Sunday, February 3, 2008

Allir æstir í að sækja heim Miðasíu


Mynd frá Kyrgistan. Við bústaði hirðingja, kallaðir júrt og maðurinn með hinn dæmigerða kyrgiska höfuðbúnað.

Fundurinn í Kornhlöðunni í dag var afar vel heppnaður. Okkur telst til að um sextíu manns hafi sótt samkunduna.
Þórir Guðmundsson talaði um Úzbekistan og Kyrgistan en þessi tvö lönd eru á dagskránni okkar árið 2009. Hann rakti stuttlega söguna og sagði einnig frá nútímanum. Var spurður fjölda margra spurninga og sýndi myndir.
Listi var látinn ganga um þátttöku og skráðu sig 15 manns í ferðina, og nokkrir höfðu gert það áður svo ég sé ekki betur en ferðin sé fullskipuð.

Menn ættu að hafa í huga að það eru fleiri ferðir á dagskránni og ekki gleyma þeim en sannleikurinn er sá að ferðir þessa árs eru nær allar uppseldar, þó má enn bæta við á stöku stað eins og frá hefur verið sagt.

Eftir að Þóri hafði verið þakkað með lófataki var tertuhlé. Þá hafði Gulla pé nóg að gera að taka á móti félagsgjöldum og skrifa nýtt fólk í VIMA. Svo talaði ég um ferðirnar væntanlegu, minntist aðeins á Jemenverkefnið okkar sem er allt á góðri siglingu. Sagði frá því að vinkona okkar Nouria er í London, gekk þar undir augnaðgerð sem tókst vel.
Nokkur gjafa og minningarkort voru einnig seld.

Gamlir félagar úr ferðum hittust á fundinum og skröfuðu og skemmtu sér og nýjum félögum var vel fagnað.

Ítrekað skal svo að ég fer til Uzbekistan og Kyrgistan í júní n.k. og eftir það verður fullburða áætlun vonandi sett inn.

Einhver sem hafði vistor í imeili ætti að láta mig vita, það er jafnan endursent og sagt að það sé komin ný addressa.

Takk fyrir fínan fund.

No comments: