Sunday, August 28, 2011

Ítrekun varðandi heimilisföng- og sitt lítið af hverju´- endilega finnið hópmyndir sem vantar



Í þá gömlu góðu daga þegar Maher var frjáls og við gátum hópast til Sýrlands
Mynd Ásdís Ólafsdóttir

Nú vinnur ritnefndin að haustfréttabréfinu og mig langar að ítreka við ykkur að senda mér rétt heimilisföng. Einnig ef þið hafið fengið ný netföng.
Fréttabréfið verður bústið og girnilegt að venju, þar verður m.a. grein um sögu Afganistan, tölfræði ferðanna, smágrein um Eþíópíu, hugleiðing um Uzbekistanferð á vordögum og margt fleira.
Haustfundurinn er settur á 1.október og vinsamlegast takið daginn frá. Góður fyrirvari

Á linknum Þátttakendur í ferðum hef ég sett allar þær hópmyndir sem ég hef átt eða fengið lánaðar. Allmargar vantar og byggju einhverjir svo vel að eiga þær þætti mér afar vænt um að fá þær lánaðar í nokkra daga. Skoðið endilega hlekkinn. Þar má sjá hvaða myndir vantar. Vantar til dæmis mynd úr fyrri Ómanferð en hún var tekin og var fín en mér er ómögulegt að finna hana. Einnig vantar Sýrlands og Jemenmyndir. Kíkið endilega á þetta.

Ég hef fengið allmargar fyrirspurnir um þriðju Eþíópíuferð. Hún verður EKKI. Eins og ég hef sagt vonast ég til að ná þátttöku í Íranferð- ný dagskrá en auðvitað farið til Isfahan, en það verður síðasta ferðin.
Það er gerlegt að mjaka 2 í seinni Eþíópíuferð og nokkrir eru á biðlista í fyrri ferð.

Einnig hef ég fengið fyrirspurnir um Ómanferð en ætla ekki að plana neitt slíkt. Þær ferðir hafa verið nokkuð dýrar og ég tek Íran framyfir enda gekk nokkuð brösuglega að fylla þessar tvær Ómanferðir sem voru farnar.

Það er hætt við að bið verði á því að efnt verði í hópferðir á margar þær slóðir Arabaheimsins sem við höfum ferðast um eins og að drekka vatn. Það er hörumung til þess að vita hvað þar gerist þessar vikurnar og það er mikil einföldun og barnaskapur að ímynda sér að allt falli í ljúfa löð og málin leysist um leið og einræðismönnum hefur verið ýtt úr sessi. Margir virðast ætla að svo sé. En málið er miklu flóknara eftir átök síðustu mánaða.

Við getum vissulega kæst yfir því að hafa sótt þessa merku staði heim meðan allt var öruggt og þar sem ég komst nú ekki til Jemen fyrir Uzbekistanferðina vona ég enn að það takist eftir Íranferð í október. Oft hefur verið þörf að styðja krakkana í Jemen en nú beinlínis nauðsyn. Á meðan málin eru jafn óskýr og raun ber vitni um nú hef ég þó ekki haft samband við stuðningsmenn. Kunningjar mínir í Sanaa segja að enn sé ekki ljóst hvort skólar taki til starfa þar með eðlilegum hætti í haust og börnin luku ekki vorprófum.

En vinsamlegast munið að senda mér rétt heimilisföng. Það kostar sitt að pósta þau og magur félagssjóður VIMA hefur ekki efni á að borga undir fréttabréf sem síðan komast ekki til skila.

1 comment:

jóhanna said...

Hafa bæst við í Eþíópíuferð svo nú skrifa ég á biðlista í báðar þær ferðir
KvJK