Thursday, February 28, 2008

Á sjötta tug baráttukvenna mættu á fundinn í Iðnó í gær


Sæl öll
Í hádeginu í gær efnum við konurnar í aðgerðarhópnum til að kaupa stærra húsnæði fyrir miðstöðina í Sanaa til kröftugs fundar í Iðnó. Þar voru mættar á sjötta tug kvenna sem aðgerðarhópurinn hafði fengið til liðs

Helga Sverrisdóttir setti fundinn og Margrét Pála Ólafsdóttir tók við fundarstjórn og sagði frá því hvernig hún komst fyrir tilviljun í kynni við þetta verkefni sem hún teldi bæði merkilegt og verðugt.

Síðan rakti ég söguna um hvernig Fatímusjóðurinn varð til fyrir þremur árum og hvað gerst hefur síðan, þ.e. fyrsta árið studdum við 37 börn og 18 konur í fullorðinsfræðslunni en nú 113 börn og allar konurnar 25 í fullorðinsfræðslunni. Og hvað og hvað stefnum að því að gera núna: kaupa stærra húsnæði svo aðstaða YERO miðstöðvarinnar geti batnað og hægt verði einnig að efla starfið með krökkunum og fullorðinsfræðsluna.
Sýndar myndir frá starfinu

Þorgerður Anna, skólastjóri Hjallaskólans, sem er orðinn vinaskóli miðstöðvarinnar sagði nokkur orð og Sigþrúður Ármann, fulltrúi Exedra hópsins sem hefur hug á að koma einkum að fullorðinsfræðslunni talaði.
Ásdís Halla Bragadóttir sagði í lokin nokkur vel valin orð og brýndi konur til dáða.

Þetta var einstaklega góður fundur og mikil stemning meðal kvennanna að taka þátt í verkefninu.
Ég stakk upp á því að hver þessara kvenna á fundinum talaði svo við þrjár konur og fá þær með í hópinn og þannig gætum við smám saman ofið kvennanet sem hrinti þessu í framkvæmd.
Einnig mætti hugsa sér að konur hóuðu saman vinkonum í heimahúsum og til væri ég að koma þangað til að kynna þetta málefni.

Talað var um að við hittumst næst í maí og þá yrðu enn fleiri með, auk þess sem nokkrar hafa tilkynnt sig til þátttöku en gátu ekki komist á fundinn í gær.

Ég lét svo fundinn hafa númerið á byggingarsjóðnum og inn á það númer fari öll framlög sem fólk vill leggja í því máli til stuðnings. Í byggingarstjóði eru nú 6 milljónir en við þurfum að safna um 19 milljónum í viðbót. Þessar sex hafa orðið til með rausnarlegum gjöfum og einnig hafa peningar fyrir gjafa og minningarkort verið færð inn í sjóðinn.
0512-04-250091 og kt. 441004-2220.


Allmargar kvennanna munu leggja annað hvort eitt framlag í sjóðinn eða skrifuðu sig fyrir ákveðinni upphæð á mánuði í eitt ár. Munið að það skiptir allt máli.

Það er full ástæða til að þakka virktavel konunum sem að þessu komu og sóttu fundinn og mér heyrðist allar vera í sjöunda himni og hlökkuðu til að taka til hendinni.

Svo minni ég á fundina á sunnudaginn. Reikna með að ALLIR Íranfarar mæti þar sem mögulega geta. Veit að nokkrir eru forfallaðir en hafa látið vita.

Fundurinn um Sýrland/Jórdaníu er kl 3 sem ég kalla Majuhópinn því María Heiðdal bað mig um að skipuleggja þá ferð en nokkrir geta bæst við. Hef ekki fengið nægilega mörg svör þar.

Fundurinn um Jemen/Jórdaníu fyrri ferð er kl. 4 og tilkynningar um þátttöku þar í góðu lagi en vantar fáeina þó.

Seinni fundurinn um þá ferð er kl. 5 og þar virðist mér flestir hafa látið í sér heyra.

Takk fyrir það. En sem sagt: ég er að ganga frá áætlunum til afhendingar og verð að biðja þá sem ekki hafa látið í sér heyra að gera það. Þetta á einkum við um Sýrlandsferðina.

Líbíufarar nokkrir sem höfðu skráð sig áhugasama, einir sex eða svo hafa ekki látið mig heyra frá sér. Samt sýnist mér að ferðir til Líbíu verði tvær. Líbíufarar verða boðaðir til samveru í apríl eftir að við komum frá Íran.

1 comment:

Anonymous said...

til haingju með þetta Jóhanna mín, Iðnó hlýtur að vera góður staður tilað rúma svona andans afrek.

Ella Stína