Tuesday, August 12, 2008

Fjölmiðlaveislan í dag lukkaðist öldungis ágætlega


Nokkrar af myndum krakkanna okkar- þær verða seldar á markaðnum og Fatimukökur höfðu verið bakaðar í eftirrétt

Ljósm Björg Vigfúsdóttir

Fjölmiðlaveislan okkar í Síðumúla í dag gekk eins og í lygasögu. Afslappaðir og áhugasamir fjölmiðlamenn streymdu þangað, svo og ýmsir góðir gestir, þekkt fólk sem hafði verið beðið að leggja eitthvað af mörkum.
Ég get ekki talið öll þau dýrindi upp en nefni örfá og vona ég móðgi engan þótt ég muni ekki allt í augnablikinu.

Kogga gaf málverk eftir mann sinn, Magnús listmálara Kjartansson, heitinn og hún og Edda Jónsdóttir gáfu einnig einstaklega falleg leirlistaverk sem þær höfðu unnið í sameiningu, Hrafnhildur Hafsteinsdóttir kom með skrautskó og skart sem hún hafði borið í fegurðarkeppi ytra, Gerður Kristný færði okkur bókagjöf, Baltasar og Lilja voru með eintök af Mýrinni og fatnað. Sigríður Snævarr kom með merkiskjóla sem hún hefur klæðst við ýmsar opinberar athafnir, Rut Ingólfsdóttir með mjög sérstaka og flotta kjóla, Bjarki og Arnar Gunnlaugssynir gáfu jakka, Tryggvi Guðmundsson tískugallbuxur, Þórunn Sveinbjarnardóttir með gamalt og geggjað bjútíbox, Kristján Kristjánsson með Hugo Boss föt, Regína Ósk með undurfallega tösku og eiginlega er endalaus upptalningin.

Þá fannst mér til um heimsókn ungs drengs í skóla Hjallastefnunnar- vinaskóla YEROmiðstöðvarinnar- Árna Þórs sem gaf eftirlætisbókina sína.

Og svona mætti áfram telja.
Ásdís Halla bauð gesti velkomna og svo sagði ég nokkur orð.

Aðgerðarhópurinn hafði undirbúið allt listilega, matur og gos á boðstólum, myndir frá Jemen rúlluðu á tjaldi og tónlist hljómaði. Svo lágu frammi upplýsingablöð um markaðinn og Jemenverkefnið.


Hópurinn sem vinnur að markaðnum. Allmargar skörungskonur vantar þó á myndina.
Ljósmynd Björg Vigfúsdóttir

Seinni hluta dags héldu svo áfram að streyma til okkar fínar gjafir, hópur mætti til að sortéra og flokka af miklum dugnaði.

Athugið að það verður opið miðvikudag í Síðumúlanum kl. 16 í dag og til klukkan 20.
Endilega trítlið á staðinn. Vinnið við að flokka og merkja og fá ykkur hressingu og góðan félagsskap.

Þá langar mig enn að benda stuðningsforeldrum á að gefa sig fram því enn eru 20 eða 25 börn ekki með staðfestan styrk.

Og í leiðinni: vegna þessara ömurlegu mála í Georgíu sendi ég imeil til hennar Soffíu, indælu leiðsögustúlkunnar okkar. Hef ekki fengið svar en vona að hún og fjölskylda hennar séu óhult. Skilaði til hennar góðum kveðjum frá Kákasushópnum sl. ár.

No comments: