Saturday, July 19, 2008

Nú fer að verða tímabært að skrá sig í ferðir næsta árs


Frá piparkökuborginni Sanaa í Jemen. Þangað er ferð ca 29.maí-13.júní. Nú höfum við efnt til alls sex ferða um þetta einstaka land sem langoftast hefur þau áhrif á okkar fólk að þar verður eftir duggulítill hluti af hjartanu.

Ég birti þessar myndir af góðri og gildri ástæðu:

Það fer að verða tímabært að skrá sig í ferðir VIMA 2009. Nokkrir hafa raunar þegar gert það en ég verð að fá á hreint vilja ýmissa sem hafa tjáð áhuga en ekki kveðið upp úr með það.



Mynd frá Kákasus. Stórkostleg landslagsfegurð. Einstök ferð og öðruvísi en hinar (hvorki í plús né mínus þó) held ég sé óhætt að segja. Kákasuslöndin þrjú eru ólík en öll sérlega falleg, fólkið spennandi og lífsglatt.
Við fórum fyrstu ferð þangað í fyrra og nú er næsta ferð ætluð í byrjun maí. Hún verður 18 dagar. Byrjað í Azerbadjan, síðan tekur Georgía við og loks Armenía.



Íransferðirnar hafa tvímælalaust slegið í gegn síðan við byrjuðum að fara þangað.
Nú eru ferðir þangað orðnar fjórar á þremur árum. Næsta ferð er í apríl, um páskana 2009 sem þýðir t.d að m.a kennarar ættu að nota tækifærið en þeir eiga erfitt með að komast í ferðir á veturna og á sumrin förum við hvergi, þá er einfaldlega alltof heitt í veðri.


Vatnshjólin í Hama í Sýrlandi.
Upphaflega var ætlunin að fara eina eða tvær ferðir. Nú eru þær hins vegar orðnar ríflega tuttugu. Áttunda ferðin til Sýrlands er nú í sept og uppseld. Ferð 2009 er í mars og þá verður Líbanon vonandi tekið með aftur.

Og svo er það silkilandið Óman. Þangað hafa verið tvær ferðir og fyrirhuguð sú næsta í febr. n.k. Þar sem hótelpláss er af skornum skammti get ég ekki haft Ómanferðina inni lengi ef ég fæ ekki viðbrögð. Abdúlla, gædinn okkar öðlingsgóði í síðustu ferð hefur komið á laggirnar lítilli ferðaskrifstofu og hafði samband við mig í gær(föstudag) því hann sendi mér nýja áætlun enda hefur ferðaskrifstofan sem við skiptum við áður lagt upp laupana.

Annað:
Seinna í dag eða á morgun mun ég senda öllum Líbíuförum tilkynningar um hvað hverjir eiga ógreitt.
Bið einnig um ljósritin af fyrstu fjórum vegabréfssíðunum vegna Líbíuferðanna beggja en býst ekki við að þurfa að senda út vegabréfin. All nokkur ljósrit hafa borist en miklu fleiri vantar. Drífa í því vinsamlegast.

Perlumarkaðurinn:
Þakka fyrir góðar undirtektir en samt væri ljúft að heyra frá fleiri félögum. Eru ekki einhverjir sem vilja nota tækifærið og grisja í skápunum sínum. Og uppskriftin að Fatímuköku send til "bakara" í næstu viku.

Af þátttakendum sem fóru í ferðirnar til Egyptalands, Íran og í Jemen/Jórdaníuferðirnar var upp undir það helmingur nýr. Gaman að því hvað endurnýjun hefur verið góð. Það er nauðsynlegt að hafa heppilega blöndu reyndra VIMAfélaga og nýrra.

Vinsamlegast sendið slóðina áfram til sem allra flestra.Það er einhver með veritascapital addressu. Hver er það? Og ef þið vitið til þess að fólk hefur skipt um netfang, tilkynna alúðlegast. Takk fyrir
Ekki meira í bili.

No comments: