Ég lít svo á að ég sé ekki öfundsjúkari manneskja en gengur og gerist. Virði fólk sem er duglegt í vinnu og spjarar sig í lífinu, hvaða störfum sem það gegnir.
Þó að ég hafi aldrei fundið hjá mér þörf né hæfileika til að safna peningum, eigum og þess háttar er mér að meinalausu og vel það að menn eigi myndarleg hús, tvo bíla eða fleiri, fellihýsi eða sumarbústaði, íbúðir í útlöndum ef það langar til.
Ekkert af þessu er annað en gott og blessað ef fólk hefur unnið fyrir því á heiðarlegan hátt.
En nú er mér alvarlega misboðið.
Ég fór í hárblástur áðan og þá þurfti ég vitaskuld að setja mig inn í það sem fræga og ríka fólkið er að gera í Séðu og heyrðu. Að vísu er dálítið erfitt að lesa þetta röfl en samt hef ég látið það yfir mig ganga þar til núna.
Auðkýfingarnir, fertugir eða fimmtugir sem bjóða nokkur hundruð manns í afmælin sín í einkaþotunum, allt glys og skraut og hégómi sem því fylgir.
Og ég er nýkomin frá Jemen með hóp VIMA félaga. Þar styrkjum við hátt í 100 börn og fullorðna með 200 dollara framlagi á ári til að þau geti notið menntunar sem ella væri ekki kostur á. Nú er aðsóknin hjá Nouriu Nagi og YERO orðin það lífleg að húsnæðið sem hún hefur á leigu er orðið of lítið. Hana dreymir um að geta keypt hús og fært enn út kvíarnar. Ég veit ekki hvað það kostar en ég er nokkurn veginn viss um það kostar ekki nema brot af þessum höllum, afmælisveislum og glinglrumding sem auðmennirnir okkar eyða á fáeinum dögum.
Við hjá VIMA höfum ekki kynnt þetta að neinu marki því okkur langaði að sjá hvernig krakkarnir stæðu sig og hvort væri vit í þessu. Ég hef leitað til tveggja ráðherra og beðið um styrk sem svarar árslaunum handmenntakennara. Frá hvorugri þessara ráðherrakvenna hefur borist svar. Ég hef haft samband við eina ríkiskonu og spurt hana hvort hún vilji styrkja þetta og ekki hefur hún haft tíma til að ansa því heldur.
En nú sting ég sem sagt upp á því í fullri alvöru að þó ekki væri nema einn þessara yfirgengilega ríku manna skryppu á einkaþotu sinni til Jemen og skoðuðu sig um þar og hvað YERO er að gera. Þeir mundu varla taka eftir því þótt þeir legðu út fyrir eins og einu húsi svo bláfátæk og ég endurtek bláfátæk börn gætu öðlast lífsgæði sem þau skortir nú.
En þeim mundi kannski líða betur - þó þeir séu náttúrlega svo hamingjusamir fyrir- að það er varla á sæluna bætandi. En þarna mundu þó peningarnir- dusulítið brot af þeim- verða til gagns.
Vinsamlegast látið þetta ganga áfram.
Johanna Kristjonsdottir
Monday, April 16, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
5 comments:
Jóhanna mín.
Jesú tók eftir þessu, að fátæka ekkjan gaf eina eyrinn sem hún átti á meðan hinir ríku gáfu smotterí af auðnum. Ég er hrædd um að þú getir ekki breytt þessum hugsanagangi hinna ríku. Þeir hafa ekki tíma vegna auðsöfnunar að líta til með hinum bláfátækustu.
Kveðja, Bryndís í Eyjafirði
mamma snillingur. frá elísabetu.
Þá sagði ríkur maður;
Talaðu við okkur um gjafir.
Og hann svaraði:
Að gefa af eigum sínum er lítil gjöf.
Hin sanna gjöf er að gefa af sjálfum sér.
Því að hvað eru eigur þínar annað en hlutir,
sem þú geymir og gætir af ótta við að þarfnast þeirra á morgun?
Og morgundagurinn, hvað mun morgundagurinn færa hinum margvísa hundi, sem
grefur bein sín sporlaust í sandinn, eltandi pílagríma á leið til hinnar helgu borgar?
Og hvað er óttinn við skortinn annað en
skortur?
Er ekki ótti við þorsta, þegar brunnur þinn er fullur, sá þorsti, sem ekkert fær svalað?
Til eru þeir, sem gefa lítið af nægtum sínum, og þeir gefa til að láta þakka sér, og
hin dulda ósk þeirra eitrar gjöfina.
Til eru þeir, sem eiga litið og gefa það allt.
Þetta eru þeir, sem trúa á lífið og nægtir lífsins, og þeirra sjóður verður aldrei tómur.
Til eru þeir sem gleðjast þegar þeir gefa, og gleðin er laun þeirra.
Og til eru þeir sem þjást þegar þeir gefa, og þjáningin er skírn þeirra.
Það er gott, að þú gefir, þegar þú ert beðinn, en það er betra að gefa óbeðinn af skilningi
Og hinum örláta er leitin að þeim, sem gefa skal, meiri gleði en að gefa.
Og er þá nokkuð sem halda á eftir?
Allt sem þú átt, mun einhvern tíma verða gefið öðrum.
Gefðu því, meðan tími er til, og ætlaðu það verk ekki erfingjunum.
(Kahlil Gibran)
Árni og Sjöfn, Jemenfarar
sæl elskan og takk fyrir síðast
tek undir með Elísabetu.........heyrði í ykkur í morgun þökk sé starfsfélugum mínum sem kölluðu mig að tækinu..látleysi þitt er mér að skapi
knús, Herta
Skemmtilegt viðtalið í morgunn!!! Búin að senda öfundarpistilinn í
ýmsar áttir,
tek undir það að stundum gengur fram af manni. Kv. Lena
Post a Comment