Wednesday, September 24, 2008

Afmælisgjafir og tölvur og sitt lítið af hverju



Sælt veri fólkið á sólskinsdegi

Hér á Drafnarstíg ríkir mikil kæti og mikið þakklæti:

Í fyrsta lagi ákvað Hildur Bjarnadóttir að biðja fólk á afmæli sínu á dögunum að gefa í Fatímusjóð í stað gjafa. Ýmsir sem hyggjast gefa henni og voru fjarverandi á merkisdeginum hafi hugfast að reikningurinn er 1151 15 551212 og kt 1402403979

Í öðru lagi hringdi í mig í gær Sigríður Dóra Jóhannsdóttir, myndlistarkona, sem varð sextug nýverið og bað fólk sem vildi færa henni gjafir að leggja inn á reikning og hefur nú skenkt mér 250 þúsund krónur. Það er komið með sóma og sann inn á byggingarsjóðinn. Við hann hafa einnig bæst myndarlegar greiðslur og m.a. gaf Björgúlfur Thor Björgúlfsson 2 milljónir nýverið.

Enn gerðist það í morgun, að Ragnar Þorgeirsson ákvað að gefa Fatimusjóði (þ.e. viðkomandi JK) nýja tölvu og á því var brýn þörf þar sem núverandi tæki er að gefast upp á limminu fyrir sakir aldurs og mikillar brúkunar.

Þá er vert að segja frá því að SPRON-sjóðurinn veitti okkur 300 þúsund krónur og ég sendi þær tafarlaust til Nouriu sem tæp árslaun kennara.
Við höfum því greitt nú tvenn kennaralaun og fyrir 91 barn.
Ég hef líka veitt því athygli að hjón sem styrkja 2 börn í Jemen leggja auka 5 þúsund krónur mánaðarlega.

Ég er svo gáttuð og glöð yfir þessu öllu og fannst ég yrði að segja frá þessu. Ekkert af þessu er sjálfgefið en sýnir rausnarhug sem ég kann vel að meta.

Þá er að aukast salan í minningar-og gjafakortum og þau geta skilað drjúgu. Hafið það bak við bæði og ég sendi þau umsvifalaust fyrir ykkur.
Við hyggjumst svo gera nokkrar endurbætur á þeim áður en langt um líður, VIMAstjórn.

Svo minni ég á fundinn í Kornhlöðunni n.k. laugardag kl 14 þar sem Guðríður Guðfinnsdóttir verður aðalræðumaður og án efa forvitnilegt að hlýða á mál hennar þar sem hún var búsett í Jórdaníu á þriðja áratug. Hvet fólk til að fjölmenna og taka með sér gesti og nýir félagar eru velkomnir.

Í lokin : Hef sent allar vegabréfsupplýsingar beggja Líbíuhópa til ferðaskrifstofunnar þar í landi og þeir hópar hittast á sunnudag og skulu allir koma og fá sína miða og upplýsingar og fleira.

Í kvöld fer ég í Símennt Vesturlands á Akranesi og það verður gaman. Keflavík er svo fljótlega, plús einn Rotaryklúbbur sem einkum hefur áhuga á að heyra af Jemenverkefninu okkar.
Heyri að Líbanon fær hljómgrunn. Meira um það fljótlega.

Því er þetta allt í hinu fegursta standi.

1 comment:

Anonymous said...

Glæsilegt!!!

Kær kveðja,

Inga