Friday, October 25, 2013

Íranferð í september




Vegna áskorana hefur verið ákveðið að efna til Íranferðar í september. Menn kynni sér ferðaáætlun og hafi samband á jemen@simnet.is til að tilkynna þátttöku.


Ferð til Írans 3.-17.sept 2014

1. dagur 
Flogið er með Flugleiðum til Frankfurt. Þar hinkrum við um stund en tökum svo LH síðdegis og er flogið beint til Teheran. Leiðsögumaður okkar Pezhman Azizi. Síðan er farið á Laleh hótelið og menn hvíla sig til kl 11

2.dagur Morgunverður
Farið á glæsilegt teppasafn sem er í göngufæri við hótelið. Hádegisverður og að svo búnu til flugvallar. Flogið til Kerman. Kerman er ævaforn borg og fyrstu heimildir um byggð eru frá  3.öld fyrir Krist. Borgin liggur í jaðri hinnar firna víðáttumiklu eyðimerkur Dasht Lut og er skýlt af hrikalegum Paytfjöllum. Kerman var  mikilvægur áningarstaður á silkileiðinni til forna.
Í Kerman gistum við á Parshóteli sem er 5 stjörnu hótel.(íranskur mælikvarði). Við tökum því rólega og göngum snemma til náða
.
3.dagur morgunverður
Síðan er skoðunarferð um Rayen kastalavirkið, garð prinsanna og farið til útbæjar Kermans Mahan. Hádegisverður. Skoðun Ganjalikhan bygginguna þar sem gefur að líta sögulegar minjar frá aðskiljanlegum tímum. Við skoðum ævagamalt baðhús, rannsökum á markaðinní Kerman þar sem margt er að sjá og skoða. Dúkar og teppi frá Kerman eru í hávegum höfð.  Kvöldverður í Kerman og að honum loknum farið í koju og snemma næsta morgunn er lagt af stað til Sjiraz.

4. dagur morgunverður
Lagt af stað til Sjiraz. Á leiðinni er stoppað víða við eftirtektarverða staði, svo sem við Saltvatnið, Sarvestan höllina frá ævagömlum tíma. Borðum hádegisverð á litlu veitingahúsi í Neyriz.  Við komum undir kvöld til Shiraz. Gistum á Pars hóteli sem er fallegt og þægilegt hótel, miðsvæðis í borginni.

5,dagur, morgunverður
Skoðunarferð  um Shiraz, farið í Fjólubláu moskuna, kastalavirkið og gamalt speglahús. Förum að minnismerki persneska skáldsins og súfistans, Hafez. Einnig skoðum við Eramgarðana og vitjum annars skálds, Saadis en Íranir gera skáldum sínum hátt undir höfði. Væri ráð að líta við á bazarnum.Kvöldverður og gist á Pars.

6. dagur morgunverður
Nú er stefnan stungin út til Persepolis, sem margir telja hápúnkt Íranfarar. Það var borg Akkamenida og bygging hennar hafin á tímum Dariusar mikla u.þ.b 518 fyrir Krist. Þegar borgin var fullbyggt náði hún yfir 125 þús.fermetra svæði og var efalaust mesta afrek og djásn hins forna Persaveldis með útskornu húsum, bænastöðum, súlnagöngum og fleiru. Næstu Persakóngar sátu þar en þegar Alexander mikli Grikkjakonungur kom á svæðið um 318 f. Kr. lagði hann  eld að borginni. Samt hefur tekist að bjarga ásjónu þessa gimsteins með þrotlausri vinnu og rannsóknum. 
Eftir að við höfum skoðað Persepolis keyrum við nokkra kílómetra þar sem er Nekropolis- borg hinna dauðu- og þar eru grafir fjögurra konunga hoggnar inn í klettabelti.
Við borðum hádegisverð skammt frá Persepolis og höldum aftur til Sjiraz og gerum þá stuttan stans við Kóranhliðið. Gist í Sjiraz.

7.dagur morgunverður.
Lagt af stað til Jazd. Á leiðinni vitjum við Pasargad sem er grafhýsi Kýrusar, sem var fyrsti konungur Persa. Við sjáum elsta  sýprustré sem um getur, stoppum til að sko‘ða hið fræga vatnsleiðslukerfi (Qanat) og víðar. Við komuna til Jasd förum við á Moshir al Mamalek hótel, borðum þar og gistum. Hótelið er mjög sérstakt, lækur liðast um garða og skrækir páfagaukar fagna okkur. Herbergi afar falleg.

8. dagur morgunverður
Skoðunarferð um Jasd. Við skoðum Amirchakmagh torgið, göngum um gamla bæinn sem er sérstakur, förum í hús eldsins, skoðum vatnssafnið og förum í Dowlat garðana og borðum þar hádegisverð. Þá er farið að Turni þagnarinnar þar sem Zorostrianar sem eru fjölmennir í þessari borg bjuggu um sína látnu.
Jazd er óvenjuleg borg og afar myndræn og fróðlegt að kynna átrúnaði stórs hluta íbúa. Þeir hafa oft verið ranglega kallaðir elddýrkendur en í raun trúðu þeir á árstíðarnar fjórar og meginöfln fjögur.
Borðaður kvöldverður og gist í Moshir al Mamalek.

9. dagur morgunverður
Þá liggur leiðin til Esfahan og á leiðinni er komið við í vagnlestastöð og síðar í kastalavirki. Heimsækjum vefarahjón í Nain og skoðum fleiri staði á leiðinni. Við komu til Esfahan tjekkum við inn á Aseman, fallegu hóteli sem stendur við Lífgjafarfljóti‘ð sem rennur um morgina. Borðum þar og gistum.

10. dagur morgunverður
Farið í armenska hverfið, skoðum hinar undursamlegu brýr yfir fljótið sem eru mörg hundruð ára gamlar og nú notaðar sem göngubrýr. Við skoðum Chehel höllinameð mögnuðum málverkum, skoðum Ali Qoli baðhúsið og lítum við á Stóra baxarnum. Gist á Aseman

11.dagur morgunverður
Leiðin liggur á torgið í Esfahan sem er ólýsanlegt að stærð og fegurð með görðum sínum og gosbrunnum, að ógleymdum mörg hundruð litlum verslunum með allt milli himins og jarðar. Við skoðum Ali Qapu höllinn og Imammoskuna sem varla á sér hliðstæðu í heiminum. Einnig mosku Loffollad og að því loknu væri ráð að fá sér te á skrítnu og skemmtilegu tehúsi á markaðnum. Við sækjum einnig heim vini okkar í teppabúðinni. Gist á Aseman

12. dagur. Morgunverður
Frjáls dagur í Esfahan. Máltíðir eru innifaldar þennan dag líka. Fararstjóri og leiðsögumaður verða innan seilingar fyrir þá sem það kjósa.

13.dagur Morgunverður
Við leggjum af stað til Teheran. Komum við í Kashan og skoðum þar falleg, gömul hefðarhús sem er verið að gera upp fyrir söfn ofl. Við lítum inn í Fingarðana ofl. Við komuna til Teheran tjekkum við inn á Laleh hótelinu og gistum þar.

14.dagur morgunverður
Við förum á þjóðminjasasfnið sem er eftirminniglegt og glæsilegt safn, komum við í Skartsafninu þar sem sjá má gersemar síðustu keisarafjölskyldu og á fleiri staði eftir því sem tími leyfir.
Kvöldverður og síðan geta menn lagt sig um hríð og

15.dagur um miðnætti fáum við kökusneið, te og kaffi í lobbínu á Laleh og þvínæst lagt af stað til flugvallarins. LH vélin okkar fer í loftið kl. 3:15 og við komum til Frankfurt árla morguns. Nokkurra tíma bið þar en tökum svo FI vél heim og er áætlað að hún lendi í Keflavík kl. 15:35

Innifalið í ferði:
Flug og allir skattar
Gisting, miðað við tvo í herbergi
Fullt fæði
Aðstoð við vegabréfsumsókn
Allur akstur
Flug innan Írans
Skoðunarferðir á alla staði sem eru taldir í leiðarlýsingu
Kaffi/te og kökur á löngum akstursleiðum
Kort af Íran
Vatnsflaska á dag
Íslenskur fararstjóri og íranskur, enskumælandi leiðsögumaður

Ekki innifalið:
Vegabréfsáritun
Þjórfé til íranska leiðsögumannsins og bílstjóranna
Aukagjald fyrir eins manns herbergi

Sunday, September 8, 2013

Fatimusjóður leggur 10 milljónir í hjálpastarf við hreyfanleg sjúkrahús fyrir konur og börn á flótta í Líbanon

Harðir bardagar geisa nú í hinum sögufræga bæ Malulah sem allir Íslendingar þekkja





Ástandið í Sýrlandi verður stöðugt hrikalegra og flóttamenn streyma yfir landamæri nágrannalanda í leit að skjóli. Mikil þörf er fyrir öflugt hjálparstarf. Flestir flóttamannanna eru í Líbanon, þar sem heilbrigðisaðstoð fyrir þá stendur á brauðfótum. Rauði krossinn á Íslandi styður Rauða krossinn í Líbanon til að mæta brýnum þörfum flóttafólks fyrir heilsugæslu og læknisaðstoð.

Ástandið í Sýrlandi
Talið er að um 100 þúsund manns hafi látið lífið í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi. Sjö milljónir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín, þar af fimm milljónir sem eru á vergangi í eigin landi og tvær milljónir sem hafa flúið til nágrannaríkja. Heilbrigðiskerfi landsins er í molum. Alls hafa 38 spítalar og 149 heilsugæslustöðvar verið eyðilagðar í átökum undanfarinna mánaða.

Hjálparstarf Rauða krossins í Sýrlandi
Alþjóða Rauði krossinn og sýrlenski Rauði hálfmáninn hafa haldið uppi viðamiklu hjálparstarfi um allt land frá upphafi átaka. Því er þó ekki að leyna að afar torsótt hefur reynst að starfa þvert yfir víglínur, enda fjölmargir hópar sem takast á. Rauði hálfmáninn er samhæfingaraðili alls hjálparstarfs í landinu, sem þýðir að félagið dreifir hjálpargögnum bæði fyrir alþjóða Rauða krossinn og fyrir aðrar hjálparstofnanir svo sem stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Á hverjum degi leggja þrjú þúsund starfsmenn og sjálfboðaliðar sýrlenska Rauða hálfmánans sig í mikla hættu við störf sín, enda hafa 22 þeirra látið lífið í átökunum hingað til. Framlag Fatímusjóðsins á árinu 2012 var notað til að styðja hjálparstarf Rauða krossins innan Sýrlands.

Ástandið í Líbanon
Í Líbanon búa 3,9 milljónir manna en til viðbótar eru nú 700 þúsund nýlegir flóttamenn frá Sýrlandi. Því lætur nærri að fimmti hver maður í landinu sé flóttamaður frá Sýrlandi, en í landinu eru fyrir hundruð þúsunda flóttamanna, einkum Palestínumenn. Heilbrigðiskerfið í Líbanon er að mestu einkarekið, sem hefur í för með sér að efnalítið fólk hefur takmarkaðan aðgang að því. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að 51% flóttafólksins séu á barnsaldri og samtals 76% konur og börn.

Heilbrigðisaðstoð alþjóðasamfélagsins við sýrlenska flóttamenn í Líbanon byggir á því að auðvelda aðstoð að grunnheilsugæslu. Áhersla er lögð á fyrirbyggjandi heilsugæslu og læknisaðstoð, einkum í tengslum við barnsfæðingar, ungabörn (þar á meðal bólusetningar) og fólk með króníska sjúkdóma. Ekki er langt síðan hafist var handa við að veita slíka heilbrigðisþjónustu út frá hreyfanlegum heilsugæslustöðvum (mobile clinics).

Langt er þó frá því að slík heilsugæsla nái til allra. Þannig náði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til níu prósenta sýrlenskra flóttamanna í Líbanon á fyrstu mánuðum þessa árs.

Hjálparstarf Rauða krossins í Líbanon
Rauði krossinn á Íslandi og í Noregi hafa tekið höndum saman um að styðja verkefni sem Rauði krossinn í Líbanon starfrækir til hjálpar sýrlenskum flóttamönnum í landinu. Verkefnið felst í því að halda úti þremur hreyfanlegum heilsugæslustöðvum, í Norður-Líbanon, Bekaa og Suður-Líbanon. Þar sem flóttamenn í Líbanon fá ekki leyfi til að mynda eiginlegar flóttamannabúðir þá fer hjálparstarfið meðal annars fram með þessum hætti. Læknar og hjúkrunarfræðingar fara um svæðin á bíl og veita margvíslega læknisþjónustu. Þá er gefinn sérstakur gaumur að leiðum til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum, sem yfirleitt er fylgifiskur svona aðstæðna.

Rauði krossinn í Líbanon starfrækir nú þegar heilsugæslustöðvar víða í landinu. Hinar hreyfanlegu heilsugæslustöðvar – bílar með læknum og hjúkrunarfræðingum – eru gerðar út frá þessum stöðvum. Aðstoðin er til viðbótar þeirri þjónustu sem veitt er í heilsugæslustöðvunum og sjúkrabílaþjónustu, sem líbanski Rauði krossinn rekur einnig. Meðal verkefna sem Rauði krossinn á Íslandi styður þannig í gegnum hinar hreyfanlegu heilsugæslustöðvar má nefna:

  • Ungbarnaeftirlit
  • Bólusetningar
  • Mæðravernd
  • Kvensjúkdómalækningar
  • Hreinlætisfræðsla og dreifing hreinlætispakka
  • Áfallahjálp
  • Lyfjagjöf vegna krónískra sjúkdóma
  • Aðgerðir til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og börnum
Aðstoðin fer að hluta til fram í gegnum sjálfboðaliða Rauða krossins í Líbanon, sem búa á sömu svæðum og flóttafólkið. Sérstaklega ber að taka fram að líbanskar konur munu taka þátt í að meta, með flóttakonunum frá Sýrlandi, hvaða ógnir steðja að konum og börnum og saman munu þær leita leiða til að draga úr ógnunum. Meðal starfsfólks hinna hreyfanlegu heilsugæslustöðva verður heilbrigðisstarfsfólk sem sérhæfir sig í að fást við aðstoð eftir kynferðislegt ofbeldi.

Það er von Rauða krossins á Íslandi að Fatimusjóðurinn sjái sér fært að styðja félagið við að halda úti því verkefni sem er lýst að ofan. Félagið lýsir sig reiðubúið til að veita Fatímusjóðnum upplýsingar um framgang verkefnisins á næstu mánuðum.

Tuesday, August 27, 2013

ÁHUGI Á FÉLAGAFUNDI

Sæl veriði
Ég hef verið með söfnun fyrir Sýrlendinga undanfarið og gengið vel. Mestu munaði um að Illugi Jökulsson ákvað að hlaupa hálft maraþon um nýliðna helgi til styrktar málefninu og undirtektir mjög góðar. Um sjötíu manns lögðu inn á reikninginn okkar 342 13 551212 og kt 1402403979. Illuga eru færðar bestu þakkir og öllum þeim sem hafa stutt þetta.
Þar sem ég veit að nokkrir muni leggja inn um mánaðamótin afhendum við Rauða krossinum þetta ekki fyrr en um miðjan september. Þórir Guðmundsson mun gera grein fyrir því í hvað nákvæmlega peningunum verður varið og við hjá Fatimusjóði leggjum áherslu á að  fá að vera með í ráðum þar.

Margir vilja endilega að við Vimuneytendur komum saman til fundar áður en langt um líður til að fjalla um ástandið í Sýrlandi og víðar í þessum heimshluta. Það eru engar ferðir fyrirhugaðar enda ekki margir staðir þarna, nema Iran sem vogandi er að sækja heim um þessar mundir. En okkur þætti gaman að hittast, rifja upp fyrri ferðir og halda kynnum við enda skópst góð vinátta innan félaga.

Ætlunin var að efna í slíkan fund nú í september en vegna sérstakra ástæðna verðum við trúlega að fresta því þar til í október.
Látið frá ykkur heyra, gefið smotterí inn á Fatimusjóð ef þið eruð aflögufær.

Þá vil ég benda á að mörg fréttabréf eru enn fáanleg. Ef þið hafið hug á að eignast þau hafið samband. Í þessum fréttabréfum er að finna ferðafrásagnir frá flestum þeirra fimmtán landa sem VIMA félagar heimsóttu, hljóðfæri, þýdd ljóð, skrif um mat, bækur, stöðu kvenna og ótal margt fleira góðmeti.

