Aðalfundur VIMA var haldinn nú í eftirmiðdag og var ekki að spyrja að aðsókninni frekar en fyrri daginn. Ég setti fundinn og afhenti vinningshöfunum úr Íranferðinni Eddu Gíslad Laxdal og Birnu Karlsd ljómandi fallegar jemenskar festar. Svo tók Mörður Árnason við fundarstjórn og lék við hvern sinn fingur í því embætti.
Skýrsla stjórnar var flutt, reikningar lagðir fram og þar sást svart á hvítu að menn hafa ekki verið nógu duglegir að greiða félagsgjöldin sín. Ásdís Kvaran gerði athugasemd við einn lið í reikningnum, þ.e. 80 þúsund sem greitt hefur verið fyrirlesurum á fundum okkar. Víst væri gaman ef við gætum fengið menn til að gera þetta endurgjaldslaust og fyrirlesari dagsins í dag, Gísli B. sagðist ekki mundu senda neinn reikning og í hléi greiddu menn svo árgjöld sem óðir væru.
Stjórnarkjör fór fram með friði og var stjórn og endurskoðendur sjálfkjörnir.
Eftir hlé var svo komið að Gísla B. Björnssyni sem skrýddist sínum ómanska búningi og talaði um Óman og Lena kona hans stjórnaði myndasýningunni. Þetta var einkar skemmtilega flutt og myndir hans og teikningar hreinasta unun á að horfa.
Þá er ekki nema rétt og ljúft að geta þess að Guðbjörn Jemenfari færði þeim ferðafélögum sem voru mættir á fundinum disk með Jemen/Jórdaníumyndum. Elskulega gert.
Menn skráðu sig í ferðir og tveir borguðu staðfestingargjald í Óman n.k. október. Svo var drukkið kaffi og borðaðar sætindis súkkulaði eða eplakökur. Góð stemning og ágæt og fundi slitið rétt fyrir klukkan fjögur.
Saturday, April 28, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment