Sunday, August 17, 2008

Þá eru eftir fimmtán - munið tryggingar v/ferða


Hátíðarstúlka í Ghadames í Líbíu

Sælt fólkið allt
Það hafa fossað inn flíkur og hvers kyns gjafir til okkar í Síðumúlann þessa liðnu viku en okkur vantar meira samt og þurfum að taka hressilega á þessar síðustu tvær vikur.
Bið fólk enn að gefa sig fram í afgreiðslu þar og einnig og ekki síður í flutninginn í Perluna 29.ág og afgreiðslu 30.ág.
Við þurfum á öllu að halda til að þetta heppnist.
Þá væri æskilegt að fá yfirsýn yfir Fatimubaksturinn. Þessa köku má sem hægast baka með fyrirvara og geyma í frysti. Viljiði láta mig heyra frá ykkur. Hef sent uppskriftina vítt og breitt og hún liggur einnig frammi í Síðumúlanum.

Hér er uppskriftin, miðað er við venjulega bolla býst ég við. Ég hugsa ég hafi notað of stóra bolla því þessi uppskrift var rífleg í eitt form.

Fatimukaka

1/3 bolli brætt smjör
3 egg
½ bolli sykur
Vanilludropar
½ bolli hveiti
½ teskeið lyftiduft



Sett ofan á
1/3 bolli smjör
½ bolli sykur
1/3 bolli hunang
½ tesk. Kanill

Smyrjið hringlaga kökuform. Hitið ofninn í 200 gráður

Hrærið egg, sykur og vanilludropa vel og vandlega. Bætið í bræddu smjöri og hrærið
Bætið hveiti og lyftiduft saman við og hrærið gætilega. Sett í bökunarform og bakið í 10-12 mínútur. Á meðan má bræða smjörið við lágan hita og bætið við hunangi, kanel og sykri. Hrærið vel og þegar það er í þann veginn að sjóða takið þá af pönnunni og hellið yfir kökuna. Setjið hana aftur í ofninn um 15-20 mínútur


Einn bættist við í seinni Líbíuferð en verður ekki hægt að gera meira í því. Hvet alla ferðaþátttakendur til að sjá um að tryggingar séu í lagi ef svo ólíklega vildi til að einhver forföll yrðu. Ferðir eru fullborgaðar af minni hálfu þótt menn eigi eftir eina greiðslu. Dálítið misjafnt hvað menn eiga eftir að borga þar.
Menn skyldu hafa í huga að hótel í London er 8 þús fyrir 2ja manna herb og 11.400 fyrir eins manns og svo er upphæðin fyrir eins manns herb í Líbíuferðinni sem svarar 170 evrum.

Seinni partinn á morgun sendi ég tilkynningu til Sýrlands/Jórdaníufara um hvenær við hittumst á fundi til að afhenda miða og þess háttar.

Varðandi börnin okkar: Enn vantar stuðningsmenn fyrir fimmtán börn, tvo stráka og þrettán stelpur. Bið því nýja elskuríkast að gefa sig fram. T.d. fólk sem hefur stutt fullorðinsfræðsluna. Nú er formi á þeim stuðningi breytt og því væri fínt ef einhverjir sem hafa tekið þátt í því kæmu til liðs við krakkana. Þeir hafa algeran forgang núna.
Allmargir nýir stuðningsmenn hafa tekið að sér þessar stúlkur sem við bætum við, tíu talsins og einnig hafa nýir komið til sögu og styrkja börn þar sem fyrri stuðningsmenn hafa ekki látið í sér heyra og eða tekið sér pásu. Það er allt í góðu. Hafið það bak við eyrun að enginn skuldbindur sig nema til árs í senn. En þá er bara nauðsynlegt að ég viti hverjir draga sig í hlé.

3 comments:

Anonymous said...

Blessuð Jóhanna sæla, Áskotnaðist fatnaður, aðallega á börn eftir Blómstrandi daga hér í Hverag. Fyrrum samstarfskona er alltaf með basar á þeim dögum og hún gaf mér það sem var óselt. Er að þvo og hressa uppá góssið og svo erum við Jón Helgi tilbúin með það á fimmtudaginn í Síðumúlann og getum verið til gagns þann daginn og þú lætur mig vita hvaða tími hentar. kv. Jóna

Anonymous said...

Sæl Jóhanna,
viltu fá bækur á markaðinn sem mætti selja ódýrt, 100 eða 200 krónur?

Anonymous said...

Veit ekki hver sendi þessa fyrirspurn en ég verð því miður að afþakka kiljur. Viljum aðrar bækur.
MkvJK