Sunday, June 23, 2013

Áhugi á endurfundum

Góðan daginn og langt síðan við höfum heyrt í hvert öðru.

 Nokkrir ferðafélagar hafa haft samband og láta í ljós áhuga á að VIMA félagar hittist með haustinu. Það er ljómandi hugmynd því margir kynntust vel í ferðunum okkar og aukin heldur er nóg að frétta úr heimshlutanum okkar. Þær fréttir eru ömurlegar, t.d. frá Sýrlandi þar sem landið er að verða ein rjúkandi rúst, tugir þúsunda hafa fallið og milljónir eru flóttamenn í nágrannalöndunum Jórdaníu, Líbanon og Tyrklandi og ekki skal gleymt þeim mörgu sem eru á flótta í eigin landi.
 Libía leit nokkuð vel út um tíma en nú virðist allt vera á leiðinni í bál og brand þar, Jemen stríðir við vatns og matarskort og mannrán hafa verið þar óhugnarlega tíð upp á síðkastið.
Það er þó bót í máli að ástandið í Íran er gott og menn binda vonur við nýja forsetann Rowhani sem var kosinn með ríflega 50 % atkvæða á dögunum og Íranir virðast mjög sáttir við hann.

Og vissulega væri gaman að hittast og gætum við valið efni til að skrafa um og bara rifja upp fyrri ferðir. Fleiri mættu gjarnan láta mig vita hvort þeir vilja taka þátt í samkundunni, annað hvort hér eða senda mér imeil á jemen@simnet.is

Látið heyra frá okkur. Þetta væri skemmtilegt.

Friday, May 3, 2013

Friday, March 15, 2013

Ferðadrotting VIMA

Góðan og blessaðan dag.
Hef fengið allmargar fyrirspurnir frá fyrrum VIMA félögum sem hafa áhuga á að þessari bloggsíðu verði haldið úti, kannski í breyttri mynd, og sömuleiðis hafa allmargir sagt mér að þeir sakni funda og því að hitta gamla ferðafélaga og væri því hreint ekki vitlaust að íhuga endurfundi svona einu sinni til tvisvar á ári Þið ættuð að vera svo væn að segja mér skoðun á því.

Að öðru leyti eru þær fréttir frá Sýrlandi að þar heldur ófriðurinn áfram með hörmulegum afleiðingum fyrir milljónir manns sem líða óbærilegar þjáningar dag hvern. Fatimusjóðurinn  gaf 5 milljónir til Rauða krossins eyrnamerkt Sýrlandi, þar af var tæp milljón sem ég safnaði á Facebooksíðu minni. Nú í haust bættum við 2 milljónum við til UNICEF, einnig til hjálpar Sýrlendingum. Þar af hafði safnast um hálf milljón á Facebook svo ég er mjög þakklát fyrir þann stuðning allan og bið ykkur lengstra orða að gleyma ekki Fatimusjóðnum, hann hefur sitt sama nr og fyrr 342 13 551212 og kt 1402403979. Eins og fram hefur komið hér á síðunni hefur hann einnig gefið til Jemen og svo til vatnsverkefnis í Eþíópíu.

Við Gulla Pé höfum dundað við að gera mjög ítarlegt en harla fróðlegt yfirlit um hversu margir þátttakendur hafa farið í hvaða ferð og hvenær. Þetta er svona useless information sem er gaman að glugga í. Niðurstaðan er að við getum hér með valið Ferðadrottningu VIMA sem er Sara Sigurðardóttir sem fór í alls 11 ferðir. Næst kemur Guðrún Sesselja Guðjónsdóttir með 10 ferðir og í þriðja sæti er Gulla  með 9 ferðir. Síðan koma Edda Ragnarsdóttir, Högni Eyjólfsson og Jóna Einarsdóttir með 8 ferðir og svona koll af kolli.

Þá vil ég benda á að slatti er til af flestum fréttabréfum sem verða eftirsóknarverðari með hverju árinu. Ef ykkur vantar inn í þá hafið bara samband á jemen@simnet.is og ég sendi það til ykkar gegn því að póstburðargjald sé greitt(inn á Fatimusjóð).

Tuesday, January 22, 2013

Unnið við vatnsþróna

Þessir menn vinna af kappi við gerð birkunnar (vatnsþróarinnar) sem Fatimusjóður greiddi fyrir. Tuttugu og fimm menn hafa unnið við verkið sem nú er á lokastigi. Mennirnir fremst á myndinni munu svo starfa við að afhenda íbúunum vatnshreinsitöflur, gefa leiðbeiningar þeim sem koma að sækja vatn og sjá um almennt eftirlit og viðhald.

Thursday, January 17, 2013

Vatnþró Fatimusjóðs í Eþíópíu á góðu róli

Sæl veriði
Fékk þær upplýsingar frá Hjálparstofnun kirkjunnar í gær að nú er langt komið að byggja vatnsþróna okkar í Eþíópíu en Fatimusjóður lét 1,8 millj. af hendi rakna til þessa verkefnis.
Einnig söfnuðu Eþiópíufarar í ferðunum okkar fyrir tíu smálánum að upphæð 10 þúsund kr. hvert sem úthlutað er til kvenna til að hjálpa þeim til að koma á fót atvinnustarfssemi, svo og  greiddum við fyrir nokkra kamra sem komið verður upp þar sem ástæða þykir til.

Við vatnsþróna verður komið upp skilti þar sem íbúum er óskað til hamingju með hana og sagt að hún sé gjöf Fatimusjóðs á Íslandi.

Hjálparstofnun kirkjunnar mun senda okkur myndir líklega í mars n.k. og verða þær þá birtar hér á síðunni.

Síðustu daga hef ég staðið fyrir fjársöfnun á Facebook síðu minni til hjálpar sýrlenskum flóttamönnum sem búa við ólýsanlega neyð, kulda og matarskort við landamæri Jórdaníu. Ég ákvað að safna hálfri milljón og það hefur nú tekist en ef lesendur og fyrv. félagar í VIMA vilja taka þátt í þessu er það vel þegið  Nr. er 342 13 551212 og kt 140240 3979.

Þá skal þess getið að ástandið fer nú batnandi í Jemen og sums staðar er skólahald að komast í horf á ný. Vonast til að komast þangað í lok febrúar eða byrjun mars og væri afar ánægjulegt ef við gætum tekið upp þráðinn á ný og styrkt börn í skóla.
Þið látið kannski frá ykkur heyra.

Tuesday, January 15, 2013

Ragnhildur Árnadóttir látin



Góður VIMA félagi, Ragnhildur Árnadóttir, er látin eftir erfiða baráttu við krabbamein. Ragnhildur var sjúkraliði að mennt og starfi og óhætt að segja að hún hélt ekki til í trafeskjum um dagana. Hún var fráskilin til margra ára en átti tvo syni sem voru hennar augasteinarnir hennar þótt það æxlaðist nú svo að annar byggi erlendis lengst af.
Ragnhildur var fædd 6.ágúst 1938.

Ég kynntist Ragnhildi þegar hún fór í fyrstu ferð með okkur til Jemen og Jórdaníu. Hressileg kona og lá ekki á skoðunum sínum, en mjúk og elskuleg manneskja og vildi öllum gott gera. Seinna fór hún með í fyrstu ferðina til Íran og síðar til Kákasuslanda. Alls staðar skemmtilegur ferðafélagi og  ein af þessum góðu og vesenislausu manneskjum sem er gott af hafa nærri. Hana dreymdi um að koma með til Uzbekistan en var þá orðin veik og ákvað að hún mundi hrista af sér sjúkdóminn og koma í seinni ferðina. Þegar það reyndist heldur ekki gerlegt sló hún sér á lær og sagði við mig: Þá læt ég ekkert stoppa mig og verð með til Eþíópíu. Ekki tókst það að heldur en hún hélt áfram að berjast eins og það ljón sem hún var,hjólaði, dansaði línudans og lét eins og þetta væri allt á réttri leið.
Ragnhildur var traustur VIMA félagi, hún studdi af litlum efnum jemensku stúlkuna Feirús til mennta og hún sótti fundi VIMA af hinum mesta áhuga.

Ragnhildur var góð og traust manneskja, skapmikil og skapljúf, viðkvæmur hrossabrestur og heiðarleg fram í fingurgóma.