænan grun um hvað það verður.

Bandaríkjamenn voru ásakaðir fyrir að hafa ekkert plan B til reiðu eftir að í ljós kom að Írakar voru ekkert sérlega lukkulegir með innrásina 2003. Síðan hefur allt logað í illdeilum í Írak og Bandaríkjamenn segjast nú vera á förum þaðan. Skilja eftir sundraða þjóð og eyðilagða. Menn eru drepnir í Írak á degi hverjum. Það er ekki lengur fréttnæmt og framtíðin í því landi algerlega óráðin gáta. En þeir náðu þó Saddam! Maður veit ekki hvort á að hlæja eða gráta.

Það er því ekki nóg að NATO varpi sprengjum á einhverja sem þeir telja vera liðsmenn Gaddafis í Líbíu og uppreisnarmenn nái golfvellinum sem Gaddafi hefur spilað golf á. Það gætu hafist hefndaraðgerðir og valdabarátta af hörkulegra taginu því enginn virðist í reynd vita hvað á að gera þegar Gaddafi hrökklast frá.

Hvorki Líbíumenn né Sýrlendingar hugsa út í hvað verði síðan. Og þar með getur blóðbaðið haldið áfram og ekki þokkalegra ástand komið upp en nú er í þessum tveimur löndum. Því er nú verr og miður.

No comments: